Merkin um ósannsögli

Við sjáum stundum merki um ósannsögli. Eitt merkið um hana eru auðvitað ósannar staðhæfingar. Stundum þekkir maður málavexti, og staðhæfingin samræmist þeim ekki. Þá kann að vakna grunur um að sá sem talar segi ósatt.

En, ef við tökum bein ósannindi til hliðar, hver eru þá helstu merkin um ósannsögli? Oft þekkjum við nefnilega ekki málefnið nógu vel til að dæma um hvort staðhæfingarnar séu sannar.

Við skulum fyrst skýra hvað við meinum með ósannsögli í ræðu og riti.

Óheilindi í ræðu og riti

Sá sem talar eða skrifar er ósannsögull ef hann reynir ekki í einlægni að tryggja að staðhæfingar hans séu sannar. Hann getur samt trúað röngum staðhæfingum í einlægni án þess að vera ósannsögull.

Þegar staðhæfing er sett fram þýðir það að sá sem það gerir telur hana mikilvæga eða telur að hún eigi erindi í umræðuna. En hvað ef staðhæfing felur í sér sannindi, en aðeins hvað varðar eitthvert aukaatriði, þannig að framsetning hennar dragi í raun athyglina frá því sem er máli skiptir? Jafnvel þó að staðhæfingin sé sönn er sá sem setur hana fram ekki sannsögull ef hann notar hana aðeins til að beina athyglinni frá því sem máli skiptir. Sannsögli snýst um að einbeita sér að því sem máli skiptir. Ósannsögli hefur öfugan tilgang.

Þegar maður talar eða skrifar ætti það að grundvallast á einlægni og viðleitni til að hafa það sem sannara reynist. Sá sem leitast ekki við það er ekki sannsögull, jafnvel þótt allt sem hann segir sé satt á yfirborðinu —„Bla, bla, bla,“ segir heimildarmaður í Hvíta húsinu.

Er blaðamaður að ljúga þegar hann talar við lygara og greinir frá staðhæfingum þeirra án þess að tilgreina að þær séu líklega lygar? Við gætum ekki sagt að blaðamaðurinn sé beinlínis að ljúga, en hann er samt ekki sannsögull.

Orðasalat

Í guðspjöllunum segir Jesú að það sem afskræmi mann sé ekki það sem hann lætur inn fyrir varir sínar, heldur það sem kemur úr munni hans. Slæm orðræða spillir sálinni.

Ein tegund slæmrar orðræðu er orðasalat. Í salati er grænmeti blandað saman án nokkurrar reglu. Í orðasalati er setningum og orðum hrært saman án samhengis, sem gerir málflutninginn merkingarlausan. Ekki aðeins eru orðin í óreiðu á þennan hátt, heldur er merking þeirra oft brengluð eða henni er snúið við. Fólk notar orð á hátt sem víkur frá hefðbundinni merkingu orðsins.

Fólk þvælir og gerir merkingu þess sem það segir vísvitandi óskiljanlega, til að forðast ábyrgð og forðast skuldbindingu. Orðasalat er sýndarmennska á vettvangi heiðarlegrar umræðu.

Að víkja sér undan umræðunni

Annað merki um ósannsögli er að nota strámannsrök gegn andstæðingum. Skellt er niðrandi merkimiðum á andstæðinginn, eins og „bólusetningaandstæðingur“, „loftslagsafneitari“, „afsakari“, „kynþáttahatari“ eða „kvenhatari“. Strámannsrök fela oft í sér að ýkja einkenni andstæðingsins til þess að afskræma hann og mistúlka það sem hann segir. Sá ósannsögli tekur síðan niður strámanninn.

Annað merki um ósannsögli getur falist í því að taka ekki þátt í umræðunni, til dæmis þegar spurningu er svarað út í hött. Þetta er líka afvegaleiðing. Þegar einhver er spurður um tiltekna stjórnmálastefnu og svarar: „Ég kem úr millistéttarfjölskyldu, OK.“

Sálin spillist ekki aðeins með því maður lætur út úr sér. Að þegja getur líka spillt henni. „Það eru tímar og aðstæður þar sem það að tala ekki hreint út felur í það minnsta í sér að maður víkur sér undan því að taka afstöðu gegn hinu illa“ segir Edmund Burke.

Ósannsögli getur einnig birst sem höfnun á samvinnu. Adam Smith skrifaði: „Að dylja og leyna … vekur upp vantraust. Við óttumst að fylgja þeim sem stefnir eitthvert, en við vitum ekki hvert.“

Önnur mynd þessa er að fara í felur. Ég gef út tímarit sem birtir gagnrýni á fræðilegar rannsóknir og við bjóðum ávallt þeim höfundum sem gagnrýndir eru að bregðast við. Margir þeirra gera það ekki. Við birtum stundum nöfn þeirra í dálki sem við köllum Sounds of Silence. “Þögn þessara höfunda er óhugnanlega lýsandi” sagði Edmund Burke eitt sinn. Að forðast þáttöku í rökræðu er vísbending um ósannsögli.

Viðurkenning

Önnur vísbending er að viðurkenna ekki að hafa sagt eitthvað sem reyndist ósatt. Þegar staðhæfing manns er dregin í efa gagnast ekki að segja: „Ég er stundum bara hálfgerður kjáni.“ Því viðmælandinn hlýtur þá að spyrja: Ertu alltaf kjáni?

Ósannsögli er persónueinkenni. „Jafnvel alræmdasti lygari segir sannleikann að minnsta kosti tuttugu sinnum fyrir hvert skipti sem hann lýgur af ásetningi og alvöru“ segir Adam Smith. Sá ósannsögli er ekki hættulegur vegna þess að allt sem hann segir er ósatt, heldur vegna þess að ekki er hægt að treysta á hann þegar það skiptir mestu máli að hann segi satt.

Almennt séð er kæruleysi gagnvart fyrri staðhæfingum merki um ósannsögli, eins og það að reyna að flýja ósannindi sem maður hefur áður gerst sekur um. Frekar en að horfast í augu við slæma dómgreind reynir sá ósannsögli, eins og Smith sagði, viljandi að forðast að horfast í augu við aðstæður sem gætu opinberað persónuleika hans. Sá ósannsögli hefur ekki raunverulegan vilja til að bæta eigin dómgreind og persónuleika.

Skýrasta merkið um ósannsögli

Stundum reynir fólk að fá andstæðinga sína til að þagna eða að láta ritskoða þá. Þetta er eins og þegar fyrirtæki fær ríkisstjórnina til að loka fyrirtækjum samkeppnisaðilanna. Það er eins konar verndarstefna eða það sem hagfræðingar kalla rentusókn. Frekar en að taka þátt í frjálsri og heiðarlegri samkeppni á vettvangi hugmyndanna vilja sumir þagga aðrar raddir niður. Þar með játa þeir veikleika eigin afstöðu, sem er skýrasta merkið um ósannsögli.

Greinin birtist fyrst á ensku í Brownstone Journal. Birt með góðfúslegu leyfi.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *