Sannleikur skilgreindur sem upplýsingaóreiða

Upplýsingaóreiða (e. information disorder) er hluti af daglegu lífi okkar allra. Hvort sem það sé á samfélagsmiðlum eða í jólaboðum má treysta því að einhver frændi eða frænka spúi út úr sér alls konar þvælu, sem þó er að mestu skaðlaus. Flest erum við væntanlega sammála um að okkur stafi meiri ógn af upplýsingaóreiðu frá stórfyrirtækjum, fjölmiðlum, alþjóðlegum stofnunum, stjórnmálafólki og stjórnvöldum bæði innanlands og utan. Fyrir þá sem hafa áhyggjur af upplýsingaóreiðu frá þessum aðilum er þokkalega kaldhæðnislegt hvað þeir leggja mikið upp úr umræðu um upplýsingaóreiðu sjálfir, og reyna að telja almenningi trú um að það sé vilji þeirra að vernda hann frá upplýsingaóreiðu – það er að segja, upplýsingaóreiðu frá öðrum en þeim sjálfum.

Flest höfum við einhverja hugmynd um það hvað upplýsingaóreiða er. Í grunninn snýst þetta um dreifingu rangra og misvísandi upplýsinga. Stundum eru upplýsingar sem eru meira og minna réttar settar fram á villandi hátt til að blekkja eða gefa ranga hugmynd um raunveruleikann. Þetta getur verið gert viljandi eða óvart, til að valda skaða eða af saklausri einfeldni. Þessar undirtegundir upplýsingaóreiðu nefnast misupplýsingar (e. misinformation) og rangupplýsingingar (e. disinformation).

En þessar undirtegundir duga ekki þeim sem vilja fræða okkur um og vernda gegn upplýsingaóreiðu. Í skjölum, skýrslum og fræðsluefni hefur nýlega borið á nýrri, þriðju undirtegundinni, sem nefnist “meinupplýsingar”. Sem sagt, upplýsingar… sem gera mein.

Skilgreiningin er svohljóðandi:

“Réttum upplýsingum er deilt af ásetningi og til þess að valda skaða.”

Bíddu nú við – er nú farið að skilgreina réttar upplýsingar sem upplýsingaóreiðu?

Þessa skilgreiningu heyrði ég fyrst nýlega í viðtali nokkru, þá á ensku:

“Malinformation is truth used to inflict harm on a person, organization or country.”

Þáttastjórnandinn og viðmælandi hans hlógu að þessu, og ég hló með þeim. Ég hélt að þetta hlyti nú að vera eitthvað sér-bandarískt fyrirbæri. En viti menn – tveimur dögum síðar slysaðist ég inn á vefsíðu Krakkafrétta á RÚV, í leit að myndskeiði sem mér var sagt að innihéldi umdeildar eða misvísandi upplýsingar. Í staðinn rakst ég á annað myndband með titilinn “Kynfræðsla og upplýsingaóreiða”. Ég stóðst ekki mátið að kíkja á þann þátt, og þar sá ég þessa sömu skilgreiningu!

Úr þættinum “Krakkafréttir: Kynfræðsla og upplýsingaóreiða”, á RÚV

Þátturinn innihélt engar nánari lýsingar á því hvað átt er við með meinupplýsingum. Krökkunum er einfaldlega kennt að ef réttum upplýsingum sé deilt viljandi og til að valda skaða, flokkist þær undir upplýsingaóreiðu. Sjálfur hefði ég kallað slíkar upplýsingar óþægilegar staðreyndir, eða einfaldlega réttmæta gagnrýni.

Er það nú þannig að ef stórfyrirtæki eða stjórnvöld framkvæma verknað sem er þess eðlis að ef fólk kemst að því missi það álit á þeim, hlutabréfaverð lækki eða kosningafylgi minnkar, þá megi ekki tala um það, ella verði maður sakaður um upplýsingaóreiðu?

Næsta skref fræðslunnar er grein Vísindavefsins, sem veitir litla vitneskju um meinupplýsingar umfram þessa glæru úr Krakkafréttum. Þar er þó nefnt eitt dæmi:

“Þegar einkaupplýsingar (eins og skjöl, ljósmyndir eða upptökur) [eru færðar] yfir í almannarýmið og [slitnar] úr samhengi.”

Hér má velta því fyrir sér hvort upplýsingar séu réttar, í orðsins fyllstu merkingu, ef þær eru slitnar úr samhengi? Er það samhengisleysið sem gerir þessar upplýsingar að meinupplýsingum og þar með að upplýsingaóreiðu? Ef svo er þá væri það væntanlega hluti skilgreiningarinnar – en svo er ekki. Í þessu samhengi vísar Vísindavefurinn í skýrslu sem gerð var fyrir Evrópuráðið, og þar er þetta sama dæmi það eina sem er nefnt, nema án þess að það sé tekið fram að upplýsingarnar séu teknar úr samhengi. Það er því ekki samhengisleysið sem gerir þessar réttu upplýsingar að upplýsingaóreiðu.

Önnur skýrsla fyrir Evrópuráðið, sem Vísindavefurinn vísar í, nefnir hins vegar fleiri dæmi. Í henni segir að sumar tegundir hatursorðræðu og áreitni geti flokkast sem meinupplýsingar, þar sem fólk sé stundum gert að skotmarki vegna persónulegrar sögu sinnar og tengsla. Þá er væntanlega verið að vísa til tengsla, til dæmis við samtök, sem sumum kann að þykja umdeild. Það má velta því fyrir sér hvort slík gagnrýni geti ekki átt rétt á sér. Getur maður til dæmis borið traust til stjórnmálamanns sem er tengdur ótraustverðum aðilum og samtökum – sérstaklega ef um hagsmunatengsl er að ræða? Sumir hljóta að hafa áhuga á slíkum upplýsingum, og kjósa að láta slíkar upplýsingar hafa áhrif á skoðun sína. Á að telja fólki trú um að slíkar upplýsingar séu einfaldlega upplýsingaóreiða, sem því beri að hunsa?

Úr skýrslunni “Information disorder: Toward an interdisciplinary framework for research and policy making”

Sama skýrsla nefnir eitt annað dæmi um meinupplýsingar. Tveimur dögum fyrir forsetakosningar í Frakklandi vorið 2017 var tuttugu þúsund tölvupóstum sem tengdust kosningabaráttu Emmanuel Macron lekið á veraldarvefinn. Tölvupóstarnir voru raunverulegir svo upplýsingarnar í þeim voru réttar, en sumum þótti magn upplýsinganna og tímasetningin hafa skapað óvissu, og jafnvel óreiðu. Það er ekkert ósennilegt að gögnunum hafi verið lekið á þessum tímapunkti í von um að það myndi hafa neikvæð áhrif á fylgi forsetaframbjóðandans, eins og haldið er fram. Engu að síður stóð Macron uppi sem sigurvegari kosninganna. Það má vera að gagnalekinn hafi valdið forsetaframboðinu einhverjum skaða, en mikilvægari spurning er kannski sú, hvort hann hafi valdið almenningi skaða? Slíkt er eflaust erfitt að fullyrða.

Ef þessi gagnaleki er skilgreindur sem upplýsingaóreiða, hvað má þá segja um aðra gagnaleka sem innihalda réttar upplýsingar. Er hægt að saka Julian Assange um upplýsingaóreiðu fyrir að afla sér gagna um misgjörðir bandaríska hersins, og leka þeim til almennings? Er hægt að saka Edward Snowden um upplýsingaóreiðu fyrir að upplýsa almenning um það hvernig Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, njósnar um þegna sína? Gagnalekarnir drógu vafalaust úr trausti almennings á þessum stofnunum. Sennilega höfðu þeir einnig áhrif á kjör einhverra einstaklinga í einhver embætti, og leiddu til uppsagna hjá öðrum. Sleppa þessir gagnalekar kannski fyrir horn því það voru ekki forsetakosningar framundan?

Merking hugtaksins upplýsingaóreiða hefur alltaf verið nokkuð huglæg. Fólki greinir á um hvað sé rétt og rangt. Eina stundina er eitthvað talið rangt, en síðar kemur annað í ljós. Þar með er orðið býsna algengt að hópar fólks með ólíkar skoðanir og sjónarmið saki hvorn annan um upplýsingaóreiðu. Þegar hugtakið er ofnotað glatar það merkingu sinni. Þetta vandamál gæti versnað til muna með útvíkkun á skilgreiningu hugtaksins.

Það er eitthvað óhugnanlegt við það að stjórnvöld og alþjóðleg ráð og stofnanir séu farin að skilgreina réttar upplýsingar sem upplýsingaóreiðu. Það kæmi ekki á óvart ef þau notuðu þetta hugtak óspart um allan óþægilegan sannleik, eða réttmæta gagnrýni á sjálf sig. Næsta skref gæti verið að setja lög og reglugerðir til að hamla dreifingu réttra upplýsinga á veraldarvefnum, vegna þess að þær gætu valdið útvöldum aðilum eða sitjandi ráðamönnum skaða.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *