Þetta gerist ekki af sjálfu sér

Við Íslendingar skuldum börnum samfélagsins okkar mikið, þar sem það er á okkar ábyrgð að tryggja að þau fái öll þau tækifæri og þann stuðning sem þau þurfa til að dafna sem heilbrigðir og hamingjusamir einstaklingar. Við berum ábyrgð á að tryggja þeim öryggi og vernd gegn ofbeldi og vanrækslu. Við skuldum þeim umhverfi þar sem öll börn fá jöfn tækifæri óháð bakgrunni. Þannig sköpum við þeim öllum meira öryggi.

Staða ungmenna á Íslandi þótti alls ekki til fyrirmyndar fyrir einhverjum árum var hér gríðarleg áfengisneysla og mikið ofbeldi á meðal ungmenna. Það var ekki fyrr en eftir markvissar aðgerðir stjórnvalda, í samstarfi við skóla, fjölskyldur, félagsmiðstöðvar og önnur samfélagsleg kerfi, sem var farið að sjá verulegar breytingar á þessum sviðum. Árangur Íslendinga hefur vakið mikla eftirtekt víða um heim og þótt til eftirbreytni.

Með aðgerðum, umhyggju, samfélagslegri ábyrgð og forvörnum náðum við árangri, sem við vorum ef til vill farin að taka sem sjálfsögðum hlut.

Árangurinn sem náðist virðist hafa tapast og um það sjáum við ólýsanlega skelfileg merki.

COVID-19 heimsfaraldurinn hefur án efa haft áhrif á þessa þróun, þar sem margir félagslegir þættir voru nær óvirkir á meðan á lokunum stóð. Hver sem ástæðan er, þá er staðan alvarleg og kallar á tafarlaus viðbrögð frá samfélaginu.

Samfélag sem stendur vörð um velferð barna styrkir almennt traust á milli fólks. Traust er grunnur samheldni í samfélaginu, sem stuðlar að aukinni samvinnu, minnkar átök og gerir samfélagið að betri stað fyrir alla.

Börn sem upplifa jafnrétti, sanngirni og þátttöku í samfélaginu eru líklegri til að leggja sitt af mörkum til þess. Þau öðlast dýpri skilning á samfélagslegum gildum, eins og lýðræði, réttlæti og mannréttindum, og verða virkir þátttakendur í að móta réttlátt og stöðugt samfélag.

Við skuldum börnum okkar að halda áfram þeirri vinnu sem áður leiddi til svo mikils árangurs, og við verðum að aðlaga aðgerðirnar að nýjum áskorunum. Þetta er ekki aðeins mikilvægt velferðarmál heldur einnig brýnt efnahagsmál. Ef við bregðumst ekki við mun þessi neikvæða þróun hafa langtímaafleiðingar, bæði fyrir velferð komandi kynslóða og öryggi samfélagsins.

Samfélög sem tryggja öllum börnum, óháð bakgrunni eða stöðu, stuðning og velferð, byggja sterkari stoðir. Þegar börn úr jaðarsettum hópum fá tækifæri til að blómstra styrkjum við ekki aðeins þau heldur einnig samheldni samfélagsins. Þetta leiðir til betri félagslegra tengsla og aukins trausts sem er undirstaða öryggis.

Við skuldum börnum okkar áframhaldandi alúð.

Höfundur er samskiptastjóri og ráðgjafi.
Pistillinn er birtur með leyfi

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *