Er ég heilaþveginn?

Oft á tíðum finnst mér hugtakið „heilaþveginn” notað í neikvæðu ljósi og þá yfirleitt í ásökunartón til að gera lítið úr skoðunum annarra. Hvað þýðir samt raunverulega að vera heilaþveginn og er hægt að gera eitthvað til að sporna við þessu ástandi?

Ég finn enga staðlaða skilgreiningu á hugtakinu en samkvæmt orðabók Cambridge háskóla þá er skilgreiningin á því að heilaþvo eftirfarandi:

Á enskuto make someone believe something by repeatedly telling them that it is true and preventing other information from reaching them.[1]

Á íslensku myndi þetta nokkurn veginn þýðastað fá einhvern til að trúa einhverju með að endurtaka ítrekað að það sé sannleikur og koma í leiðinni í veg fyrir að aðrar upplýsingar nái til viðkomandi.

Eftir aðeins meira grúsk endaði ég á Wikipedia þar sem fyrirbærið heilaþvottur er skilgreint sem umdeild kenning um hugarstjórnun eða hugsunarstýringu. Í kenningunni er haldið fram að hægt sé að breyta eða stjórna mannshuganum gegn vilja einstaklings með sálfræðilegum aðferðum.[2]

Samkvæmt Britannica eru eftirfarandi dæmi um sálfræðilegar aðferðir til heilaþvotts:

– Að halda viðfangi aðskildu frá sínum nánustu.

– Að beita félagslegum þrýstingi og umbun fyrir samvinnu.

– Að beita líkamlegum og sálrænum refsingum ef ekki er farið eftir því sem er sagt. Dæmi um slíkar refsingar gætu verið félagsleg útskúfun, gagnrýni, takmörkun á mat, takmörkun á svefni og takmörkun á félagslegum samskiptum.[3]

(Veit ekki með ykkur en eitthvað af þessu minnir mig á nýafstaðið ástand í Vestrænu samfélagi en látum það liggja milli hluta.)

Í þessu ljósi finnst mér eðlilegast að velta fyrir mér hvaða líffræðilegu eiginleika okkar þessar sálfræðilegu aðferðir eru að vinna með.

Það er óumdeilt að við mannfólkið tökum upp alls kyns hegðun samborgara okkar án þess að hvert einasta atferli sé greint ofan í kjölinn. Við lærum t.d. að tala sama tungumál og fólkið sem við umgöngumst, klæðumst svipuðum fötum og deilum álíka siðferðissjónarmiðum.

Þetta er í sjálfu sér mjög eðlilegt þar sem tilhneigingin til að taka upp hegðun annara reyndist forfeðrum okkar vel. Fyrir tíma siðmenningar hefur það t.a.m. komið sér vel að læra af öðrum hvað í náttúrunni væri ætilegt og hvað ekki, ásamt því að þekkja hættur í umhverfinu. Sama hefur átt við um gildi hjarðhegðunar eins og t.d. með að herma eftir þeim sem voru að flýja aðkallandi ógn. Ég tel að það sé því ekkert óeðlilegt að þetta náttúrulega eðli okkar endurspeglist í samfélagslegum þáttum siðmenningarinnar.

Punkturinn er að heilmikið í okkar daglega atferli á sér engar grunnstoðir út frá gagnrýnni hugsun heldur skýrist af fólkinu sem við umgöngumst og samfélaginu sem við hrærumst í.

En hvernig tengist þetta því að vera heilaþveginn?

Ég velti einfaldlega fyrir mér þar sem engin nákvæm skilgreining er til á því ástandi að vera heilaþveginn hvort munurinn á því að t.d. herma eftir vinum sínum í klæðaburði eða að taka blásýrutöflu eftir inngöngu í sértrúarsöfnuð sé aðeins stigsmunur en ekki eðlismunur.

Mögulega eru sálfræðilegu aðferðirnar aðeins tæki og tól til að flýta þeim ferlum sem gerast annars náttúrulega hjá okkur í samdauni við annað fólk.

Tökum sem dæmi ólíkar stjórnmálaskoðanir í vestrænum heimi í dag. Fólk á svokölluðum vinstri kanti horfir á fjölmiðla sem endurspegla sínar skoðanir og sama gerist á hægri kantinum. Þessir einstaklingar mætast svo í matarboði og saka hvorn annan um að vera heilaþveginn. Varla geta þeir báðir haft rétt fyrir sér svo einhver hlýtur að vera heilaþveginn ekki satt?

Ég myndi svara þessu þannig að óháð sannleikanum þá séu mögulega báðir heilaþvegnir. Það er m.ö.o. allt eins hægt að vera heilaþveginn af einhverju sem er satt og einhverju sem er ósatt. T.d. geta fjölmiðlar stuðst við vandaðar heimildir af vettvangi stríðs en velja aðeins úr heimildir sem láta aðra hlið átakanna líta vel út. Þannig er hægt að skapa einhvers konar tálsýn af heildarmynd út frá nokkrum sönnum púsluspilum. Fjölmiðlar geta þannig notast við staðreyndir í umfjöllun sinni sem henta sínum áhorfendum sem telja sig í kjölfarið upplýsta um málin.

Sýnir hið skautaða ástand í pólitík einmitt ekki hvernig það er hægt að verða heilaþveginn án tilkomu sálfræðilegra pyntinga? Ef hægt er að heilaþvo fólk með að notast aðeins við ljósvakamiðla þá myndi það styðja við þá kenningu að það geti verið stigsmunur á heilaþvætti frekar en eðlismunur.

Hvað með eiginleika okkar samfélags þar sem mögulega glittir í þessar sálfræðilegu aðferðir?

Hvað með kennsluefni í skólum þar sem nemendum er kenndur einhver sannleikur þar sem lítil sem engin áhersla er lögð á gagnrýnisraddir námsefnisins? Hvað með refsingar innan námskerfisins í formi falleinkunna fyrir röng svör sem leiða svo af sér einhvers konar félagslega útskúfun eða takmörkun tækifæra?

Hvað með fullyrðingar valdastéttar um hvað sé satt og rétt en kalla svo gagnrýnisraddir „samsæriskenningar”án þess að svara þeim málefnalega. Hvað er slík gagnrýni annað en félagsleg útskún af hendi valdhafa ásamt því að skapa ótta hjá öðrum við að kynna sér aðrar hliðar á málunum?

Hvað með uppeldi þar sem „rétt”  hegðun getur leitt af sér umbun á meðan „óæskileg” hegðun getur leitt af sér refsingu?

Hvað með tungumálið sjálft? Við lærum tungumál í kjölfar endurtekningar í umhverfi sem endurspeglar orðaforða okkar. Sem dæmi eru um 40 orð til yfir snjó á tungumáli Ínúíta sem hafa þ.a.l. mun dýpri orðaforða til að lýsa umhverfi sínu en utanaðkomandi gestir. Tungumál lærast einnig í gegnum umbun og verða í kjölfarið vegakerfi hugsana okkar og tjáningar þar sem takmarkaður orðaforði passar upp á að engar hugsanir keyri útaf veginum.

Ég held það sé því hægt að segja með ákveðinni vissu að við séum öll heilaþvegin að einhverju leyti samkvæmt skilgreiningu hugtaksins í þessari grein. Mögulega er ástandið óhjákvæmilegt en kannski er hægt að sporna eitthvað við því með að greina skoðanir okkar og hegðun með tilliti til uppruna þeirra út frá gagnrýnni hugsun og röksemdum. Að sama leyti munu rimlar tungumálsins víkka við aukinn orðaforða sem skapar fleiri leiðir fyrir tungumálið að losna úr fjötrum sínum.

Höfundur er heimspekingur


[1] https://dictionary.cambridge.org/dictionary/english/brainwash

[2]https://en.wikipedia.org/wiki/Brainwashing#:~:text=Brainwashing%2C%20also%20known%20as%20mind,will%20by%20manipulative%20psychological%20techniques.

[3] https://www.britannica.com/topic/brainwashing

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *