Olli prentlistin galdrafárinu?

Samfélagslegt gildi tjáningarfrelsisins felst í því að það er forsenda þess að sannleikurinn komi fram og þar með forsendan að framþróun þekkingarinnar segir Hannah Arendt í The Human Condition. Tilgangur málfrelsisins er ekki að tryggja útbreiðslu ósanninda segir Arendt, en við verðum einfaldlega að sætta okkur við þau sem óhjákvæmilegan fylgifisk. Þetta viðhorf var nánast algilt í hinum frjálsa heimi til skamms tíma og á því grundvallast t.d. tjáningarfrelsisákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar og stjórnarskráa flestra annarra lýðræðisríkja.

En nú sjáum við sífellt fleiri lýsa efasemdum um gildi tjáningarfrelsisins. Í nýjustu bók sinni, Nexus, fjallar ísraelski sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari um tjáningarfrelsið og leitast við að hafna þeirri skoðun, sem lengi hefur verið almennt viðurkennd, að tilkoma prentlistarinnar og það prentfrelsi sem henni fylgdi hafi verið lykilforsenda vísindabyltingarinnar sem hófst með Upplýsingarstefnunni. Hann gengur jafnvel svo langt að staðhæfa að galdrafárið hafi átt rót í prentfrelsinu og tekur útbreiðslu Nornahamarsins (Malleus Maleficorum), sem var grunnrit galdraofsóknamanna sem dæmi um þetta.

Hvað vísindabyltinguna varðar virðist Harari rugla saman nauðsynja- og nægjanleikatengslum. Frjáls miðlun upplýsinga nægir vissulega ekki til að hrinda af stað byltingu í vísindum, en án hennar hefði byltingin hins vegar ekki getað átt sér stað. Með öðrum orðum var frjáls upplýsingamiðlun nauðsynleg forsenda, þótt hún væri ekki nægjanleg.

Greining Harari á galdrafárinu er einnig meingölluð, enda lítur hann algerlega framhjá þeim sálfélagslegu rótum sem lágu því til grundvallar. Hefði víðtækur og röklaus ótti við galdra ekki verið til staðar í samfélaginu hefði Nornahamarinn aldrei náð neinni útbreiðslu, útbreiðsla ritsins grundvallaðist einfaldlega á þessum sálfélagslegu kringumstæðum, rétt eins og rit um djöfulskap Tútsa í Rúanda hefði án vafa náð mikilli útbreiðslu þar í landi þegar morðæðið gegn þeim stóð sem hæst.

Tjáningarfrelsið veldur útbreiðslu ranghugmynda og samsæriskenninga segir Harari og grundvallar þá staðhæfingu á misskilningi sínum varðandi upphaf galdrafársins. Ranghugmyndir og samsæriskenningar eiga sér ávallt sálfélagslegar rætur og þær dreifast meðal fólks séu kringumstæðurnar réttar. Tjáningarfrelsi og sú opna umræða sem það tryggir er einmitt mikilvægt meðal gegn slíkum hugmyndum, en höft á það ýta undir þær. Reynslan í kjölfar tilrauna til að hefta skoðanaskipti á síðustu árum sýnir þetta einmitt glöggt. Höft og ritskoðun valda tortryggni í garð yfirvalda og fjölmiðla og ýta undir ranghugmyndir og sá jafnvel fræjum efasemda um augljósar staðreyndir. Þannig vinnur ritskoðunin á endanum gegn þeirri sameiginlegu skynjun (e. common sense) sem Arendt segir grundvöll heilbrigðs samfélags.

Harari endurómar hér viðhorf sem er því miður að ná sífellt sterkari fótfestu í samfélaginu. Tjáningarfrelsið sé hættulegt og því þurfi að hafa taumhald á tjáningu fólks. Fyrir fáeinum dögum lýsti t.d. John Kerry, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna því yfir í viðtali að málfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar stæði í veginum fyrir því markmiði stjórnvalda að tryggja einsleitni í skoðunum (e.consensus). Skammt er síðan leikskáldið C. J. Hopkins hlaut dóm í Þýskalandi fyrir að benda á líkindin milli stefnu nasista og reglna um grímunotkun. Dómurinn grundvallaðist á því að hann hefði notað hakakrosstáknið, en önnur notkun þess, s.s. hjá tímaritunum Stern og Spiegel er látin óátalin eins og Hopkins benti á í varnarræðu sinni sem lesa má hér. Og ekki er langt síðan Ísraelsstjórn réðist inn í höfuðstöðvar Al Jazeera sjónvarpsstöðvarinnar á Vesturbakkanum og stöðvaði starfsemi hennar. Ástæðan er að stöðin hefur staðið sig við að flytja fréttir af voðaverkum Ísraela í Palestínu og fréttamenn jafnvel fórnað lífi sínu á þeim vettvangi.

Við sjáum nánast daglega slík dæmi um að fjölmiðlum sé bannað að starfa, frelsi blaðamanna skert og þeir drepnir við störf sín, fólk dæmt í fangelsi fyrir að tjá skoðanir sínar. Það grunngildi sem tjáningarfrelsið hefur löngum verið er á hröðu undanhaldi. Það að almenningur láti sér þetta í léttu rúmi liggja, og að fræðimenn sem á endanum grundvalla störf sín einmitt á réttinum til frjálsrar tjáningar taki þátt í atlögunni án þess að átta sig á alvarleikanum er risastórt áhyggjuefni. Því tjáningarfrelsið er ekki aðeins forsenda þekkingarleitar og framþróunar, það er einnig sjálf grunnforsenda þess að lýðræðið fái þrifist. 

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *