Stefnumótið sem endaði með uppljóstrun

Project Veritas, með James O’Keefe í fararbroddi, er þekkt fyrir að koma upp um óprúttna aðila með falinni myndavél. En þótt uppljóstranirnar hafi oft verið stórtækar hefur lítið farið fyrir þeim vegna þöggunar í fjölmiðlum og á samskiptamiðlum.

Þann 26. janúar sl. var röðin komin að starfsmanni hjá Pfizer sem var sviptur hulunni eftir að hafa fullyrt, hlæjandi, að fyrirtækið sé að moka inn peningum með því að „mjólka“ covid-faraldurinn. Maðurinn glóðvolgi heitir Jordon Trishton Walker og er að sögn heimildarmanna framkvæmdarstjóri þróunardeildar fyrir mRNA-tækni hjá Pfizer. 

Walker hélt að hann væri á stefnumóti þegar hann var að monta sig af áformum lyfjarisans en viðmælandi hans, sem var á vegum Project Veritas, á að hafa verið fyrrverandi starfsmaður hjá Pfizer.

Yfir glasi af bjór er síðan þeim upplýsingum lekið að næsta skref hjá þróunardeildinni sé að stökkbreyta Covid-19 veirunni til að efla virkni hennar enn frekar og vera þannig skrefinu á undan með bóluefni tilbúið fyrir næstu bylgju. Walker vildi þó ekki kalla rannsóknina sínu rétta nafni; „Gain of Function“, sem er bönnuð sökum þeirrar áhættu sem hún hefur í för með sér, heldur notaði hann hugtakið „Directed Evolution“ þótt starfshættirnir séu í raun þeir sömu.

Viðmælandinn spyr forviða hvort eitthvað vit sé í þessu en þá svarar Walker að ekki þurfi að hafa áhyggjur af eftirlitsmönnum á vegum hins opinbera, því þeir dragi stundum úr gagnrýni og eftirliti með lyfjafyrirtækjunum. Þeir hafi augastað á lyfjarisunum sem tilvonandi vinnustað þar sem þeir munu væntanlega fá hærri laun. Má í því samhengi nefna Scott Gottlieb, sem fjallað var um nýlega á Krossgötum í greininni „Hagsmunaaðilar bólusetningarherferðarinnar“.

Á einum sólarhring, eftir að uppljóstrunin var komin í loftið á vefnum, var búið að þurrka út allar upplýsingar á netinu um þennan starfsmann Pfizer og Google búið að koma upp síu sem skilaði engum leitarniðurstöðum á nafninu hans. Rannsóknarmaðurinn Brian O’Shea, sem hefur getið sér gott orð sem rýnandi, birti ítarlega samantekt á bakgrunni Walker þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að bakgrunnur hans sé sá sem haldið er fram af Project Veritas. 

En fyrir fólk sem hangir ekki á Substack þá er ómögulegt að vita að þessi uppljóstrun hafi átt sér stað.

Engir meginstraumsfjölmiðlar hafa fjallað um málið þótt yfir 25 miljónir manna hafi nú horft á myndbandið á Twitter, þegar þetta er ritað, og áhuginn því augljóslega mikill. Aðeins fréttamaðurinn Tucker Carlson tók málið fyrir í þættinum sínum á sjónvarpsstöðinni Fox News. Tveir dagar liðu áður en Pfizer kom loks með fréttatilkynningu vegna málsins, án þess þó að staðfesta eða hafna því að Jordon Trishton Walker starfi þar.

Þöggunin er ískyggileg. Samt er það sem ljóstrað er upp um grafalvarlegt mál.

Í myndbandinu sem Project Veritas birti á Youtube er Dr. Robert Malone fenginn til þess að gefa sérfræðilegt álit á því sem ber fyrir sjónir. Myndbandinu hefur verið eytt núna af Youtube án útskýringa, líkt og atburðurinn hafi ekki átt sér stað. Annað myndband lifir þó enn á Twitter-síðu Project Veritas. Dr. Malone, sem er menntaður, í meðal annars Harvard, í læknisfræði og lífefnafræði, staðfestir að um sé að ræða Gain of Function rannsóknir þegar verið sé að efla hluta af veirunni með því að smita apa með henni, eins og Walker útskýrir í myndbandinu. Þykir honum Walker sýna mikið gáleysi, svo ekki sé talað um skeytingarleysi og siðlaust háttalag varðandi hugsanlegar afleiðingar fyrir mannkynið. 

Helstu meginstraumsfjölmiðlar þegja enn yfir málinu, líkt og uppljóstrunin hafi ekki átt sér stað. Hvað veldur? Málið hlýtur að vera fréttnæmt jafnvel þótt það hefði verið leikþáttur til að blekkja andstæðinga bólusetninga. Sem virðist þó ekki vera raunin.

Skemmst er frá því að segja að Walker var ekki hress þegar James O’Keefe birtist fyrir rest og tók hann á tali. Lýsa má því sem algjöru niðurbroti þegar Walker áttaði sig á í hvaða stöðu hann var búinn að koma sér í. Í myndbandinu sést hann hringja örvæntingarfullur í lögreglu og segjast óttast um líf sitt því að „fimm hvítir karlmenn væru búnir að króa sig af“. Þetta stefnumót fór svo sannarlega í súginn hjá honum blessuðum.

Á þessum tímum þöggunar er orðið æ mikilvægara að lesendur sjálfir kynni sér málin með eigin augum og eyrum. Með þessu áframhaldi er hætt við því að fólk missi á endanum traust sitt á hefðbundnum fréttafjölmiðlum og sækist í auknum mæli í upplýsingar beint hjá heimildarmönnum.

Heimildir:

Myndband sem sýnir uppljóstrunina á Twitter-síðu Project Veritas.

Þáttur fréttamannsins Tucker Carlson þar sem hann fer yfir uppljóstrunarmálið.

Upplýsingar um Jordon Trishton Walker á Substack-síðu Brian O’shea

https://brianoshea.substack.com/p/who-is-jordon-trishton-walker

Fréttatilkynning Pfizer
https://www.pfizer.com/news/announcements/pfizer-responds-research-claims

Greinin „Hagsmunaaðilar bólusetningarherferðarinnar“ sem fer yfir spillta eftirlitsaðila.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *