Að uppnefna forsetaframbjóðanda

Skjáskot úr myndbandi af ræðu RFK Jr hjá Hillsdale College. 

https://www.youtube.com/watch?v=Y1yUOGGC_I8

Skjáskot úr myndbandi af ræðu RFK Jr hjá Hillsdale College.

Á dögunum átti sér stað sögulegt viðtal við forsetaframbjóðandann Robert Kennedy Jr í einum vinsælasta hlaðvarpsþættinum í heiminum; „The Joe Rogan Experience“. Hlaðvarpið, sem hefur gefið út yfir 2000 þætti á 13 árum, er í efsta sæti á vinsældarlista Spotify í flestum enskumælandi löndum og í topp fimm á Norðurlöndunum. En þrátt fyrir gríðarlegt áhorf og vægast sagt sjokkerandi uppljóstranir af hálfu RFK Jr þá hafa nær engar meginstraumsfréttaveitur tekið það að sér að fjalla um viðtalið eða að rýna í uppljóstranirnar af einhverri alvöru.

Í þættinum lagði RFK Jr öll spilin á borðið og sagði sögu sína frá upphafi. Svo virðist sem hann hafi viljað mæta ásökunum um að hann sé „samsærissinni“ með því að bjóða hlustendum að rekja söguna sjálfir með vísan í gögn og beinar heimildir. 

RFK Jr naut mikilla vinsælda og var með óflekkað mannorð þegar hann beitti sér fyrir því að hreinsa menguð stöðuvötn í Bandaríkjunum á níunda áratugnum. Hann greinir frá því í viðtalinu þegar honum tókst að hreinsa Hudson-fljótið sem var svo mengað sumstaðar að hægt var að kveikja eld á yfirborði þess. Í kjölfarið stefndi hann verksmiðjum sem höfðu losað eitraðan úrgang í vatnið og fór með sigur af hólmi í alls 16 málaferlum. Í dag á hann heiðurinn af stofnun stærstu alþjóðasamtaka heims gegn vatnsmengun; „The Waterkeepers Alliance“. 

Þá vann hann sögulegan sigur árið 2018 í málaferli gagnvart Monsanto og RoundUp illgreseseyði vegna krabbameinsvaldandi eiginleika þeirra. 

Kennedy-fjölskyldan hefur í gegnum tíðina haft orð á sér um að vera réttsýnt, alþýðulegt og friðelskandi fólk, sem einhver ólukka virðist hvíla yfir en RFK Jr er sonur Roberts Kennedy, sem var myrtur árið 1968. Sömu örlög hlaut einn ástsælasti forseti allra tíma í Bandaríkjunum árið 1963, John F. Kennedy, sem var föðurbróðir RFK Jr. 

RFK Jr er lögfræðingur og greinir frá því í viðtalinu að í málaferlum gerist hann nokkurskonar sérfræðingur í málaflokkunum sem hann er að beita sér fyrir til að geta höfðað mál og unnið þau fyrir rétti. Hann segist hafa verið málsvari einstaklinga sem hafa orðið fyrir alvarlegum skaða af völdum bóluefna og unnið þau mál fyrir rétti. Það hafi m.a. orðið til þess að hann hafi fengið uppnefnið „anti-vaxer“ eða eins og sagt er í íslenskum fjölmiðlum „andstæðingur bóluefna“. Þetta þvertekur RFK Jr að hann hafi verið í upphafi feril síns. Öll hans börn séu bólusett bak og fyrir. En hann bendir þó á að þegar börnin hans voru lítil fengu þau mun færri sprautur en ungbörn eru að fá í dag og að hann hafi vissulega miklar áhyggjur af þróuninni og efasemdir um hana.

Það ætti að vera orðið ljóst í dag að stimpillinn „samsærissinni“ er í mörgum tilvikum notaður sem niðurlægjandi skammaryrði til að stýra áliti fólks á einstaklingum. Það er nóg að kynna einstaklinga til sögunnar sem „samsærissinna“ og láta óheppilega mynd, sem er viðkomandi ekki til uppdráttar, prýða fréttina til að lesendur dragi ákveðnar ályktanir og missi álit á umfjöllunarefninu. Slíkt er traust almennings á blaðamönnum. En gæti verið að pólitískir andstæðingar RFK Jr nýti sér stimpilinn til að hafa áhrif á forsetaframboð hans? Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi ef uppljóstranirnar fá hljómgrunn.

RFK Jr virðist hafa fallið í ónáð meginstraumsfjölmiðla eftir að hafa sett á laggirnar samtökin „Children’s Health Defence“ og fréttamiðilinn „The Defender“ sem greinir stundum frá aukaverkunum af völdum lyfja og bóluefna. Fátt er um jákvæða umfjöllun um framboð hans til forsetaembættisins, en hinsvegar er mikið um lágkúrulegan fréttafluttning og tilraunir til mannorðsmorðs.

Í staðinn fyrir að rýna í upplýsingarnar sem RFK Jr er að veita er reynt að gera lítið úr honum, eins og Dr Peter Hotez reyndi að gera í nýjustu aðförinni sinni. 

RFK Jr segist ekki hafa neitt að fela og hefur skorað Dr Peter Hotez ítrekað á hólm að mæta sér í rökræðum til að hrekja meintar missagnir en hann hefur ekki orðið við þeim áskorunum.
Þessi skortur á málefnalegri umfjöllun bitnar auðvitað á almenningi sem fær ekki möguleikann á að afla sér nægilegar upplýsingar til að geta tekið upplýstar ákvarðanir. RFK Jr segist standa og falla með sannleikanum og að eitt fyrsta verkefnið sem hann muni hrinda í framkvæmd, verði hann forseti, sé að leggja niður málsókn á hendur Julian Assange.

Í viðtalinu fór Robert Kennedy Jr yfir feril sinn sem umhverfisverndarsinni og núna forsetaframbjóðandi. 

Hann hefur nýtt sér aðgengi sitt að stjórnsýslunni, vegna fjölskyldutengsla, til að ræða beint við valdhafa og fara yfir rannsóknir og skjöl. Það var í þessu óeigingjarna starfi sem hann uppgötvaði skelfilega og siðlausa misbeitingu á valdi á mörgum sviðum embættisyfirvalda. Hann hefur skrifað ótal bækur um uppljóstranirnar, hin nýjasta í röðinni „The Real Anthony Fauci“ en hefur ekki verið kærður fyrir meiðyrði, þrátt fyrir að bækurnar hafa toppað metsölulista. Hann nefnir þó í viðtalinu að hann sé meðvitaður um áhættuna sem hann er að taka og að hann gæti hlotið sömu örlög og faðir hans og frændi; RFK og JFK, sem voru myrtir á dularfullan hátt.

Þrátt fyrir að vera með krónískan skaða á raddböndunum er Robert Kennedy Jr. ein sterkasta röddin í Bandaríkjunum, og í heiminum, í dag sem talar fyrir lýðræði, gagnsæi, málfrelsi, mannréttindi og lýðheilsu. Röddin hans þarf að heyrast og hann hefur frá mörgu að segja.

Þriggja klukkutíma viðtal á Joe Rogan Experience var eflaust ekki nógu langt.

Greinahöfundur: Svala Ásdísardóttir

1 Comment

  1. RG

    Fín grein Svala, rakst einmitt á RoundUp í BYKO á dögunum. Ég er einmitt með podkastið í eyrunum í ræktinni þessa dagana. Mjög flott hjá RFK

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *