Sjö ára grunnskólabörnum kennt að þau megi taka myndir af líkömum sínum

Undanfarin misseri hefur verið virk umræða á samfélagsmiðlum og víðar um veggspjöld sem hanga á veggjum margra grunnskóla landsins. Fréttavefurinn Vísir kallar þau veggspjöld um kynheilbrigði, en greinir frá því að þau hafi verið „fjarlægð af veggjum grunnskóla í Kópavogi að beiðni foreldra ungra nemenda.“ Þó sjái verkefnastýra hjá Reykjavíkurborg að almennt sé mikil ánægja með veggspjöldin.

Titill eins veggspjaldsins er „Kynlíf og menning“ og er sagt að það hangi sumstaðar á göngum og í matsal, sýnilegt börnum niður í sex ára aldur. Á samfélagsmiðlum má lesa að fólk hafi skiptar skoðanir á skilaboðunum á veggspjaldinu, hvernig þau eru sett fram, og að hverjum þeim er beint.

Móðir 7 ára stráks í Álftamýrarskóla í Reykjavík komst að tilvist veggspjaldsins þegar sonur hennar spurði hana fyrir háttatímann þann 4. maí: „Mamma af hverju á maður að taka myndir af líkama sínum?“ Í kjölfarið lýsti hann svo veggspjaldinu fyrir móður sinni og hún fór að kynna sér það nánar. Hún komst að því að efst á veggspjaldinu megi sjá teikningar af nöktum ungum manneskjum með snjallsíma í hendi sér, og þar stendur „Þú átt þinn líkama og mátt taka myndir af honum…“. Móðirin „taggar“ Reykjavíkurborg í færslunni og spyr hvort þeim finnist þetta eðlilegt? „Að það sé verið að gefa 7 ára barni hugmyndir um að taka nektarmyndir af sér?“

Móðirin fær miklar undirtektir en flestum virðist þykja þetta undarlegt. Þó bendir ein kona réttilega á að það standi „hvergi [að] hann þurfi þess“ og bætir við að hún haldi að „margir séu að misskilja þetta.“ Já, rétt hjá henni, 7 ára strákurinn misskildi skilaboðin. En eins og önnur kona bendir á og margfalt fleiri taka undir „þarf að endurskoða kennsluefnið ef 7 ára drengur er að misskilja það“.

Karlmaður nokkur bendir á að „fullt af börnum eru með síma [og] eru að lenda í kynferðislegu ofbeldi í gegnum netið og eru plötuð til að taka myndir af sér.“ Þá spyr ein hvort það eigi virkilega við um „fullt af 6-7 ára börnum“ og bætir við að þá sé „augljóslega eitthvað mikið að í samfélaginu sem plaggat lagar ekki.“ Önnur bendir á að börn eigi „ekki að hafa aðgang að netinu þar sem þau eru varnarlaus gegn áreiti og sjá það sem þau eiga ekki að sjá. Snjallsímar og netið er ekki eitthvað sem á að vera í höndum barna.“

Ein kona á miðjum aldri bendir áðurnefndum karlmanni á að þetta veggspjald sé í barnaskóla en hvorki á netinu né í síma. „Þetta plakat snýst ekki um menntun“ segir hún, heldur „að kenna litlum börnum að kynlíf [sé] eðlilegur hlutur á þeirra á aldri.“ Þá heldur karlmaðurinn því fram að veggspjaldinu sé ætlað að „benda börnum á hvað gera skal ef þau lenda í kynferðisáreiti í gegnum símann“, en hún bendir réttilega á að svo sé ekki, enda komi ekkert slíkt fram á veggspjaldinu. Vissulega vantar samhengi á veggspjaldið og virðist það frekar til þess fallið að gefa börnum rangar hugmyndir en að kenna þeim nokkuð gagnlegt.

Veggspjaldið, sem hefur verið sýnilegt börnum niður í sex ára aldur í sumum grunnskólum landsins, normalíserar það að taka af sér nektarmyndir.

Neðar á veggspjaldinu stendur: „Þú mátt vera kynvera og þú mátt daðra.“ Einni móður þykir margt gott koma fram á þessu veggspjaldi en spyr hvort við séum „ekki sammála að það sé sjúkt að kenna börnum á yngsta stigi og miðju stigi grunnskóla“ að þau megi vera kynverur og megi daðra? Hún fær nokkuð góðar undirtektir við þessari spurningu. Vinkona greinarhöfundar sem er tveggja barna móðir og býr erlendis lýsir áhyggjum af því að „það virðist vera allt of mikill áhugi fyrir því að gera börn að kynverum á Íslandi“. Börn fái ekki lengur að vera börn í friði.

Í áðurnefndri frétt á Vísi er rætt við verkefnastýru Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar, sem sér um verkefnið. Segir hún að þrátt fyrir að markhópur veggspjaldsins séu unglingar þá sé líklegt að yngri börn sjái það, og það sé alls ekki slæmt. Hún virðist ekki hafa sömu áhyggjur og sumir foreldrar um að þarna sé verið að sá kynferðislegum hugmyndum í huga of ungra barna, án nokkurs samhengis, og að börnin geti misskilið skilaboðin á veggspjöldunum. Þess í stað þykir henni börnin líkleg til að „taka samtalið“ um veggspjöldin með starfsfólki í skóla og frístund, frekar en að halda mistúlkunum og ranghugmyndum sínum út af fyrir sig sjálf. Lesendur gætu velt því fyrir sér hvort börn séu almennt líkleg til að „taka samtalið“ um kynferðisleg málefni við starfsfólk í skólum, og hvort það hafi tíðkast þegar þeir voru ungir. Enn fremur telur verkefnastýran starfsfólk skóla betur í stakk búið en foreldra barnanna til að fræða börnin um þessi málefni.

Veggspjaldið, sem hefur verið sýnilegt börnum niður í sex ára aldur í sumum grunnskólum landsins, stingur upp á að börnin finni sínar fantasíur, prófi mismunandi kossa því þeir geti verið örvandi, og talar um að njóta kynlífs.

Verkefnastýran telur gagnrýni vegna átaksins óvenjulega og segir að mjög fáir hafi haft áhyggjur af þessu. „Almennt er mjög mikil ánægja með þetta, hjá börnum, foreldrum og starfsfólki,“ segir verkefnastýran. Þá er spurning hve margir vissu yfir höfuð af þessu. Ef fáir vita af einhverju og aðeins lítið hlutfall þeirra þorir að tjá sig er þessi ekki að vænta að margir lýsi yfir áhyggjum og komi þeim til skila. Eftir að foreldrar komust á snoðir um tilvist veggspjaldanna virðist eitthvað hafa breyst. Sannarlega virðast margir þeirra sem fylgjast með umræðunni á samfélagsmiðlum fá aðra tilfinningu en verkefnastýran hjá Reykjavíkurborg.

Veggspjöldin voru sennilega hengd upp í góðri meiningu og það má vera að í grófum dráttum henti innihald þeirra unglingum ágætlega, þótt fólk geti haft misjafnar skoðanir á því. Helsti ágreiningurinn felst í því að þau séu sýnileg yngri börnum sem misskilji þau og fái af þeim rangar hugmyndir. Því miður er raunveruleikinn sá að mörg ung börn eiga snjallsíma í dag; sum þeirra verða fyrir kynferðislegu áreiti í gegnum netið og eru jafnvel plötuð til að taka af sér myndir og senda þær á aðra. Flestir eru sennilega sammála um að það þurfi að sporna við því með forvarnarstarfi og kennsluefni sem hentar hverjum markhópi út af fyrir sig. Spurningin er því aðeins hvort umrædd veggspjöld séu áhrifarík leið til þess eða hvort þau valdi meiri skaða en ella.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *