Í seinni tíð hefur alþjóðlegt samfélag orðið vitni að því hvernig röngum upplýsingum er beitt sem tæki til að hafa áhrif á lýðræðisleg ferli, einkum forsetakosningar. Dæmið sem hvað mest hefur verið í sviðsljósinu er bandarísku forsetakosningarnar árið 2016, þar sem röngum upplýsingum var dreift til að móta skoðanir kjósenda og hafa áhrif á kosningaúrslit. Þessar aðgerðir, sem margir telja stýrt af erlendum ríkisstjórnum, undirstrika hve mikilvægt það er fyrir lýðræðisríki að vera á varðbergi gagnvart slíkum áhrifum.
Fræðsla skiptir öllu máli
Ísland, þótt lítið sé og fjarri helstu valdamiðstöðvum heimsins, er ekki undanskilið frá þessari ógn. Lýðræði á Íslandi byggist á upplýstri þátttöku borgaranna í stjórnmálum, sem gerir það viðkvæmt fyrir hvers konar röngum upplýsingum sem gætu haft áhrif á skoðanir og atkvæðagreiðslur. Ábyrgðin að tryggja heiðarleika kosninga hvílir ekki aðeins á stjórnvöldum, heldur einnig á fjölmiðlum og almenningi. Mikilvægt er að fræða kjósendur um hættur tengdar röngum upplýsingum og kenna þeim að greina á milli upplýsinga, oflýsinga, auglýsinga og vanlýsinga.
Ísland getur einnig tekið skref í þá átt að efla öryggi kosninga með tæknilegum ráðstöfunum, svo sem með því að efla fjarskiptaöryggi og gagnsæi í tengslum við uppruna auglýsinga á samfélagsmiðlum. Þessar aðgerðir gætu, auk samvinnu á alþjóðavettvangi um að berjast gegn netárásum, veitt viðeigandi vörn gegn utanaðkomandi áhrifum á lýðræðið.
Hættur bergmálshellanna
Á tímum vaxandi alþjóðavæðingar og flæktra netheima verður barátta gegn röngum upplýsingum sífellt mikilvægari fyrir Ísland og grundvöll framtíðarlýðræðis. Þegar fólk festist í bergmálshelli samfélagsmiðla og mætir einungis skoðunum sem endurspegla eigin sannfæringu, verður erfiðara að viðhalda grundvallaratriðum lýðræðisins, sem felast í opinni umræðu og því að skiptast á ólíkum sjónarmiðum. Ef kjósendur verða samdauna sérhópum sínum og afneita upplýsingum sem gætu haggað skoðunum þeirra, er hætt við að kosningaúrslit endurspegli ekki raunverulegan vilja þjóðarinnar, heldur bara áhrif einangrunar og sundrungar. Í þessu samhengi er mikilvægt að spyrja sig: Ef upplýsingaflæðið er skekkt og ef almenningur er ekki lengur opinn fyrir gagnrýninni umræðu, erum við þá enn að upplifa sanna lýðræðislega þátttöku eða útvötnun á grundvallarprinsippum lýðræðisins þar sem aðeins ríkjandi skoðanir og hagsmunir ná eyrum kjósenda?
Sérstaklega varasamt er hvernig þessi þróun hefur áhrif á unga kjósendur. Börn sem eru nú 18 ára hafa alist upp í heimi þar sem internetið og samfélagsmiðlar eru alltumlykjandi. Þessi kynslóð, oft nefnd „stafræna kynslóðin“, hefur ótvíræða færni í að nýta sér stafræn tæki og miðla en stendur einnig frammi fyrir sérstökum áskorunum þegar kemur að upplýsingaöflun og skoðanamyndun.
Heilbrigt lýðræði byggir á gagnrýninni hugsun og umræðu
Stafræna kynslóðin hefur alist upp við að fá upplýsingar hratt og á auðveldan hátt, oft án þess að þurfa að gera greinarmun á réttmæti upplýsinga og hafa þessi ungmenni einnig verið sérstaklega berskjölduð fyrir algrímisstýrðum og sjálfvirknivæddum bergmálshellum samfélagsmiðla. Þetta getur leitt til þess að ungt fólk festist í sínum eigin skoðanabólum, styrktum af endurteknum skilaboðum sem óáreitt hafa stutt við þeirra fyrirfram ákveðnu skoðanir. Ef við viljum tryggja að ungt fólk sé fært um að taka þátt í lýðræðislegum ferlum á upplýstum grundvelli, þurfum við að leggja áherslu á að fræða það um mikilvægi fjölbreyttra upplýsinga og þjálfa það í að greina og meta réttmæti og gagnsemi upplýsinga sem það neytir – eða neitar? Þetta felur í sér að hvetja til umræðu og skoðanaskipta milli ólíkra hópa, til þess að brjóta niður múra bergmálshellanna og stuðla að lýðræði sem er sterkt og heilbrigt og óháð utanaðkomandi áhrifum sálræns stríðsáróðurs.
Birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. maí 2024
Pingback: Breyttu lífi þínu! - Krossgötur