Afhjúpanir

Ég hlekkja sjaldan á fréttir Morgunblaðsins en þessi er merkileg. Hér ríður loks íslenskur fjölmiðill á vaðið og afhjúpar einn helsta lygasöguframleiðandann um atburði í Ísrael 7. október. Vitnað er í rannsókn ísraelska stórblaðsins Haaretz. Þetta er þó langt í frá í fyrsta sinn sem ZAKA samtökin hafa verið afhjúpuð sem lygamaskína.

Þessi samtök voru stofnuð af Yeguda Meshi-Zahav, sem tilheyrir Heredi, öfgahreyfingu gyðinga. Fyrir rúmum tveimur árum var opinberað að hann hefði í áratug verið til rannsóknar fyrir tugi nauðgana og annara kynferðisbrota gegn konum og barnungum stúlkum og drengjum. Í Ísrael er hann gjarnan kallaður Jeffrey Epstein þeirra Hereda. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um samjöfnuðinn.

Þessi hópur ber ábyrgð á verstu hryllingssögunum sem spunnar voru um voðaverk Hamas, m.a. um börnin 40 sem áttu að hafa verið afhausuð, óléttu konuna sem átti að hafa verið myrt og fóstrið dregið úr móðurkviði. En uppá síðkastið – þegar botninn datt úr hinum lygasögunum – hafa samtökin einbeitt sér að því að „afhjúpa“ kerfisbundundnar nauðganir Hamas liða.

Afhjúpanir á sannleikanum (eða sannleikanum um lygarnar) í atburðum 7. október hafa verið að koma fram vikum saman. Að mestu leyti í ísraelsku pressunni sjálfri. Þetta hefur nær eingöngu verið tekið upp af jaðarmiðlum á Vesturlöndum sem gjarnan hafa verið úthrópaðir sem gyðingahatarar fyrir vikið.

Á meðan hefur haugalýgin eins og þessar frá ZAKA átt greiða leið í meginstraumsmiðla á Vesturlöndum. Þaðan hefur lýgin ratað upp í munn m.a. Joe Biden, Bandaríkjaforseta og Hillary Clinton sem hefur gert sér sérstakt far um að dreifa tröllasögum um skipulegar nauðganir Hamasliða.

Einhverjir íslenskir þingmenn hafa síðan gert sig að fífli með því að endurvarpa þvættingnum.

Ég sagði mjög fljótlega eftir 7. október að sannleikurinn um þennan dag ætti eftir að koma upp á yfirborðið. Það hefur verið að gerast fljótar en ég ætlaði. Ekki nógu fljótt, því á grundvelli þessara lyga voru búnar til réttlætingar fyrir þjóðarmorði sem er í framkvæmd á meðan þú lest þessi orð. Það er nærri því búið að drepa 100 börn á dag á Gaza á þessum tíma sem liðinn er. 11.500 börn.

Það eru milljón börn í tráma á Gaza. Þau búa við hungur syðst á svæðinu, í Rafah, þangað sem barnamorðingarnir í her Ísraels ráku fólk og sögðu svæðið öruggt. Í dag var samt tilkynnt að hernaðaraðgerðir í Rafah yrðu stórhertar á næstu dögum. Drápunum á ekki að linna. Þjóðarmorðið skal klárast. Það á að slátra fleiri börnum. Hundrað á morgun. Hundrað á sunnudag. Hundrað á mánudag. Ef til vill verður gefið í.

Á meðan þráast Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra við og neitar að aðstoða þá Gazabúa til landsins sem búið var að veita dvalarleyfi hér á grundvelli fjölskyldusameiningar. Þetta var um hundrað manna hópur, að stærstum hluta börn.

Þetta er ekki lengur hundrað manna hópur, því búið er að myrða mörg börn. Þau voru myrt á meðan Bjarni Benediktsson var að pirra sig á tjaldi ættingjanna á Austurvelli. Hvernig ætlar hann að firra sig ábyrgð á dauða þessara barna? Ætlar hann að bíða eftir að vinir hans í her Ísraels klári listann? Taki af honum ómakið svo hann þurfi ekki að „fylla landið af útlendingum“.

Á sama tíma kóa samráðherrar hans með honum og beita fyrir sig lygum eins og RUV afhjúpaði í kvöld. Bæði Guðrún dómsmálaráðherra og Katrín forsætisráðherra lugu til um stefnuna í öðrum norrænum ríkjum. (sjá fyrstu athugasemd).

Lýgin er allsráðandi. Hún vellur úr munni ráðamanna í Ísraels og er skálduð af óvönduðu hyski. Lýgin ratar í munn ráðamanna á Vesturlöndum með þá bandarísku í broddi fylkingar. Hún vellur úr munnum íslenskra ráðherra.

Lýgin vellur jafngreitt og blóðið sem tæmist úr lífvana og sundursprengdum líkömum barnanna á Gaza.

Höfundur: Kristinn Hrafnsson
Upphaflega birt á Facebooksíðu höfundar, 3 febrúar 2024.


Frétt á Mbl.is: „Skáldaði upp fjölda hryllingssagna af innrás Hamas“
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/02/02/skaldadi_upp_fjolda_hryllingssagna_af_innras_hamas/?fbclid=IwAR1MaEMJCFgPXZBO4Q8HT8PR4sZfI89qGS_P20icea7EAnfsFttk1uPe9OM



Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *