Trúnaðarbresturinn teygir sig lengra

Enn er DT að afhjúpa upplýsingar sem varpa ljósi á óheilindi þeirra sem stýrðu aðgerðum í ,,kófinu”. Nýjasta hneykslismálið snýr að því hvernig vísindalegir ráðgjafar bresku ríkisstjórnarinnar leyndu upplýsingum um svonefnt Alfa-afbrigði. Í a.m.k. 3 mánuði dreifði afbrigðið sér meðal almennings. Sú mikla útbreiðsla var svo notuð til að renna stoðum undir að þetta afbrigði væri mun meira smitandi en fyrra afbrigði. Gögnin sýna að breski heilbrigðisráðherrann vildi nýta nýja afbrigðið til að hræða almenning (e. ,,We frighten the pants of everyone with the new strain”) og spurði fjölmiðlaráðgjafa sinn hvenær rétt væri að ,,beita nýja afbrigðinu” (e. ,,deploy the new variant”) í þágu hræðsluáróðurs. 

Margar stéttir hafa skotið sig í fótinn

Leiðarahöfundur Moggans fjallar ágætlega um þetta í dag og gagnrýnir þau ,,óvönduðu meðöl” sem beitt var gegn Covid-19. Í leiðaranum er á það bent að stjórnmálastéttin sé rúin trausti. Það mun eiga við um fleiri stéttir áður en yfir lýkur, þar á meðal vísindamenn og almannatengla því ,,um leið og stjórnmálamenn tömdu sér orðfæri vísindanna þá tóku vísindamennirnir að gefa ráð samkvæmt pólitísku mati”. 

Með sama hætti má gagnrýna læknastéttina fyrir meðvirkni með lyfjaframleiðendum og skort á gagnrýninni umræðu, m.a. um hjartavöðvabólgu og aðrar aukaverkanir mRNA bóluefna. Lögfræðingastéttin hefur sömuleiðis grafið undan sjálfri sér með því að standa aðgerðalaus hjá meðan réttarríkið var veikt og grundvallarmannréttindi gerð óvirk. Þá veittu fjölmiðlar of lítið aðhald. Allt þetta þarf að taka til gagnrýninnar skoðunar.

Aðskilnaður ríkis og … 

Á síðustu áratugum hefur athyglin beinst að aðskilnaði ríkis og kirkju. Atburðir síðustu missara gefa tilefni til þess að sú umræða verði breikkuð og rætt um aðskilnað fagstétta frá ríkinu. Staðreyndin er sú að allar þær stéttir sem hér hafa verið nefndar eru of háðar ríkisvaldinu um afkomu sína. Ríkið er nánast eini vinnuveitandi lækna á Íslandi. Lögmenn taka almennt ekki áhættuna á að missa spón úr aski sínum með því að gagnrýna hið opinbera. Fjölmiðlar eru háðir ríkisstyrkjum og háskólarnir sömuleiðis.  

Kallað eftir skýrslu  

Það er rétt hjá ritstjóra Morgunblaðsins að það verður að gera úttekt á viðbrögðum Íslendinga við veirunni og að ekki sé eftir neinu að bíða. Slíka tillögu hef ég þegar sett fram á Alþingi.

Hinir síðustu verða fyrstir

Þótt uppgjörið kunni að verða langvinnt og jafnvel sársaukafullt, þá er ekkert nýtt undir sólinni. ,,Þið vitið að þeir sem teljast ráða yfir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá er vill fremstur vera meðal ykkar sé allra þræll.” (Markúsarguðspjall 10.42-44) 

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *