Nýr sóttvarnalæknir, Guðrún Aspelund, segir í nýlegu viðtali að Covid sé ekki búið, því enn séu smit í gangi. Enn sé unnt að fá bólusetningu. Fjöldamörg afbrigði af Omicron hafi verið í gangi, nánar tiltekið hundruðir. Guðrún segist vonast til að bóluefni verði tilbúið þegar næsti faraldur kemur. Spurð um aukaverkanir, segist Guðrún ekki vita um fjölda tilkynntra tilvika. Ekki hafi verið áhyggjuefni að mikið hafi verið um alvarlegar aukaverkanir, „við höfum ekki séð það og Lyfjastofnun hefur ekki merkt það. Auðvitað er búið að gefa þetta bóluefni milljónum manna í heiminum og það hafa komið fram aukaverkanir eins og með öllum lyfjum og geta gerst, en þær eru mjög sjaldgæfar og flestar aukaverkanir eru vægar.“ Guðrún segir að Astra Zenica hafi ekki verið bannað í Danmörku, en notkun þess hætt því önnur efni hafi verið talin betri. Um bólusetningar barna segir Guðrún að engar afleiðingar hafi komið fram hérlendis. Að sögn Guðrúnar eru engin tengsl milli dauðsfalla hérlendis og bólusetninga, hvorki umframdauðsfalla né annarra dauðsfalla.
Sama mál, önnur hlið
Ég hrökk við þegar ég heyrði svör sóttvarnalæknis í viðtalinu, þar sem ég hafði nýverið hlustað á samtal Joe Rogan við breska hjartalækninn Dr. Aseem Malhotra (#1979), þar sem m.a. er vísað í grein sem Malhotra birti í september 2022. Í stuttu máli segir Malhotra að hann hafi aldrei á sínum ferli séð lyf sýna jafn lélega virkni og jafn mikla skaðsemi og sprautulyfin gegn covid-19. Á þessum grunni gagnrýnir hann að yfirvöld hafi haldið þessum lyfjum að almenningi. Hann vísar einnig til greinar í sem birtist sumarið 2022 í tímaritinu Vaccine þar sem fram fór endurmat á upprunalegum rannsóknum Pfizer og Moderna sem lágu því til grundvallar að bóluefnin voru samþykkt af lyfjaeftirlitsstofnunum. Niðurstaða höfunda, sem Malhotra segir vera óháða sérfræðinga, er sú að upphaflegu tilraunirnar hafi sýnt að bóluefnin væru hættulegri en covid, m.ö.o. að hættulegra væri að láta sprauta sig með bóluefnum en að smitast af covid-19. Því hefði aldrei átt að leyfa notkun þessara lyfja. Tíðni alvarlegra aukaverkana væri a.m.k. 1 af hverjum 800 og rannsóknir sýni að aukaverkanir geti komið fram mörgum mánuðum eftir sprautur.
Frammi fyrir þessari skelfilegu tölfræði furðar Malhotra sig á að lyfin hafi ekki þegar verið tekin úr umferð. Líklegustu skýringuna sé að finna í því sem hann kallar valkvæða blindu (e. willful blindness), þ.e. sálfræðilegt fyrirbæri þar sem fólk kýs að sjá ekki sannleikann til að finna öryggi, komast hjá ágreiningi, óþægindum, draga úr ótta og vernda stöðu sína og viðkvæm egó.
Blindur leiðir blindan?
Vonandi á þessi tilgáta Dr. Aseem Malhotra ekki við um einhliða málflutning nýs sóttvarnalæknis. Ég vona innilega að Guðrún Aspelund sé fulltrúi góðrar læknisfræði og að Malhotra hafi rangt fyrir sér. Ef því er öfugt farið þá verður stund sannleikans mjög sársaukafull fyrir þá sem kosið hafa að nálgast þessi mál með rörsýni, en ekki síður fyrir þá sem kosið hafa að trúa þeim í blindni. Vonandi rennur aldrei upp sú stund að almenningur verði að horfast í augu við að embættismenn og sérfræðingar hafi talað gegn betri vitund, gefið út leyfi í vondri trú, afneitað staðreyndum og kæft niður gagnrýni.
Arnar Þór Jónsson