Í lok stjórnlagaþingsins sem haldið var í Fíladelfíu 1787 ávarpaði Benjamin Franklin fólk sem beið utan við þinghúsið. Þegar hann var spurður hvers konar stjórnarform hefði orðið fyrir valinu svaraði hann: ,,Lýðveldi, ef þið getið viðhaldið því” (e. ,,A republic, if you can keep it”). Í því sem hér fer á eftir verður gengið út frá því að með lýðveldi sé átt við stjórnarfar þar sem æðstu valdhafar eru lýðræðislega kjörnir og svara til ábyrgðar gagnvart almenningi, ríkisvaldið er takmarkað, þrígreint og sætir gagnkvæmu aðhaldi, ríkinu er stjórnað með lögum en ekki geðþótta.
Með orðum sínum vísaði Franklin til þeirrar sögulegu staðreyndar að lýðveldisstjórnarformið viðheldur sér ekki sjálft. Þvert á móti byggist það á því að borgararnir axli ábyrgð á stjórn ríkisins, m.a. með þátttöku í stjórnmálum, með því að nýta málfrelsi sitt, kosningarétt o.fl. Franklin vissi að allt þetta er háð því að borgararnir hafi lágmarksáhuga á stjórnmálum og stjórnarfari, séu tilbúnir að grípa í taumana, tjá sig og rökstyðja afstöðu sína ef þeir telja sig sjá hættu- eða veikleikamerki.
Frjálst þjóðfélag stendur og fellur með því að menn geti og megi hafa ólíkar skoðanir. Í því felst mikilvæg jafnvægisstilling, sem afstýrir óhöppum, a.m.k. svo lengi sem menn eru reiðubúnir að hlusta á hvern annan.
Lýðveldisstjórnarformið krefst þess að við leyfum öðrum að hafa sínar skoðanir, umberum tjáningu þeirra og njótum samsvarandi umburðarlyndis annarra þegar við tjáum okkar sýn. Í þessu endurspeglast nauðsyn þess að við sýnum hvert öðru virðingu. Í þessu felst líka gagnkvæm viljayfirlýsing um að við viljum lifa í friði.
Sagan sýnir að þegar þessar umgengnisreglur eru vanvirtar hrynur siðmenningin og friðurinn leysist upp í ófrið. Harðstjórnarríki 20. aldar reyndu að halda friðinn með því að berja niður umræður, banna gagnrýni á stjórnvöld, ritskoða, stýra umræðu, þagga, fangelsa og drepa.
Lýðveldisstjórnarformið miðar að frelsi en ekki helsi. Það byggist á því að við verjum frelsi hvers annars og höfum trú á að við getum stjórnað okkur sjálf án þess að eyðileggja þau réttindi og það borgaralega frelsi sem okkur hefur verið gefið.
Ofangreindar línur eru skrifaðar þegar illviðrisský hrannast upp við sjóndeildarhringinn í formi hervalds, lögregluvalds, valdboðsstjórnmála, sérfræðingavalds, klíkuræðis o.fl. Á slíkum tímum ber okkur að fara sérlega gætilega í að afsala okkur ábyrgð á eigin lögum. Frammi fyrir þessu leyfist okkur ekki að vera hirðulaus um lýðveldið okkar.
Valdið á að vera í höndum almennings, ekki í höndum ríkisins. Ríkið á að þjóna almenningi, ekki öfugt.