Traust, ábyrgð, og sagan af Kurt Carlsen og Flying Enterprise

Undanfarið hefur mikið verið rætt um ábyrgð stjórnenda og stjórnmálamanna og hvernig þeir standa undir henni, og um traust til þeirra og hvenær það er verðskuldað. Sú umræða snýr ekki bara að bönkum og stjórnun þeirra. Hún snýr líka að ábyrgð stjórnmálamanna á afleiðingum gjörða sinna, til dæmis á því að leggja samfélög á hliðina að ástæðulausu, ábyrgð fjölmiðla sem útvörðum tjáningarfrelsisins í lýðræðissamfélagi, ábyrgð opinberra embættismanna gagnvart almenningi, sem þeim er ætlað að þjóna, og ekki síst ábyrgð okkar allra á sjálfum okkur, gagnvart hvert öðru og gagnvart samfélaginu, sem hratt virðist fjara undan.

Hér er lítil hugvekja, sem kann að eiga erindi í þá umræðu:

Árið 1952 lenti bandaríska flutningaskipið SS Flying Enterprise í brotsjó suður af Bretlandi. Skipið var á leið til New York með fjölbreyttan farm og tíu farþega. Skipstjórinn var Kurt Carlsen, fæddur í Danmörku en hafði flutt til Bandaríkjanna nokkrum árum fyrr. Það var gamall vinur minn, fyrrum skólafélagi og góðvinur annarrar dóttur Carlsens, sem nú er nýlátin, sem sagði mér söguna af þessum atburði núna á þriðjudaginn. 

Í stríðinu hafði Carlsen verið í bandaríska sjóhernum og aðallega starfað sem skipstjóri á herskipum sem fylgdu flutningaskipalestum sem sigldu milli Bretlands og Bandaríkjanna og gjarna urðu fyrir árásum þýskra kafbáta. Eftir stríðið gerðist hann skipstjóri í fraktflutningum.

Þegar brotsjórinn reið yfir kom halli á Flying Enterprise, í fyrstu um 15 gráður og farmurinn tók að renna til. Þrátt fyrir tilraunir áhafnarinnar var engin leið að rétta skipið af með því að færa farminn aftur til og skömmu síðar reið annað brot yfir skipið sem jók hallann upp í 30 gráður. Carlsen skipstjóri sendi út neyðarkall og ekki leið á löngu áður en björgunarskip komu á vettvang. Farþegar voru nú fluttir yfir í annað skip og áhöfnin einnig.

En Carlsen skipstjóri varð eftir á skipinu meðan reynt var að draga það til hafnar. Hefði hann yfirgefið skipið hefði eignarréttur á skipinu og farmi þess getað verið í uppnámi, og til þess mátti skipstjórinn ekki hugsa. Þess í stað hélt hann til á skipinu, jafnvel eftir að tilraunir til að koma því til hafnar höfðu brugðist, og gerði sitt besta til að nota sementspoka í lest þess til að draga úr leka sem að því var kominn.

Þarna dvaldi Carlsen í þrettán daga. Skipið hallaðist sífellt meira og síðustu dagana svaf skipstjórinn á vegg í káetu sinni, svo mikill var hallinn orðinn. En skipið yfirgaf hann ekki. Það var ekki fyrr en skipið var að því komið að sökkva, að Carlsen skipstjóri lét til leiðast að fara frá borði, hann kleif þá upp í bómu, sem þá var það eina sem upp úr stóð, stakk sér til sunds og komst í björgunarbát.

Þegar Kurt Carlsen kom heim til New York biðu hans móttökur sem hann hafði ekki órað fyrir. Honum var fagnað sem þjóðhetju og farið með hann í skrúðgöngu frá hafnarbakkanum og heim, en tugþúsundir fylltu gangstéttirnar, veifuðu og fögnuðu heimkomu hans.

Í huga Carlsens skipstjóra var málið einfalt: Honum var treyst fyrir skipinu og farmi þess. Ábyrgðin var hans og einskis annars, og ekki kom annað til greina en að standa undir henni.

Bandaríski rithöfundurinn Frank Delany skrifaði síðar bókina Simple Courage: A True Story of Peril on the Sea um hetjudáð Carlsens.

Bandaríski söngvarinn Don Meehan syngur hér lag sitt og texta um afrek Kurts Carlsen skipstjóra: 

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *