Verðum að ráðast gegn rót vandans, ekki bara á birtingarmyndina

Í ljósi umræðunnar um að herða þurfi öryggi barna og fjölga lögregluaðgerðum o.þ.h. held ég að enn brýnna sé að taka á rót vandans – þessari kerfisvillu að setja einfaldlega ekki heilsu landsmanna í forgang. Þetta sýnir sig t.d. í launum til heilbrigðisstarfsfólks og skorti á fjármunum í heilbrigðis- og félagskerfið, sem þar með nær ekki að manna sig, hvort sem það er til snemmtækrar íhlutunar í anda farsældarlaganna (ágætis hugmynd, svo því sé haldið til haga, en virkar ekki þegar ekkert fjármagn fylgir – sem gerir þetta að hreinni sýndarmennsku og ýtir bara undir falskar væntingar).

Allur þessi skortur á fjármagni, hvort sem það er til launa heilbrigðisstarfsfólks eða til einstakra stofnana, gerir það að verkum að illa (og sífellt verr) gengur að manna skólahjúkrun, greiningarteymin, geðteymin o.s.frv. Þetta hefur þær afleiðingar að (áunnin eða undirliggjandi) vanlíðan og brestir barna grassera árum saman og sjálfsmynd þessara barna molnar smám saman á meðan þau bíða… og bíða. 

Biðlistar í greiningar eru svo langir að mörg börn tapast í millitíðinni inn á braut sjálfsefjunar með grasi eða Xanax, sem síðar leiðir þau í bullandi ógöngur, glæpi eða neyslu.

Eða þá sú kerfisvilla að foreldrar þurfi að vinna myrkranna á milli, fjarri börnum sínum, til að ná endum saman, sem oft leiðir til aukinnar vanlíðunar, vonleysis, kulnunar og aftur: jafnvel uppgjafar sem birtist í drykkju eða andlegri fjarveru vegna streitu. Þeir leita e.t.v. í hugarró fjarri skarkala lífsgæðakapphlaupsins með aðstoð samfélagsmiðla. Einhver er rót þess að 8% færri íslensk ungmenni upplifa umhyggju frá foreldrum sínum árið 2021 en 2012 (staðreyndir!) – og þetta er mikið áhyggjuefni þegar litið er til þeirrar staðreyndar að foreldrar hafa meiri áhrif á hamingju unglinga en vinir þeirra!

Og hvað með börnin sem leiðast út í neyslu, vopnaburð eða ofbeldi, eða fremja jafnvel alvarlega glæpi, jafnvel morð? Auðvitað eiga foreldrar að bera ábyrgð á börnum sínum, en hvernig er staðan heima fyrir? Foreldrarnir eru kannski sjálfir í neyslu og börnin búin að flakka fram og til baka milli fósturheimila, aftur og aftur, án nokkurrar raunverulegrar áfallaaðstoðar. Á endanum fara þau að sefa vanlíðan sína, með ófyrirséðum afleiðingum.

Þetta er auðvitað ekki alltaf svona. Kannski voru heimilisaðstæður góðar og foreldrarnir allir af vilja gerðir… en kerfið brást þeim. Þeir hafa kannski leitað allra leiða til að fá aðstoð fyrir ógreint ADHD barnið sitt, en nei, kerfið tímir ekki að borga heilbrigðisstarfsmönnum ásættanleg laun. Þeir flytja sig yfir í einkageirann eða gerast flugfreyjur/flugþjónar. Og því miður, biðlistarnir eru bara nokkur ár… vonum bara það besta í millitíðinni. Skólakerfið reynir sitt besta, með námsver, skólakort, nefndu það – en það er, eins og allar aðrar stofnanir sem sinna börnum, fjársvelt. Og já, leitt að heyra að barnið þitt hafi verið misnotað eða lagt í einelti – við bara getum ekki boðið upp á áfallameðferð á næstunni, því aftur; sérhæft starfsfólk hefur yfirgefið kerfið. Við bara forgangsröðum öðru en heilsu og velferð barna.

En hey – við ætlum að reyna að plástra þetta sár með því að fjölga löggum á vakt! Allir sáttir? Nei.

Við megum ekki festa okkur í þeirri amerísku hugsun að öryggi þurfi bara að efla með fleiri lögreglumönnum. Það er eins og þeir gera í „Trumplandi“ með því að auka byssueign og láta eins og öryggi fylgi í kjölfarið. Við verðum einfaldlega að hysja upp um okkur brækurnar og ráðast á rót vandans, ekki bara á birtingarmynd hans.

Auðvitað er þetta ekki svona einfalt. Vandinn er ekki svart-hvítur, og já, foreldrar þurfa líka að líta í eigin barm og reyna að gera sitt besta. En kerfið má ekki bregðast þeim. Sem skólahjúkrunarfræðingur finn ég það áþreifanlega, hversu margir foreldrar reyna allt sem í þeirra valdi stendur, en fá ekki viðeigandi aðstoð fyrr en allt of seint. Stöku plástrar gera því miður lítið gagn.

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn – og í því þorpi þarf kerfið að virka.


https://www.stjornarradid.is/library/01–Frettatengt—myndir-og-skrar/MRN/Hvad%20virkar_stadreyndablad_landlaeknisemb.pdf

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *