Tjónið af ritskoðun Meta

Sagan mun minnast þessa tímaskeiðs sem sögukaflans þegar helgustu grundvallarreglur Bandaríkjanna rákust á áður óþekkt stofnanavald – og biðu lægri hlut. Kerfisbundið niðurbrot grundvallarréttinda átti sér ekki stað með hervaldi eða fyrirmælum forseta, heldur með hljóðlátri samvinnu samfélagsmiðla og annarra tæknifyrirtækja, fjölmiðla og ríkisstofnana, sem öll sögðust vera að vernda okkur gegn „rangupplýsingum”.

Skyndileg ákvörðun Meta um að leggja niður staðreyndartékk sitt – sem Zuckerberg lýsti sem „menningarlegum vendipunkti í þá átt að setja tjáningarfrelsi í forgang“ – birtist eins og hljóðlát neðanmálsgrein við það sem sagan kann að eiga eftir að geyma sem eitt alvarlegasta brot gegn grundvallarréttindum okkar á síðari tímum. Eftir átta ár af sífellt harðari ritskoðun, þar á meðal með nærri hundrað staðreyndatékkara (hundrað fyrirtæki sem störfuðu á yfir sextíu tungumálum), er Meta nú að færast yfir í samfélagsdrifið kerfi svipað því sem X notar.

Í yfirlýsingu sinni leggur segir Zuckerberg að að þessi ritskoðun hafi alfarið verið tæknilegt óhapp, en skiptir síðan um tón og viðurkennir það sem lengi hefur verið deilt um: „Eina leiðin til að sporna gegn þessari alþjóðlegu þróun er með stuðningi Bandaríkjastjórnar. Og það er einmitt ástæðan fyrir því hversu erfitt þetta hefur verið síðustu fjögur ár þegar jafnvel bandaríska ríkisstjórnin hefur ýtt undir ritskoðun. Með því að ráðast á okkur og önnur bandarísk fyrirtæki hefur hún gert öðrum ríkisstjórnum enn auðveldara að ganga lengra.“

Í mörgum dómsmálum, sem kostað hafa milljónir dollara og falið í sér umfangsmiklar beiðnir um upplýsingar (FOIA – Freedom of Information Act)), skýrslutökur og sannanir, hefur sannleikurinn um þetta verið skjalfestur í 100.000 blaðsíðna gögnum. Í Murthy gegn Missouri-málinu einu komu fram upplýsingar sem afhjúpuðu dýpt samráðs stjórnvalda við samfélagsmiðlana. Hæstiréttur tók allt þetta til skoðunar en nokkrir dómarar gátu einfaldlega ekki skilið umfangið eða eðli málsins, og felldu því niður lögbann lægra dómstigs sem ætlað var að stöðva þetta. Nú hefur Zuckerberg opinberlega játað einmitt það sem deilt var um: að Bandaríkjastjórn hafi átt hlut að máli í að brjóta gegn fyrsta viðauka stjórnarskrárinnar með ofstopafullum hætti.

Þetta ætti að minnsta kosti að auðvelda leitina að úrbótum þegar mál fara áfram í gegnum dómstóla. En samt er þetta gremjulegt. Tugum milljóna dollara hefur verið eytt til að sanna það sem Zuckerberg hefði getað viðurkennt fyrir löngu. En á þeim tíma voru ritskoðendur enn við völd, og Facebook var að verja tengsl sín við valdhafana.

Tímasetning stefnubreytingarinnar segir sína sögu: bandamaður Trumps tók nýlega sæti í stjórn Meta, yfirmanni alþjóðamála hjá fyrirtækinu var skipt út fyrir þekktan repúblikana, og ný ríkisstjórn er við það að taka völdin. En þótt Zuckerberg setji þetta fram sem endurreisn tjáningarfrelsisins er skaðinn skeður, þ.e.a.s  tilraun hans með víðtæka ritskoðun sem ekki er hægt afturkalla með einfaldri stefnubreytingu.

Kaldhæðnin er mikil: Einkafyrirtæki sem segjast vera óháð en starfa í raun sem framlenging ríkisvalds. Hugsum um okkar eigin reynslu: Að birta skilgreiningu Mussolinis á fasisma sem „samruna ríkis og fyrirtækjavalds“ – aðeins til að sjá fyrirtækið Meta fjarlægja hana sem „rangar upplýsingar.“ Þetta var ekki bara ritskoðun; þetta var „meta-ritskoðun“ – farið var í kjarnann sjálfan og kæfð niður hvert einasta umfjöllun um þau stjórntæki sem beitt var til að halda aftur af umræðunni.

Meðan tæknifyrirtæki héldu fram sýndarsjálfstæði sínu opinberlega leiddu samstilltar aðgerðir þeirra með ríkisstofnunum í ljós miklu uggvænlegri veruleika; tilurð einmitt þess samruna ríkis og einkafyrirtækja sem fyrirtækin vildu koma í veg fyrir að við ræddum.

Eins og við höfum áður fjallað um, þá fórum við ekki bara yfir einhver mörk – heldur yfir helg mörk, á borð við þau sem mótuð voru eftir dimmustu kafla mannkynssögunnar. Fyrsta ákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna, sem varð til í kjölfar byltingar gegn harðstjórn, og Nuremberg-sáttmálinn, sem gerður var eftir hörmungar síðari heimsstyrjaldar, þetta tvennt áttu að vera órjúfanlegir varnarmúrar mannréttinda. Hvoru tveggja var kerfisbundið rutt úr vegi í nafni „öryggis“. Sömu tækninni við blekkingar, ótta og ofríki stjórnvalda sem forfeður okkar vöruðu okkur við var beitt með skelfilegri nákvæmni. 

Þessi kerfisbundna sundrung lét ekkert umræðuefni friði; allt frá umræðum um áhrif bóluefna til deilna um uppruna kórónuveirunnar eða spurninga um tilskipanir og ráðstafanir stjórnvalda. Vísindalegum skoðanaskiptum var skipt út fyrir viðurkennda frásögn. Vísindamenn gátu ekki deilt niðurstöðum sem fóru gegn opinberum viðmiðum, eins og sjá mátti þegar ábyrgar umræður um Covid-19 gögn og stefnu voru fjarlægðar. Jafnvel persónuleg reynsla var stimpluð sem „rangupplýsingar“ ef hún stóðst ekki kröfur trúboðanna – og þetta náði fáránlegu stigi þegar umræða um ritskoðunina sjálfa varð tilefni ritskoðunar.

Skaðinn gekk upp allan pýramída samfélagsins. Á einstaklingsstiginu var fólk svipt störfum sínum fyrir það eitt að deila raunverulegri reynslu sinni. Vísindamenn og læknar, sem drógu í efa hinar viðteknu kenningar, voru útilokaðir úr hópi fagmanna. Margir fengu á tilfinninguna að þeir væru einangraðir eða upplifun þeirra fölsk þegar samfélagsmiðlar merktu raunverulegar frásagnir þeirra sem „rangar.“

En eyðilegging fjölskyldutengsla gæti reynst það sem lengst varir. Matarboð á helgidögum urðu fámennari. Afi og amma misstu ómetanleg tækifæri til samvista með barnabörnum. Systkini, sem höfðu haldið tengslum í áratugi, hættu að tala saman. Margra ára fjölskyldutengsl rofnuðu – ekki af því að fólk var ósammála um staðreyndir, heldur vegna þess að sjálfur rétturinn til að ræða þær var dreginn í efa.

Kannski var skaðinn gagnvart samfélaginu sjálfu enn alvarlegri. Smærri hópar leystust upp. Nágrannar snerust hver gegn öðrum. Smáfyrirtækjum var bannað að starfa. Söfnuðir skiptust í fylkingar. Skólanefndarfundir urðu átakavettvangur. Samfélagsvefurinn sem heldur uppi heilbrigðu þjóðlífi tók að rakna upp – ekki vegna þess að fólk hefði ólíkar skoðanir, heldur vegna þess að möguleikinn á samtali var stimplaður sem hættulegur.

Ritskoðendurnir höfðu betur. Þeir sýndu að með nægum stofnanamætti væri hægt að sundra þeim félagslega grunni sem gerir frjálsa umræðu mögulega. Og nú þegar þetta kerfi til kúgunar er einu sinni komið á er alltaf hægt að virkja það að nýju fyrir hvaða málstað sem telst nógu áríðandi hverju sinni. Skortur á opinberu uppgjöri sendir ógnvekjandi skilaboð; engin mörk eru svo heilög að þau verði ekki rofin, engin regla svo göfug að henni verði ekki ýtt til hliðar.

Raunveruleg sátt krefst meira en látlausrar stefnubreytingar Meta. Við þurfum fullkomlega opna rannsókn sem skráir hvert einasta tilvik ritskoðunar – allt frá földum bóluefnaskýrslum til tafa á útgáfu vísindagreina um uppruna veirunnar og þöggunar raddanna sem reyndu að draga í efa ýmsar tilskipanir. Þetta snýst ekki um að fá uppreist æru – heldur um að búa til óhrekjandi opinbera skrá sem tryggir að slíkum aðferðum verði aldrei aftur beitt.

Fyrsti viðauki stjórnarskrárinnar var ekki tillaga – hann var heilagur sáttmáli, ritaður með blóði þeirra sem börðust gegn harðstjórn. Hann er engin gömul og úrelt regla, heldur lífsnauðsynleg vörn gegn einmitt því ofríki sem við urðum vitni að nýlega. Þegar stofnanir meðhöndla þessi grundvallarréttindi sem sveigjanleg viðmið en ekki ófrávíkjanlegar reglur, berst skaðinn langt út fyrir einstaka miðla eða stefnumörkun.

Eins og svo margir fleiri í okkar hópi höfum við séð þetta með eigin augum. En persónuleg uppreist æru er ekki markmiðið. Sérhver rödd sem var þögguð, sérhver umræða sem var kæfð, sérhver tengsl sem rofnuðu í þágu „viðurkenndra frásagna“ eru sprunga í samfélagsvefnum sem gerir okkur öll fátækari. Án fulls uppgjörs og skýrra varna gegn frekara ofríki skiljum við komandi kynslóðir eftir varnarlausar gegn sömu einræðishneigðinni, þó hún búi sig í nýju dulargervi.

Spurningin er ekki sú hvort við getum endurheimt það sem tapaðist – það getum við ekki. Spurningin er sú hvort við munum loksins læra að virða þessi réttindi sem óafsalanleg, eða halda áfram að meðhöndla þau sem óþægilegar hindranir sem má sópa til hliðar um leið og ótti eða óvæntir atburðir krefjast þess. Benjamin Franklin varaði við því að þeir sem eru reiðubúnir að afsala sér nauðsynlegu frelsi fyrir skammvinnt öryggi, eigi hvorki frelsi né öryggi skilið. Viðbrögð okkar munu ráða því hvort við arfleiðum börn okkar að samfélagi sem verndar nauðsynlegt frelsi eða hvort við vörpum því án umhugsunar fyrir róða í nafni öryggis.


Hér er svo heildartexti yfirlýsingar Mark Zuckerbergs frá 7. janúar 2024:

„Hæ allir. Mig langar að ræða eitt mikilvægt atriði í dag því kominn er tími til að snúa aftur að rótum okkar varðandi tjáningarfrelsi á Facebook og Instagram. Ég byrjaði að þróa samfélagsmiðla til að gefa fólki rödd. Ég hélt ræðu í Georgetown fyrir 5 árum um mikilvægi þess að verja tjáningarfrelsið, og ég trúi trúi enn á það. En margt hefur gerst á síðustu árum.

Umræðan um mögulegt tjón af efni á netinu hefur aukist mjög og stjórnvöld og hefðbundnir fjölmiðlar hafa þrýst á um sífellt meira ritskoðunarvald. Margt af þessu er auðvitað pólitískt, en það er líka margt raunverulega slæmt þarna úti; eiturlyf, hryðjuverkastarfsemi, misnotkun á börnum. Þetta er eitthvað sem við tökum alvarlega og viljum leysa með ábyrgum hætti. Við byggðum því upp mjög flókin kerfi til að ritskoða efni, en vandinn við flókin kerfi er að þau gera mistök.

Jafnvel þótt þau ritskoði óvart bara 1% færslna verða milljónir manna fyrir því. Og við erum komin á það stig að mistökin eru allt of mörg og ritskoðunin allt of mikil. Nýafstaðnar kosningar virðast líka marka menningarlegan vendipunkt í átt að því að setja tjáningarfrelsið í forgang á ný. Þannig að nú snúum við aftur að rótunum: við ætlum að draga úr mistökum, einfalda stefnurnar okkar og endurvekja tjáningarfrelsið á vettvangi okkar. Nánar tiltekið ætlum við að gera eftirfarandi:

Fyrst ætlum við að leggja niður staðreyndatékkið og skipta því út fyrir athugasemdir notenda, svipað og X notar. Byrjað verður í Bandaríkjunum. Eftir að Trump var fyrst kjörinn árið 2016, skrifuðu hefðbundnir fjölmiðlar linnulaust um að rangupplýsingar væru ógn við lýðræðið. Við reyndum í góðri trú að bregðast við þessum áhyggjum án þess að gerast „sannleiksdómarar,“ en staðreyndatékkarar hafa reynst of pólitískir og hafa eyðilagt meira traust en þeir hafa skapað, sérstaklega í Bandaríkjunum. Þannig að á næstu mánuðum förum við yfir í yfirgripsmeira kerfi sem byggir á athugasemdum notenda. Í öðru lagi ætlum við að einfalda stefnur okkar varðandi innihald og afnema fjölda takmarkana gagnvart viðfangsefnum eins og innflytjendamálum og kynvitund, sem eru einfaldlega orðnar úr takti við almennar umræður.

Það sem byrjaði sem hreyfing til að gera samfélagið opnara og umburðarlyndara hefur í auknum mæli verið notað til að loka á hugmyndir og útiloka fólk með aðrar skoðanir, og nú er þetta komið út í öfgar. Ég vil að fólk geti miðlað skoðunum sínum og reynslu á miðli okkar. Í þriðja lagi ætlum við að breyta því hvernig við framfylgjum stefnum okkar til að minnka mistök sem eru stærsta orsök ritskoðunar á vettvangi okkar. Við höfum hingað til verið með síur sem skanna sérhvert brot á stefnu okkar. Nú ætlum við frekar að beina þessum síum að ólöglegu og alvarlegu efni.

Og fyrir vægari brot ætlum við að treysta á að einhver tilkynni þau áður en við grípum til aðgerða. Vandinn er að síurnar gera mistök og fjarlægja oft efni sem ekki ætti að taka niður. Með því að draga úr sjálfvirkri síun munum við stórminnka ritskoðun á miðlinum. Við munum líka stilla síurnar þannig að þær krefjist mun meiri vissu áður en efni er tekið niður. Vissulega er þetta málamiðlun.

Það þýðir að við munum að öllum líkindum fanga minna af skaðlegu efni, en við munum líka fækka tilvikum þar sem saklaust efni og saklausir notendur verða ritskoðuð af slysni. Í fjórða lagi ætlum við að endurvekja samfélagslegt efni. Um hríð óskuðu notendur eftir að sjá minna af stjórnmálum því það olli streitu hjá fólki. Við hættum að birta þessar færslur, en okkur finnst eins og við séum að ganga inn í nýja tíma núna og erum farin að fá ábendingar um að notendur vilji sjá slíkt efni aftur. Þannig að við ætlum að setja þetta inn aftur á Facebook, Instagram og Threads, en um leið reyna að stuðla að uppbyggilegum og jákvæðum samskiptum þar.

Í fimmta lagi ætlum við að flytja traust- og öryggis- og innihaldseftirlitsteymi okkar frá Kaliforníu, og bandarískir hlutar innihaldseftirlitsins munu starfa í Texas. Samhliða vinnu okkar að því að efla tjáningarfrelsi held ég að það muni auka traust að vinna þetta starf þar sem minna er um áhyggjur af pólitískri slagsíðu okkar teyma. Að lokum ætlum við að vinna með Trump forseta að því að sporna gegn áhrifum stjórnvalda víða um heim sem herja á bandarísk fyrirtæki og þrýsta á um aukna ritskoðun. Bandaríkin hafa sterkustu vörnina fyrir tjáningarfrelsið í heimi í stjórnarskrá sinni. Í Evrópu eflist sífellt löggjöf sem þrýstir á ritskoðun og gerir nýsköpun erfiða.

Ríki í Rómönsku-Ameríku eru með leynidómstóla sem geta skipað fyrirtækjum að fjarlægja efni í kyrrþey. Kína hefur ritskoðað snjallforritin okkar svo þau virka ekki þar.. Eina leiðin til að sporna gegn þessari alþjóðlegu þróun er að hafa stuðning bandarískra stjórnvalda. Og þess vegna hefur ástandið verið svo erfitt síðustu fjögur ár þegar jafnvel ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur þrýst á ritskoðun. Með því að ráðast á okkur og önnur bandarísk fyrirtæki hefur hún gert öðrum ríkjum enn auðveldara að ganga lengra.

En nú höfum við tækifæri til að endurreisa tjáningarfrelsið, og ég er spenntur að takast á við það. Það mun taka tíma að gera þetta rétt. Og þetta eru flókin kerfi sem verða aldrei fullkomin. Við verðum líka að vinna mjög ötullega að því að fjarlægja ólöglegt efni. En niðurstaðan er sú að eftir ár þar sem innihaldseftirlit okkar hefur snúist fyrst og fremst um að fjarlægja efni, er tími til kominn að leggja áherslu á að draga úr mistökum, einfalda kerfin okkar og snúa aftur að kjarna okkar; að gefa fólki rödd. Ég hlakka til þessarar nýju vegferðar. Verið góð hvert við annað – og fleira spennandi verður tilkynnt bráðlega.“


Josh Stylman er bandarískur frumkvöðull og athafnamaður. Jeffrey Tucker er rithöfundur, blaðamaður og forseti Brownstone Institute. Greinin birtist í Brownstone Journal 7. janúar 2025, þýdd og endurbirt með góðfúslegu leyfi.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *