Blaðamaðurinn Matt Taibbi, sem lengi skrifaði fyrir Rolling Stones tímaritið, birti í gærkvöldi gögn sem sýna að starfsfólk Twitter vann náið með Bandarísku stjórnmálafólki úr báðum flokkum við að ritskoða efni á samfélagsmiðlinum. Gögnin sýna líka hvernig yfirmenn fyrirtækisins beittu fyrir sig röngum fullyrðingum til þess að réttlæta allsherjar ritskoðun frétta sem byggðu á gögnum úr fartölvu sonar Joe Biden fyrir kosningarnar í 2020.
Gögnin sýna meðal annars tölvupóstsamskipti þar sem starfsfólk Joe Bidens sendir beiðnir til Twitter um að fjarlægja fjölda færslna. Fyrirtækið þróaði aðferðir til að stöðva rusl póst og annað óæskilegt efni sem með tímanum voru notaðar til að fjarlægja skoðanir pólitískra andstæðinga og almennra kjósenda. Fyrir kosningarnar 2020 tók Twitter við beiðnum frá báðum flokkum og fjarlægði efni eftir pöntunum.
Stjórnmálaflokkarnir notuðu tengsl sín við starfsfólk Twitter til að þrýsta á um ritskoðun en þar sem mun fleiri Demókratar störfuðu hjá fyrirtækinu hafði flokkurinn betra aðgengi og möguleika til að fá sínu fram. Gögn frá vefsíðunni OpenSecrets sýna að meira en 99% allra styrkja starfsfólks Twitter til stjórnmálaflokkanna fóru til Demókrata árið 2020.
Þá sýna gögnin að yfirmenn fyrirtækisins ákváðu, að því virðist án beins utanaðkomandi þrýstings, að ritskoða fyrir síðustu kosningar allar fréttir tengdar fartölvu Hunter Biden: „Þrátt fyrir að nokkrir heimildarmenn hafi minnst þess að hafa um sumarið heyrt um viðvaranir frá alríkislögreglunni um hugsanleg tölvuinnbrot erlendra aðila, þá eru engar vísbendingar – sem ég hef séð – um að stjórnvöld hafi tekið þátt í atburðarásinni. Reyndar gæti það hafa verið vandamálið.“, sagði Taibbi á Twitter.
Það var New York Post sem birti fréttin þremur vikum fyrir kosningarnar 2020 en notendur Twitter gátu ekki deilt henni eða sent hana vinum sínum á miðlinum. Til að réttlæta ritskoðunina vísaði fyrirtækið í reglur um stolin gögn en án þess að sýna fram á að fartölvunni hafi raunverulega verið stolið. Hið rétta var að Hunter Biden hafði gleymt að sækja tölvuna úr viðgerð á tölvuverkstæði nokkru.
Samkvæmt gögnum af fartölvunni kynnti Hunter Biden föður sinn, þáverandi varaforseta Joe Biden, fyrir æðsta stjórnanda úkraínska orkufyrirtækisins Burisma innan við ári áður en Biden þrýsti á embættismenn í Úkraínu til að reka saksóknara sem var að rannsaka fyrirtækið. Þá var Hunter Biden á launum sem námu $50 þúsund dollurum á mánuði frá fyrirtækinu þrátt fyrir litla þekkingu á málefnum þess eða orkumarkaði Úkraínu.
Íslenskir miðlar fjölluðu um málið á sínum tíma og Vísir.is sagði fréttina af fartölvunni „vafasama“ í fyrirsögn og að FBI væri að rannsaka hvort um upplýsingahernað Rússa væri að ræða. Svo reyndist ekki vera.
Eftir Andra Sigurðsson. Greinin birtist fyrst á Samstöðinni þann 3. desember.