Ef hægt er að segja að það sé hollt að alast upp sem olnbogabarn, þá birtast ávextir slíks uppvaxtar m.a. í því að menn átta sig á að tilvistin er í raun óháð vinsældum okkar þá stundina. Ég nefni þetta hér því á tímabili (2021-2022) var ég farinn að halda að ég væri mögulega einn óvinsælasti maður á Íslandi! Síðustu vikur og mánuði er ég farinn að hallast í hina áttina, því alls staðar virðist ég eiga nýja vini. Í tveggja manna tali heyri ég setningar eins og þessar:
– „Takk fyrir skrifin. Ég tek undir allt sem þú segir, sammála hverju orði, en ég vil ekki „læka“ neitt.“
– „Þú átt mikinn stuðning og hann er víða en menn þora ekki að tjá sig.“
– „Ekki gefast upp þótt þér finnist þú vera að tala út í tómið.“
– „ Horfðu á það að enginn andmælir þér lengur og mundu að þögn er sama og samþykki.“
Þetta eru dæmi um samtöl og skeyti sem mér berast nánast daglega frá fólki sem er feimið við að lýsa eigin viðhorfum.
Ég rita þessar línur til að minna á að daglega höfum við val um það hvort við kjósum að tjá hug okkar eða ritskoðum okkur sjálf. Dæmin sem ég nefni hér að ofan hafa verið sett fram af fólki sem telur sig þurfa að ganga í takt við kollegana, vill forðast að vekja á sér athygli – og telur jafnvel að hreinskilin tjáning muni hafa skaðleg áhrif fyrir sig persónulega og fjárhagslega. Stærsta vandamálið við þessa afstöðu er að hún er í raun svo óheiðarleg, bæði gagnvart sjálfum okkur og öðrum. Með því að hunsa rödd samviskunnar gröfum við smám saman undan eigin sjálfsvirðingu. Menn sem hafa ekki sjálfsvirðingu þora ekki að tjá hugsun sína, forðast þátttöku í opinberri umræðu og neyta ekki andmælaréttar.
Lágt sjálfsmat í menningarumhverfi sem hvetur fólk til sjálfsritskoðunar er augljóslega skaðlegt fyrir lýðræðið. Þegar við bætast ritskoðunartilburðir handhafa ríkisvalds og eigenda samfélagsmiðla, ríkisstyrktir og auðsveipir fjölmiðlar, auk útbreidds vantrausts til ríkisstofnana og samborgaranna, þá hafa í raun skapast kjöraðstæður fyrir valdboðs- og ráðríkisstjórnmál sem byggjast á hlýðni við valdhafa fremur en sjálfræði einstaklingsins.
Á fundi Málfrelsis í Þjóðminjasafninu kl. 14 nk. laugardag verða framangreind álitamál rædd og leitað svara við þeirri spurningu hvort samfélagsvefurinn sé að rakna upp. Á fundinum fá Íslendingar tækifæri til að hlusta á sjónarmið konu sem hvetur okkur til að verða ekki óttanum að bráð, heldur taka ábyrgð á eigin tilvist með virkri þátttöku í því að verja lýðræðið. Laura Dodsworth er höfundur bókarinnar „A State of Fear“ (2021) sem fjallar um þann hræðsluáróður sem fyrir liggur að bresk stjórnvöld beittu frá því snemma árs 2020 í því skyni að hræða fólk til hlýðni við tilskipanir yfirvalda. Líta má á fyrirsögn þessarar greinar sem tilraun undirritaðs til að lýsa megininntaki bókarinnar.
Annar frummælandi á fundinum verður dr. Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, sem varað hefur við þeim neikvæðu og einangrandi áhrifum sem rafræn samskiptatækni hefur á samfélag okkar.
Óttaslegið fólk, sem glímir við vaxandi félagslega einangrun og keppist við að ritskoða sjálft sig og aðra gæti haft gagn af því að mæta á þennan fund og átta sig á að virði okkar er ekki mælt í vinsældum. Sjálfsvirðingu og heilbrigt lýðræði þarf að byggja upp innan frá, í samvinnu og í samfélagi við aðra. Heilbrigt lýðræði vex úr grasrótinni og upp. Valdboðsstjórnmál berja á okkur ofan frá og niður. Það má kallast verðugt verkefni okkar allra að rjúfa einangrunina, herða upp hugann og þora að tjá það sem í hjarta okkar býr.