Fyrr í þessari viku, nánar tiltekið 30. nóvember sl., afhenti undirritaður lögmaður minnisblað til heilbrigðisráðherra um fyrirhugaðar breytingar á regluverki WHO og möguleg áhrif þeirra á íslenskan rétt. Minnisblaðið var í framhaldi sent öllum alþingismönnum og öllum fjölmiðlum. Grein sú sem hér birtist hefur að geyma stutta lýsingu á innihaldi minnisblaðsins og almenna umfjöllun um bakgrunn málsins, sem ekki er ítarlega fjallað um í minnisblaðinu.
Á bak við luktar dyr er nú á vettvangi WHO unnið að því að semja tvö mismunandi en nátengd skjöl, þ.e. annars vegar svonefndan farsóttarsáttmála (e. Pandemic Treaty) og hins vegar breytingar á alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni (IHR), en bæði skjölin munu verða lögð fram til samþykktar á World Health Assembly í maímánuði 2024.
Ástæða er fyrir almenning að hafa vakandi auga með því sem þarna er að gerast undir formerkjum alþjóðlegra viðbragða við aðsteðjandi hættu, enda er ekki aðeins verið að þenja út valdsvið stofnunarinnar, heldur stendur einnig til að veita henni víðtækar heimildir til að lýsa yfir hættuástandi og framlengja slíkt ástand. Á meðan slíkt ástand varir er aðildarríkjunum ætlað að hlíta forsjá WHO um margt það sem lýtur ekki aðeins að yfirstjórn heilbrigðismála, heldur einnig um atriði er varða daglegt líf borgaranna og sjálfákvörðunarrétt þeirra yfir eigin líkama.
Ef hugmyndir þeirra sem nú vinna að framangreindum reglum verða að veruleika, þ.e. ef tilskilinn meirihluti þjóða samþykkir breytingarnar í maí 2024 og hinar þjóðirnar hafna nýju reglunum ekki, mun WHO umbreytast í nýja valdastofnun sem öðlast mun nánast alræðisvald yfir aðildarríkjunum þegar yfirmaður þeirrar stofnunar ákveður að lýsa slíku ástandi yfir. Við þær aðstæður verður WHO að nokkurs konar neyðar-ríkisstjórn um leið og kjörnir fulltrúar þjóðanna umbreytast í embættismenn þeirrar nýju stjórnar. Slíkar hugmyndir geta ekki hljómað vel í eyrum þeirra sem vita að allir valdhafar verða að lúta einhvers konar aðhaldi ef ekki á illa að fara. Vandinn við framangreint fyrirkomulag er sá að þessi nýja yfirstjórn myndi ekki lúta neinum stjórnskipulegum hömlum og myndi standa utan og ofan við stjórnarskrár aðildarríkjanna. Þetta er nógu varhugavert eitt og sér, en til að bæta gráu ofan á svart, þá vakna jafnvel enn stærri áhyggjur þegar rýnt er í það hverjir stjórna WHO.
Í minnisblaðinu er gefið stutt yfirlit um það hvernig stærstu hluthafar í alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum hafa keypt sig til áhrifa innan WHO. Þar eru birtar sláandi yfirlýsingar fyrrum yfirmanns WHO um það að yfir 70% af rekstrarfé stofnunarinnar sé afhent með skilyrðum (e. with strings attached). Frammi fyrir þessu er aðeins réttmætt og eðlilegt að menn treysti ekki í blindni tillögum sem stafa frá WHO og miða að því að sú stofnun fái aukin völd og áhrif.
Ekki verður skilið við framangreinda umræðu án þess að benda á, að samningaviðræður um efni framangreindra regla virðast hafa farið fram á bak við luktar dyr, án aðkomu lýðræðislega kjörinna fulltrúa íslenskra borgara. Slík vinnubrögð í svo stóru og alvarlegu máli samræmast ekki hugsjónum um lýðræðislegt aðhald, gagnsæi, virkt tjáningarfrelsi o.fl.
Með hinum nýju IHR reglum yrði grafið undan stjórnskipun okkar á margvíslegan hátt:
- WHO yrði veitt sjálfdæmi þegar kemur að því að lýsa yfir alþjóðlegri heilbrigðisvá (e. PHEIC) og leyft að víkka skilgreiningu á hættuástandi þannig að það nái til loftslagsbreytinga og umhverfisvanda. Þetta vald er hvergi temprað og hvergi gert ráð fyrir möguleika aðildarríkja / borgara til að leita endurskoðunar eða aftra því að WHO framlengi slíka yfirlýsingu um hættuástand með endurteknum hætti.
- Tilmæli sem áður bundu ekki aðildarríki eiga nú að verða bindandi gagnvart þeim, auk þess sem bætt er við ákvæðum um eftirlit af hálfu WHO og jafnvel refsiaðgerðir gagnvart ríkjum.
- WHO yrðu veittar heimildir til að stýra upplýsingaflæði og beita ritskoðunarvaldi þegar kemur að gagnrýni og almennri umræðu. Þetta yrði gert undir því yfirskini að nauðsynlegt sé að berjast gegn röngum upplýsingum og upplýsingaóreiðu. Þessar áætlanir fela í sér aðför að lýðræðinu, því engin valdastofnun má fá einkaleyfi / skilgreiningarvald yfir sannleikanum.
- Nýju IHR reglurnar gera ekki ráð fyrir að valdinu sé dreift á fleiri hendur til að verja menn gegn valdníðslu og ofríki valdhafa. Þetta brýtur auðsjáanlega í bága við stjórnskipulegar undirstöður Íslands eins og annarra vestrænna ríkja.
- IHR reglurnar gera ekki ráð fyrir að handhafar valdsins hjá WHO beri neina ábyrgð gagnvart almenningi. Engin þjóð sem þekkir réttarsöguna kallar slíkt vald yfir sig án umræðu, því valdhafar sem bera enga ábyrgð munu fyrr eða síðar misnota það vald.
- IHR reglurnar ógna grundvallarmannréttindum og mannlegri reisn. Sú hætta telst raunveruleg í ljósi reynslu síðustu ára, því ef dómstólar veita ekki viðnám og kjósa jafnvel að líta fram hjá stjórnarskrárákvæðum eins og gert var hér á Íslandi í „kófinu“ þá er almenningur í reynd varnarlaus fyrir ofríki stjórnvalda. Fórnir fyrri kynslóða til að verja borgarana fyrir ofríki stjórnvalda með skýrum stjórnarskrárákvæðum mega ekki verða gengisfelldar með því að fólki sé gert að hlýða fyrirskipunum valdhafa og þóknast þeim í hvívetna.
Verði þetta allt að veruleika þurfa menn að vera meðvitaðir um það að mjög erfitt gæti reynst að endurheimta þau réttindi og það frelsi sem hér er verið að kasta frá sér.
Áður en kosið verður um uppfærðar IHR reglur á vettvangi World Health Assembly í maí 2024 (þar sem einfaldur meirihluti dugar til þess að IHR öðlist gildi), þá verður Ísland að vinna gegn slíkri meirihlutamyndun eða lýsa yfir höfnun (e. rejection) nýrra reglna innan 10 mánaða frá atkvæðagreiðslunni. Ákvörðun um að senda slíka yfirlýsingu til framkvæmdastjóra World Health Assembly er þó alfarið í höndum ríkisstjórnar Ísland og möguleikar almennings til beinna áhrifa á þetta því takmörkuð.
Sáttmálinn (Pandemic Treaty) mun einnig koma til atkvæða í maí 2024 og mun þurfa samþykki 2/3 aðildarþjóða til að öðlast gildi. Þá mun aðildarþjóðum gefast 18 mánaða tímabil til að ræða um efni samningsins, fjalla um hann á þjóðþingum og fullgilda hann samkvæmt því sem hefðbundið er í lýðræðislegu og stjórnskipulegu tilliti. Af öllu framangreindu er ljóst að hér eru stórar breytingar í farvatninu sem kjörnir fulltrúar Íslendinga, sem og almenningur allur, þurfa að vera mjög vakandi yfir, ekki síst í ljósi vísbendinga um að covid-19 kunni að hafa átt uppruna sinn á rannsóknarstofu í Wuhan í Kína.[1] Ef slíkar vísbendingar eru á rökum reistar er runninn upp nýr veruleiki í samskiptum borgaranna við ríkisstjórnir sínar, því ef stofnanir ríkjanna annast nú framleiðslu á manngerðum veirum samhliða framleiðslu á bóluefnum gegn þessum sömu veirum, í samstarfi við stærstu lyfjafyrirtæki heims, sem sjálf seilast til áhrifa innan WHO, sem seilist til áhrifa yfir þjóðríkjunum, þá þarf ekkert minna en lýðræðisbyltingu til að tryggja að almenningur sæti ekki harðstjórn, undirokun og niðurlægjandi meðferð af hálfu valdhafa, sem brýtur í bága við mannlega reisn og grundvallarmannréttindi. Um allt þetta þarf meiri umræðu, ekki minni. Minnisblaðið sem vísað hefur verið til hér að ofan er vonandi aðeins upphafið að viðameiri og dýpri umræðu.
[1] Sjá t.d. https://nypost.com/2021/08/27/covid-origins-report-says-its-plausible-virus-leaked-from-wuhan-lab/