Samfélagsmiðlar voru snjöll hugmynd – sú að samfélagið fengi þar að deila, skrifa, birta, ræða og benda á. Menn gætu skipst á uppskriftum og stjórnmálaskoðunum. Í athugasemdum bærust ábendingar eða andmæli. Stafrænn veruleiki heita pottsins í Vesturbæjarlaug rétt fyrir lokun. Hvað væri lýðræðislegra, aðgengilegra og auðveldara?
Þetta gekk þannig séð lengi vel. Samfélagsmiðlarnir uxu hratt í skjóli frelsisins. Þeir voru ekki fjölmiðlar heldur torg – torg sem fólk gat mætt á og kastað út skoðunum sínum sem fengu sumar hljómgrunn, sumar andmæli, sumar hunsaðar.
Velgengnin beit samt í skottið á sér. Samfélagsmiðlarnir fóru að draga að sér tvennt: Mikla fjármuni, sem gerði þá ríka, og athygli yfirvalda, sem gerðu þá undirgefna. Niðurstöðuna þekkjum við vel í dag. Samfélagsmiðlarnir stunda mikla ritskoðun, enda þrýst til þess og hafa efni á að manna hana, og líkjast í dag miklu frekar gömlu flokksblöðunum en opnum torgum. Á Facebook og Youtube má segja þetta, á Rumble og X hitt. Á Telegram eru fáar hömlur en þá þarf að stinga forstjóra fyrirtækisins í steininn. Torgið, sem samfélagsmiðlarnir áttu mögulega einhvern tíma að vera, er á flótta.
Hvað er til ráða? Samfélagsmiðlar eru einkafyrirtæki og geta, rétt eins og eigandi gististaðar, vísað gestum frá. En er það svo? Um þetta er deilt. Mögulega er versti glæpurinn sá að þykjast vera torg en vera borg. Að þykjast leyfa ólíkar skoðanir en leyfa svo bara sumar. Þeir sem mæta á torgið telja sig vera í samfélagi manna en eru svo raun í samfélagi borgara – í einu samfélagi en ekki samfélagi allra manna.
Það kom í ljós á veirutímum að samfélagsmiðlar eru ekki fyrir samfélagið í heild sinni – samfélag manna- heldur ákveðin samfélög. Upp úr þessari opinberun hafa sprottið óteljandi hlaðvörp, síður eins og Substack, allskyns skilaboðaþjónustur og fleira mætti tína til. Málfrelsið er á flótta sem aldrei fyrr, en mögulega að takast vel til ef menn fylgjast með.
En eitt er víst: Gagnrýnin hugsun byrjar hjá þér. Þú munt í kjölfarið finna það torg – það samfélag – þann samfélagsmiðil – sem veitir henni útrás.