Braut hinna ranglátu

Ég vísa þér á veg viskunnar,
og leiði þig á beina braut,
Á göngunni verður ekki haldið aftur á þér,
og hlaupirðu muntu ekki hrasa.
Varðveittu leiðsögnina og slepptu henni ekki,
varðveittu hana því að hún er líf þitt.

Stígðu ekki fæti á braut hinna ranglátu,
og gakktu ekki á vegi illra manna.
Forðastu hann, farðu hann ekki;
snúðu frá honum og farðu leiðar þinnar.
Þeir geta ekki sofið nema þeir hafi framið illverk,
og þeir eru sviptir svefni uns þeir hafa orðið einhverjum að falli.
Þeir éta brauð illskunnar og drekka vín ofbeldisins.

Vegur réttlátra er eins og fyrsti bjarmi dögunar,
skín sífellt bjartari sem nær líður hádegi.
Vegur ranglátra er eins og niðamyrkur,
þeir vita ekki um hvað þeir hrasa.

Orðskviðirnir, 4. kafli

Orðskviðirnir eru 2700 ára gamalt ritsafn af meiði viskubókmennta. Mörg forn samfélög voru upptekin af visku og hvernig mætti öðlast hana. Fræðimaðurinn Gerhard von Rad sérhæfði sig í þessu riti og öðrum, og skilgreindi visku sem „hæfni með tilliti til raunveruleika lífsins.“ Það þýðir að viska er eitthvað meira en almennar reglur. Í flestum tilvikum duga reglur ekki til. Hægt er að gera réttan hlut á röngum tíma, og gera þannig illt verra. Á ég að segja eitthvað eða bíða? Á ég að taka af skarið eða halda aftur af mér? Við slíkum spurningum er ekkert eitt rétt svar. Viskan snýst um að vita hvað sé rétt að gera í þeim alflestu tilvikum þessa lífs þar sem reglur duga ekki til. Til þess þarf maður að hafa huga sinn og hjarta á réttum stað.

Að öðlast visku er eins og að ganga langan veg. Yfirleitt gengur maður, en stundum þarf maður að hlaupa smá spöl. En vanalega nær maður framförum með því að ganga. Skref fyrir skref. Lítil dagleg endurtekin verk. Þessi daglegu verk færa þig eitthvert. Skrefin þín færa þig á stað sem þú varst ekki á áður. Persónuleiki þinn er mótaður, ekki af dramatískum atburðum, heldur af daglegum verkum og valkostum. Minnstu ákvarðanir okkar móta persónuleika okkar.

Strákurinn sem hylmdi yfir

Í viðtali nokkru sagði bandarískur fangi söguna af lífi sínu. Þegar hann var ungur drengur átti faðir hans fallegt gullúr sem honum þótti vænt um. Einn daginn laumaðist drengurinn í herbergi föður síns. Hann tók úrið upp úr skúffu föður síns. Hann var að skoða það og leika sér með það. Hann missti það, og það brotnaði. Í ótta sínum lagði drengurinn úrið aftur í skúffuna og sagði ekkert. Og þegar faðir hans fann það, kallaði hann fjölskylduna saman og spurði hver hefði gert þetta – hver hafði brotið úrið? Og drengurinn sagði ekki neitt. Í dag minnist hann þess að hafa alltaf haft einskonar eðlishvöt til að hylma yfir. Hann sagði ekki satt. Hann var ekki hreinskilinn. Hann laug.

Mörgum árum síðar, eitt kvöldið, var hann að keyra bíl á dimmum vegi, og ók yfir barn. Á augabragði flúði hann af vettvangi. Líkt og um eðlishvöt væri að ræða, þá stakk hann af.

Þegar hann kom heim áttaði hann sig á því hvað hann hafði gert, en þá var hann of hræddur til að gefa sig fram, enda skammaðist hann sín og vissi að hann hefði gert glæpinn verri með því að flýja vettvang. Loks fannst hann þó, og sat í fangelsi í fjöldamörg ár; meirihluta þeirra sem hann átti eftir ólifuð.

Í viðtalinu sagði hann að það sem hafði ráðið örlögum hans hafi ekki verið ákvörðunin sem hann tók þetta tiltekna kvöld. Það voru litlu ákvarðanirnar sem hann hafði verið að taka um áraraðir – um að ljúga og hylma yfir til að vernda sjálfan sig. Persónuleiki hans var höggvinn í stein, svo hann gerði það sem hann var orðinn. Það eru ekki stóru viðburðirnir sem móta persónuleika okkar og örlög, heldur litlu ákvarðanirnar sem við tökum daglega.

Braut hinna ranglátu

Í kvæðinu að ofan sjáum við dæmi um svipaðan veg. Takið eftir því, að í upphafi kvæðisins höfum við stjórn á okkur:

Stígðu ekki fæti á braut hinna ranglátu,
og gakktu ekki á vegi illra manna.
Forðastu hann, farðu hann ekki!

Til að byrja með höfum við valið, en staðan versnar þegar maður er kominn á ranga braut:

Þeir geta ekki sofið nema þeir hafi framið illverk,
og þeir eru sviptir svefni uns þeir hafa orðið einhverjum að falli.

Orðalagið hér gefur til kynna að þeir sem séu á þessari braut hafi ekki lengur sama val. Tungumálið sem er notað er tungumál fíknarinnar og þráhyggjunnar. Þeir vilja fara að sofa, en geta það ekki, því einhver hefur náð lengra en þeir; einhverjum gengur betur en þeim; einhver hefur öðlast meiri pening, meiri frægð, meira vald, meiri vinsældir eða er orðinn fágaðri en þeir. Þeir verða að verða einhverjum að falli.

En hvaða fíkn er þetta, sem um er að ræða?

Þetta er fíknin í sjálfið. Sá sem er haldinn þessari fíkn er upptekinn af sjálfum sér og telur sig vera miðju alheimsins. Viðkomandi er háður því að bera sjálfan sig saman við aðra, og þurfa að draga þá niður. Því oftar sem maður hugsar: „Ég er jafn góður og þessi,“ eða „Ég er jafn góður og þú“, og af því meiri ákefð sem maður hugsar á þann veg, því verr er maður staddur.

Þú hugsar kannski ekki meðvitað með þessum hætti. En því oftar sem þú starfrækir líf þitt á þessum grundvelli; því oftar sem þú berð þig saman við aðra; því oftar sem þér finnst þú ekki fá það sem þú eigir skilið eða eigir rétt á; því oftar sem þú lætur það ónáða þig að aðrir nái meiri árangri en þú; þeim mun meira vorkennir þú sjálfum þér; þeim mun uppteknari ertu af sjálfum þér; þeim mun háðari ertu eigin egói.

Þessi fíkn getur tekið á sig margar myndir. Annars vegar gætirðu verið mjög feimin manneskja – manneskja með minnimáttarkennd – óörugg manneskja, sem finnst þú ekki nógu klár eða nógu góð eða nógu vel útlítandi. Þú gengur um með þetta viðhorf djúpt í hjarta þér. Enginn veit hve sjálfhverfur þú ert; en þú veist að minnimáttarkennd er birtingarmynd þess að vera upptekinn af sjálfum sér. Önnur birtingarmynd er hin ósvífna manneskja; manneskjan sem hugsar og segir jafnvel bókstaflega: „Ég er jafn góður og þú,“ eða jafnvel: „Ég er betri en þú.“ Hin hrokafulla, dónalega manneskja.

Hvort sem þú ert með meirimáttarkennd eða minnimáttarkennd ertu jafn upptekinn af sjálfum þér. Þú berð þig sífellt saman við aðra og pælir í því hverjir séu þér framar. Þú ert alltaf að taka eftir þessu. En hvar endar þetta?

„Vegur ranglátra er eins og niðamyrkur,“ segir kvæðið.

Og það sem verra er, er að „þeir vita ekki um hvað þeir hrasa.“

Hvað merkir þetta? Þetta lýsir því sem er öfugt við visku. Þetta lýsir óvisku. Þeir eru úr tengslum við raunveruleikann. Þeir vita að hlutir eru að fara úrskeiðis í lífi þeirra, en þeir vita hvorki hvað það er eða hvers vegna.

Viska er að vera í tengslum við raunveruleikann. Og því meira sem þú hugsar út í hvað þú ert flottur og góður; því oftar sem þú berð þig saman við annað fólk; því oftar sem þú gerir fólki upp hvatir til að réttlæta eigin afstöðu; í þeim mun meira mæli missirðu tengsl við raunveruleikann; þeim mun minna veistu í raun hvað er að gerast; þeim mun ónákvæmari sjálfsýn munt þú hafa og þeim mun óskýrari sýn munt þú hafa gagnvart öðru fólki.

Afleiðingin er sú að þú tekur heimskulegar ákvarðanir, og leggur líf þitt í rúst.

Til dæmis, í hvert skipti sem þú upplifir eitthvað gott, og í stað þess að vera innilega þakklátur sökum þess hve óverðugur þú ert, tekurðu því sem sjálfsögðu líkt og þú eigir það skilið. Í hvert skipti sem þú sýnir slíkt vanþakklæti, seturðu blett á sálu þína. Þú stefnir innávið, í átt að gremju. Þú ert á vegferð sem mun láta þér líða eins og þú fáir ekki það sem þú telur þig eiga rétt á. Í hvert sinn sem þú lendir í rökræðum og í stað þess að viðurkenna að þú hafir rangt fyrir þér – ef þú hefur rangt fyrir þér – reynir þú að réttlæta þig og færa sök yfir á aðra. Í hvert skipti sem þú tekur ákvörðun byggða á þeirri meginreglu – að fórna megi hagsmunum annarra fyrir þitt líferni, frekar en fórna megi þínu líferni fyrir hagsmuni annarra – ertu á leiðinni niður, í niðamyrkur.

Þú hefur misst tökin. Fíknin í sjálfið hefur tekið við stjórninni.

Þessar litlu ákvarðanir – og hugsanir – sem þú tekur daglega, móta persónuleika þinn og örlög.

Hjartað er uppspretta lífsins

En hvað er til ráða? Stuttu neðar í Orðskviðunum segir:

Varðveittu hjarta þitt framar öllu öðru,
því að það er uppspretta lífsins.

Hjartað er uppspretta lífsins. Lífið flæðir út úr hjartanu. Það sem er mikilvægast í hjarta þínu stýrir lífi þínu. Þú tekur allar ákvarðanir í lífinu með þetta að leiðarljósi. Þetta er það sem þú lifir fyrir. Þetta er það sem fær þig til að segja: „Ef ég hefði nú bara þetta eða ef þetta væri nú bara með þessum hætti, þá væri ég sáttur; þá væri ég ánægður; þá gæti ég meðtekið þetta líf fullur af gleði.“

Fyrir suma eru þetta peningar, starfsferill, frami, frægð, virðing, vald; fyrir aðra – vinsældir, maki, hjónaband, börnin þeirra eða jafnvel hamingja. Fyrir þetta fórnar þú öllu öðru. Ef peningar taka mest pláss í hjarta þínu munt þú fórna heilsu þinni, hamingju og fjölskyldu á altari peninganna. 

En það sem verra er, er að einblíning þín á þetta fyrirbæri getur haft þveröfugar afleiðingar. Ef maki þinn er þér fremstur í hjarta munt þú óttast um of að glata honum, enda óttast maður mest að glata því sem maður elskar mest. Þú munt verða öfundsjúkur, vænisjúkur og kæfandi, sem mun fæla maka þinn frá þér. Ef börnin þín eru þér mikilvægust munt þú sennilega ofvernda þau og vera of kröfuharður, sem mun fæla þau frá þér. Hinn möguleikinn er að þú óttist um of að vera of kröfuharður, með þeim afleiðingum að þú setjir of litlar kröfur og leyfir þeim að komast upp með allskonar vitleysu sem veldur þeim skaða. Niðurstaðan er sú sama.

Til viðbótar eru þessi fyrirbæri þess eðlis að þú getur glatað þeim. Þú fórnar öllu til að varðveita það. En stundum er það ekki nóg. Heimsmynd þín hrynur ef þú glatar því sem líf þitt snýst um. 

Þessir hlutir sem eru okkur yfirleitt mikilvægastir í hjarta eru iðulega ágætir í sjálfu sér – í hófi.

En ást þín á þeim mun verða þér að falli. Viska þín verður að vitleysu á sínum eigin forsendum. 

Það er því ekki hlaupið að því að finna veginn sem liggur til viskunnar og lífsins. Hliðið er þröngt og vegurinn mjór, og fáir eru þeir sem finna hann. Mögulega finnst hann þó með því að svara því, hvaða fyrirbæri sé þess eðlis, að sé það staðsett í miðpunkti hjarta manns, leiði það til þess að maður taki réttar ákvarðanir um flest allt sem skiptir máli?

Hvað heldur þú?

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *