Um helgina sótti ég fund fólks sem beitir sér í þágu málfrelsis og gegn hvers kyns þöggun. Þessi hópur sem orðinn er allstór stendur að stofnun sem við köllum á ensku Institute for the Public Interest, skammstafað IPI. Á íslensku væri heitið Stofnun í þágu almannahags. Upphaflega spratt þetta samstarf úr baráttu fyrir frelsun Julian Assange en jafnframt var horft til allra átta og sjónum beint að einstaklingum sem hafa sætt ofsóknum fyrir að segja sannleikann um stríðsglæpi og pyntingar.
Í hópnum eru stjórnmálamenn, lögfræðingar og almennir áhugamenn um málefnið og er ég sjálfur í þeim hópi.
Í þessum röðum hefur því að sjálfsögðu verið fagnað að sigur vannst í máli Julian Assange á þann hátt að honum var ekki vísað til Bandaríkjanna þar sem hann átti yfir höfði sér margfaldan lífstíðardóm í fangelsi. Assange var látinn fallast á að grennslast ekki fyrir um aðför stjórnvalda á hendur honum á liðnum árum. Það segir sína sögu um samviskuna í London og Washington. Hún þolir með öðrum orðum ekki dagsljósið. Slík loforð taka að sjálfsögðu ekki til annarra en Assange sjálfs og verður hvergi slegið af við að upplýsa um allar hliðar þeirra ofsókna sem hann hefur sætt á liðnum árum einkum af hálfu stjórnvalda í Bandaríkjunum og fylgifiska þeirra í Evrópu og víðar.
Í tengslum við fund okkar í Brussel sóttu sum okkar bókakynningu sem haldin var til að vekja athygli á nýútkominni bók um Ali Aarrass. Titill bókarinnar er Le ciel est un carré blue, Himinninn er blár ferningur. Undirtitill er 12 ár í spænskum og marakóskum fangelsum.
Ali Aarrass er Belgi, ættaður í aðra ætt frá Marokkó. Ali bjó um skeið á Spáni en þar var hann handtekinn árið 2008 sakaður um vopnasmygl. Það reyndust rangar ásakanir að mati dómstóls á Spáni. Engu að síður var hann framseldur til Marakkó þar sem hann sætti áralöngum pyntingum, játaði að lokum og þarf engan að undra sem fékk að heyra af aðferðunum til að knýja fram játningu. Hann losnaði úr fangelsi í apríl árið 2020. Þrátt fyrir þessa játningu sem knúin var fram með pyntingum hefur aldrei neitt misjafnt sannast á Ali Aarrass.
En siðferðið þvælist ekki fyrir harðstjórum og herveldum þegar sýna þarf öllum þeim sem á einhvern hátt eru taldir geta ógnað valdinu, hvað biði þeirra ef þeir vildu upp á dekk. Til þess er Guantanamó, til þess var fangelsun Assange og eflaust var mál Ali Aarrass af sömu rót, öðrum til viðvörunar.
Í Ástralíu stæra yfirvöld sig af því að hafa átt sinn þátt í að frelsa Julian Assange sem er ástralskur ríkisborgari. En á sama tíma láta sömu áströlsku yfirvöldin dæma David McBride til fangelsisvistar fyrir að segja sannleikann um stríðsglæpi Ástrala í Afganistan. David McBride starfaði sem lögfræðingur í ástralska hernum en áður hafði hann verið liðsforingi í breska hernum. Þegar hann sá ástralska hermenn fremja stríðsglæpi og hvað eftir annað farið með rangt mál ákvað hann að upplýsa fjölmiðla um þetta. Því var svarað á þennan hátt.
Ekki alls fyrir löngu, áður en dómurinn var kveðinn upp yfir David, sat ég með honum fjarfund. Við vorum þarna nokkur samankomin flest af vinstri vængnum. Ég minnist þess að David sagði, ég er ekki eins og þið, ég kem úr gagnstæðri pólitískri átt við ykkur, gekk í herinn og taldi mig geta látið þar gott af mér leiða. Þegar ég hins vegar stóð frammi fyrir því hvort ég ætti að þegja um stríðsglæpi og ósannindi ákvað ég að tala hreint út, þögn og meðvirkni þetta stæðist ekki þær siðferðiskröfur sem ég vildi í heiðri hafa.
Myndirnar hér að neðan eru af bókakynningunni í Brussel síðastliðið föstudagskvöld þar sem bók Ali Aarrass vr kynnt. Fundarmenn voru heldur fleiri en sjá má á myndunum. Fjölmennari kyninngarfundir hafa þó eflaust verið haldnir en góðmennur var hann þessi því þarna var að finna staðfasta stuðningsmenn mannréttinda. Ég tók eftir því í máli Ali Aarrass á kynningunni þegar hann lýsti því hve einangraður og einn hann hafi verið í þrengingum sínum öll þessi ár í fangelsi hve mikils virði það hafi verið að vita að til voru menn sem fylgdust með honum utan fangelsismúranna, ekki margir, en ég vissi að Luke var alltaf þarna! Luke Vervaet er að sjá einan á einni myndinni en hann er þekktur baráttumaður fyrir mannréttindum. Á neðstu myndinni má sjá okkur Ali Aarrass en á milli okkar er rithöfundur að nafni Xavier Theunissen. Lengst til hægri á myndinni er svo MarieFrance Deprez sem staðið hefur mannréttindavaktina í Brussel af meiri eindrægni en nánast nokkur annar undanfarin ár ef ekki áratugi.
Greinin birtist fyrst á heimasíðu Ögmundar Jónassonar. Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi hans Ögmundar á heimasíðu hans. Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu.