Íslensk umræðuhefð er um margt sérstök. Hver sem er getur skrifað opna grein í nánast hvaða fjölmiðil sem er og fá dæmi um að fjölmiðill hafni grein vegna innihalds hennar. Bókaútgáfa er lífleg. Fjölmiðlar eru tiltölulega margir og sumir reyna að skera sig úr í samkeppninni með því að bjóða upp á álitsgjafa sem fá ekki áheyrn hjá öðrum, og dugir í því samhengi að nefna að sömu raddir heyrast ekki í Kastljósi RÚV og viðtalsþáttum Útvarps Sögu. Landið er fámennt og því mikið um endurtekningar þegar kemur að vali á spekingum til að gefa álit sitt hjá stærstu miðlunum. Auðvelt er að hrekja menn af sjónarsviðinu með háværum ásökunum enda boðleiðir stuttar – nokkur hundruð „likes“ á samfélagsmiðlum duga til að svipta menn lífsviðurværinu vegna einfaldra ásakana sem reynast margar hverjar ekki standast nánari skoðun og hvað þá lögreglurannsókn.
Fjölmiðlar sem málpípur stjórnvalda
Á veirutímum kom bæði hið versta og besta fram í íslenskri umræðuhefð. Fréttamiðlar tóku sér stöðu fjölmiðlafulltrúa fyrir eitt tiltekið embætti með einn tiltekinn ásetning – þann að hindra veirusmit. Vegna fámennis féllu flestir á hnén þegar þessi boðskapur var boðaður enda vildi enginn hætta á að vera kallaður samsæriskenningasmiður, ömmumorðingi eða kærulaus andstæðingur samstöðunnar. Andófsraddir fengu þó yfirleitt aðgang að greinasíðum fjölmiðlanna og gátu þar komið sínum skoðunum áleiðis. Samfélagsmiðlar náðu til einhverra. En heilt á litið var keyrslan á eitt sjónarmið slík að það tók nálægt því 2 ár að sætta samfélagið á að ein veira á ekki að ráða ferðinni. Lífið snýst um meira en að forðast smit.
Annað dæmi um hið besta og versta í íslenskri umræðuhefð er bankahrunið svokallaða. Á tímabili var bara einn sannleikur á ferð: Sá, að stjórnvöld og bankastjórar á tímum bankahrunsins hafi borið ábyrgð á því. Gott og vel, stjórnvöld eru ábyrg fyrir því sem leiðir af ákvörðunum þeirra, en ýmislegt hefur þó komið fram á síðari tímum sem bendir til að heykvíslarnar hafi bent á rangan sökudólg, sem mögulega var enginn í íslensku samfélagi. Þar kemur bókin til bjargar. Fjölmargar bækur hafa komið út í kjölfar bankahrunsins sem afhjúpa margt sem áður hafði dvalið þögult í huga aðila sem sáu með eigin augum hvað var að gerast og hvað fékk áheyrn. Nýlegt dæmi er bók prófessors Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um Landsdómsmálið gegn þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde. Ljóst er að reiði almennings beindist að röngum aðilum og að aðrir hafi nýtt tækifærið til að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Annað nýlegt dæmi er bók Lárusar Welding, þáverandi bankastjóra Glitnis banka, og hans vangaveltur í tengslum við réttarríkið, ákvarðanir yfirvalda og persónulegar áskoranir í áralangri stöðu sakbornings í sakamáli án ills og hvað þá glæpsamlegs ásetnings.
Uppgjörið birtist í bókum
Þegar rykið hefur sest mun það sama eiga sér stað um veirutíma og bankahrunstíma: Bækur koma út. Þær munu opna á nýjar túlkanir, óvæntar upplýsingar og vafasaman ásetning ýmissa aðila. Þær munu draga saman þær skoðanir sem fengu mögnun í gegnum fjölmiðlana og aðrar sem fengu vissulega að koma fram á ýmsan átt en voru hunsaðar enda féllu þær ekki að ritstjórnarstefnu fjölmiðlafulltrúanna hjá hinum svokölluðu óháðu, hlutlausu og ríkisstyrktu fjölmiðlum. Þessar bækur munu benda á misræmið á milli áhættu vegna veiru og aðgerða gegn henni sem gengu á á Íslandi og víðast hvar annars staðar. Vegna fámennis, aðgengis að útgáfum og nægjanlegs áhuga almennings á að kaupa bækur um nýlega sögulega viðburði á Íslandi mun bókin standa eftir sem hráefnið í sagnfræðibækur framtíðar, þegar enn lengra verður liðið frá mistökum, ofstæki, hræðslu, þöggun og ritskoðun nútímans.
Eftir Geir Ágústsson