Aðförin gegn frjálsri upplýsingamiðlun

Þegar félagið Málfrelsi var stofnað fyrir tveimur árum var það gert vegna alvarlegra þöggunartilburða á faraldursárunum sem hafði skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir heimsbyggðina. En þótt faraldurinn sé afstaðinn á málfrelsi enn undir högg að sækja.

Frumkvöðullinn Elon Musk varð málfrelsishetja í augum margra þegar hann keypti Twitter og umbreytti því í nýjan vettvang undir heitinu „X“ þar sem afhjúpanir á borð við „Twitter-files“ fengu óhefta birtingu. Í þeim kom í ljós hvernig bandarísk yfirvöld höfðu markvisst þaggað bæði efasemdarraddir og rannsóknir í faraldrinum á Twitter með þeim afleiðingum að aðeins ein orðræða, hliðholl allsherjar bólusetninarherferð, fékk að birtast.

Síðar hefur Musk sætt gagnrýni fyrir að taka afstöðu með ýmsum hætti í stríðsátökum í Úkraínu og Palestínu. Þá hafa fulltrúar Evrópuþingsins sakað miðilinn um að heimila dreifingu á „falsupplýsingum“ og öðru efni sem metið er ólöglegt og hafa því hótað lokun miðilsins í Evrópu. Gefin var út ákæra í júlí sl. þar sem miðillinn er sakaður um að blekkja notendur með bláa borðanum.

Nú hótar dómari í Brasilíu því að X verði bannað í Brasilíu en miðillinn er nú þegar bannaður í Kína, Norður-Kóreu og Rússlandi. 

Þetta sýnir auðvitað svart á hvítu að baráttan um málfrelsi á undir högg að sækja og að valdamiklir hagsmunaaðilar sækjast eftir því að þagga vettvanga sem eru með slakari skilmála á stýringu á upplýsingaflæði.

Þá hefur færst í aukana að óbreyttir borgarar séu handteknir fyrir það eitt að tjá sig á samfélagsmiðlum. Á dögunum var breska mannréttindakonan Sarah Wilkinson handtekin á heimilinu sínu á grundvelli hryðjuverkalaga en hún hefur gagnrýnt hernám Ísraela í tugi ára. Helstu fréttir af handtökunni hafa ekki verið áberandi í Evrópu heldur fyrir botni Miðjarðarhafs með gildishlöðnum orðum á borð við “pro” eða “anti” í fyrirsögnum. Þetta eru gildishlaðnir merkimiðar sem við þekkjum úr upplýsingastríðinu í faraldrinum.

Sama á við um blaðamanninn Richard Medhurst, einnig frá Bretlandi, sem var handtekinn á flugvelli á dögunum og tekinn til yfirheyrslu á grundvelli hryðjuverkalaga. Medhurst, sem er sonur þekktra friðarsinna sem hlutu friðarverðlaun Nóbels á níunda áratugnum, var látinn sitja í einangrunarklefa blásaklaus að eigin sögn.

Pavel Durov, stofnandi Telegram, var einnig handtekinn á flugvelli nú fyrir skömmu og færður til yfirheyrslu í Frakklandi í sömu viku og viðkvæmum upplýsingum frá ísraelskum yfirvöldum var dreift á Telegram þverrt gegn kröfum ísraelskra yfirvalda um ritskoðun. Mál hans minnir því margt um mál Julian Assange, stofnenda Wikileaks. Pavel Durov hefur nú verið sleppt en sætir farbanni í Frakklandi. 

Dæmi eru víðar um að óbreyttir borgarar séu handteknir fyrir að tjá sig á samfélagsmiðlum. Ísraelsk hárgreiðslukona af arabískum uppruna, að nafni Rasha Harami, var handjárnuð og færð í gæsluvarðhald í Ísrael vegna tjáningu á samfélagsmiðlum, sem var hliðholl mannréttindabaráttu Palestínumanna. Við handtökuna var auk þess bundinn borði yfir augu konunnar, sem var mjög brugðið eins og sjá má á myndbandsupptöku við handtökuna.

Ljóst er að aðförin gegn tjáningarfrelsi og óheftri miðlun á upplýsingum er veruleg og virðist aðeins vera að færast í aukana. Því hefur þörfin á vitundarvakningu aldrei verið meiri að nauðsynlegt er að standa vörð um málfrelsi og tjáningarfrelsi í samfélögum sem vilja kenna sig við lýðræði og upplýsta skoðanamyndun og ákvarðanatöku.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *