Vilja nýjan foringja til að segja sér fyrir verkum

Donald Trump Bandaríkjaforseti er iðinn við að kynna heiminum sálarlíf sitt. Eitt er víst að maðurinn er ekki í miklu jafnvægi. Einnig má efast um erindi Zelenskys sem var farinn að bjóða Bandaríkjamönnum auðlindir lands síns þegar í september samkvæmt Washington Post – fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvernig-skipta-skuli-ransfeng-a-kostnad-thjodar
En það breytir því ekki að hegðan Trumps var mjög sér á parti eins og stundum er sagt.

Það er ekki traustvekjandi, ekki síst í ljósi þess að heilu ríkin fylgja skipunum og ráðleggingum þessa leiðtoga auðvaldsheimsins. Mætti segja mér að félagar í Varðbergi – samtökum um vestræna samvinnu – sofi ekki rótt þessa dagana.

Annars er það mín tilfinning að leiðtogar heimsins séu ekki upp á marga fiska um þessar mundir – nánast hvar sem litið er. Athyglisverð eru viðbrögðin í Evrópu við furðufundi þeirra Donalds Trump og Zelenskys Úkraínuforseta í Hvíta húsinu í gær.
Kallas, talsmaður Evrópusambandsins í utanríkismálum, reið á vaðið og sagði að nú þyrftu Vesturlönd nýjan foringja. Aðrir tóku undir, þar á meðal Þorgerður Katrín utanríkisráðherra Íslands. Hættulega vanstilltur er svo Macron Frakklandsforsreti sem sá ástæðu til þess í dag að minna á evrópskar kjarnorkusprengjur! Skyldu það vera svona foringjar sem Kallas og Þorgerður Katrín eru að kalla eftir?

Við þessu er bara eitt að gera: Efla samfélagsvitund, örva umræðu um mikilvægi lýðræðis og friðar. Til þess þurfum við ekki foringja til að segja okkur fyrir verkum – það er komið nóg af þeim.

Því miður hefur tónninn í íslenskum ráðamönnum um alllangt skeið verið endurómun á hervæðingarboðskap frá Washington, NATÓ og Evrópusambandinu; boðskap um „nýjan veruleika“ sem verði að bregðast við í „breyttum heimi“ með vopnum og meiri vopnum.

Ég hvet alla til þess að lesa grein (sjá næstu slóð) eftir Þórarin Hjartarson. Hún er umhugsunarverð því hún segir svo margt um ósjálfstæði og undirlægjuhátt íslenskra stjórnvalda. Þau hafa klifað á því hve nauðsynlegt það hafi verið að heimila hernaðaruppbygginguna sem ráðist hefur verið í á Íslandi á undanförnum árum. Og nú þurfi enn að bæta í vegna þess að heimurinn sé að breytast, ógnin verði sífellt meiri og þá einnig á hafinu umhverfis Ísland. Allt er þetta meira og minna ósatt en í fullu samræmi við áætlanir Pentagon að hervæða norðurhöfin sem aldrei fyrr til þess að knýja Rússa til að svara í sömu mynt því það kæmi þeim í koll efnahagslega: https://www.ogmundur.is/is/frjalsir-pennar/oryggismalin-hvad-er-breytt-a-nordurvigstodvunum

Sjá einnig þetta: https://www.ogmundur.is/is/greinar/hafid-thid-lesid-rand-report-1
Hér kemur fram svo ekki verður um villst að stefnt var að því leynt og ljóst af hálfu bandarískra hermálayfirvalda að stuðla að hervæðingu í norðurhöfum! Og alltaf taka íslensk stjórnvöld við skipunum gagnrýnislaust!



(Frétt úr Morgunblaðinu 12. febrúar sl.)

Yfir Íslandi sveima nú stöðugt herþotur til „að gæta okkar“ og hefur þessi pössun verið í boði stjórnmálamanna sem segja að heimurinn sé að farast úr mengun. En hve margir skyldu hafa hugleitt að mengun af völdum hervéla er undanskilin allri tölfræði alþjóðastofnana sem birt er um losun gróðurhúsalofttegunda? Þessu fékk hernaðargeirinn áorkað án þess að mikið hafi farið fyrir mótmælum.

Þetta er svo til upprifjunar og áréttingar á því að eitt tekur við af öðru og lítið breytist: https://www.ogmundur.is/is/greinar/hernadarhyggja-leidd-til-ondvegis-og-thordis-baetir-i

Sú var tíðin að ekkert Norðurlandanna – að undanskildu Íslandi og Danmörku (Grænlandi) -heimilaði Bandaríkjamönnum að reka herstöðvar á landi sínu. Nú spretta þær upp eins og gorkúlur eins og sjá má á kortinu hér að neðan. Á hersvæðunum sem merkt eru inn á kortið gilda bandarísk lög, ekki norsk lög, ekki sænsk lög, ekki dönsk lög og ekki finnsk lög. Bara lög Donalds Trump.

Til þess að auðvelda hugarfarsbreytinguna og fylgispekt við hervæðinguna er að fólki sagt að undirbúa sig undir kjarnorkustríð með því að safna dósamat og drykkjarvatni á flöskum. Þetta er orðið viðkvæðið á Norðurlöndunum. Allt er gert til að hræða fólk til fylgilags við aukin útgjöld til hermála.

Er ekki mál að linni?

Þarf almenningur ekki að fara að vakna og taka valdataumana úr hendi leiðitamra leiðtoga sem aftur vilja þjóðir sínar leiðitamar?

Höfundur: Ögmundur Jónasson, fyrrum dómsmálaráðherra.
Greinin er upphaflega birt á Ogmundur.is

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *