Nýfasismi: Gamalt vín í nýjum belgjum

Við þekkjum öll þennan leik: Að skeyta forskeytinu „ný-“ fyrir framan gróin og vel þekkt hugtök og búa þannig til nýja hugmyndafræði sem enginn hefur fyrir því að skilgreina. Sem augljóst dæmi má nefna nýfrjálshyggju, en það er víst einhvers konar ný tegund frjálshyggju sem í framkvæmd verður algjör andstæða hennar. Annað vel þekkt hugtak er nýmarxismi, en aðeins meira púðri hefur verið eytt í að skilgreina hann.

Hér er stungið upp á nafni á ákveðinni hugmyndafræði og skilgreining borin á borð. Hugmyndafræðina köllum við nýfasisma og fullyrðum að þetta sé ríkjandi stjórnarfar í flestum ríkjum heims.

Til að skilja hugtakið þarf að byrja á byrjuninni, á upprunalegri skilgreiningu á hugtakinu fasismi, með orðum höfundar hugmyndafræðinnar, Benito Mussolini (heimild):

„Sem andstæða einstaklingshyggjunnar þá leggur fasíska hugmyndin áherslu á Ríkið og samþykkir einstaklinginn eingöngu að því marki að hagsmunir hans falli saman við Ríkisins, sem er fulltrúi fyrir meðvitundina og hið algilda, vilja mannsins sem sögulegt fyrirbæri.“

Á ensku: Anti-individualistic, the Fascist conception of life stresses the importance of the State and accepts the individual only in so far as his interests coincide with those of the State, which stands for the conscience and the universal, will of man as a historic entity.

Fasismi var með öðrum orðum upphaflega skilgreindur sem einskonar ríkishyggja. Ekki sameignarhyggja, eins og sósíalismi, en einstaklingurinn er ekkert án Ríkisins, og hagsmunir einstaklinganna verða að falla að hagsmunum Ríkisins.

Fasisminn var í eðli sínu ekki kynþáttarhyggja. Stofnendur hreyfingarinnar höfðu ekki á dagskránni að útrýma Gyðingum eða sígaunum, en vissulega voru óvinir Ríkisins margir og eitthvað þurfti að gera við þá. Fasismi í framkvæmd þýddi sterkt miðstjórnarvald og á uppgangstímum fasismans dáðust margir vestrænir leiðtogar að „skilvirkni“ hans til að berja á efnahagskreppum og atvinnuleysi.

Það var ekki fyrr en Hitler fann upp á sína eigin tegund fasisma, nasisma, að kynþáttahyggjan kom til leiks sem lykilþáttur í fasískri stjórn.

Hvað um það. Í upprunalegri skilgreiningu á fasisma er kveðið á um sterkt ríkisvald og að einstaklingarnir verði gjöra svo vel að beygja sig undir það. Í okkar vestrænu lýðræðisríkjum eru stjórnarskrár sem segja beinlínis hið andstæða: Ríkið á að þjóna einstaklingunum. Ríkið dregur völd sín af samþykki borgaranna. Ríkið hefur engin völd nema þau sem frjálsir menn framselja því.

Stjórnarskrárbundið lýðveldi og fasismi eru andstæður nema þegar litið er á framkvæmd ríkisvaldsins í vestrænum lýðræðisríkjum. Er það ekki nýbúið að svipta okkur vinnunni, ferðafrelsinu og réttinum til að umgangast aðra? Af hverju það? Jú til að lágmarka smit og álag á stofnanir ríkisins. Gott og vel, það var skæð veira á ferðinni, en dæmin eru fleiri.

Íslendingar eru nú orðnir óbeinir þátttakendur í strengjabrúðustríði (e. proxy war) í Úkraínu. Hver gaf leyfi fyrir því?

Íslendingar hafa nýlega sent hundruð milljóna af tekjum sínum til Slóvakíu til að borga undir hol loforð ríkisvalds okkar um loftslagsaðgerðir og losun á koltvísýringi. Var kosið um það í seinustu kosningum? Ráðherrann vísar á fyrri ráðherra. Voru fyrri ráðherrar með umboð sitt frá kjósendum um að skrifa undir loftslagsvíxilinn?

Erum við ekki orðin peð í skák ríkisvaldsins? Leikmenn í einhverju alþjóðlegu borðspili sem er stjórnað af ókjörnum embættismönnum? Innan Evrópusambandsins. Innan Sameinuðu þjóðanna. Innan Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Þegnar í lýðræðisríki, en hráefni í áætlanir hins opinbera í allskyns umbúðum.

Ég kalla þetta fyrirkomulag nýfasisma, og vona að það tolli.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *