
Sú ákvörðun Marks Zuckerberg forstjóra Meta nú nýverið að láta af svonefndri “staðreyndavöktun” á miðlinum vakti umtalsverða athygli. Ákvörðunin beindi sjónum að hinu mikla vægi sem samfélagsmiðlar hafa nú öðlast þegar kemur að fréttaflutningi, en eins og Erna Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar bendir á í nýlegri grein fer vægi hefðbundinna fréttamiðla í stjórnmálaumræðu sífellt minnkandi meðan vægi samfélagsmiðla vex hratt.
Margir hafa lýst áhyggjum af því hvað verði um staðreyndirnar þegar staðreyndavöktun er hætt, en X, áður Twitter lét af henni að mestu eftir að auðkýfingurinn Elon Musk eignaðist fyrirtækið. Það er algengt viðhorf að ákvarðanir þeirra sem sjá um hina svonefndu staðreyndavöktun hindri með einhverjum hætti að röngum upplýsingum sé haldið fram opinberlega. Þetta er hins vegar að miklu leyti alrangt. Eins og Zuckerberg benti á í yfirlýsingu sinni á dögunum og fjallaði um í kjölfarið í viðtali við bandaríska þáttastjórnandann Joe Rogan hefur staðreyndavöktunariðnaðurinn þvert á móti sýnt sívaxandi pólitíska slagsíðu.
Sjálfur þekki ég þetta vel enda starfaði ég við það í hjáverkum fyrir örfáum árum að greina og gagnrýna umfjallanir þessara aðila og afhjúpa aðferðir sem teljast verða vægast sagt vafasamar. Í stað þess að starfsemi þeirra snerist um að kanna hvort fullyrðingar sem haldið var fram í fjölmiðlum væru réttar eða rangar snerist hún að langstærstum hluta um að hindra að réttar upplýsingar sem hentuðu ekki yfirvöldum fengju litið dagsins ljós.
Ágætt dæmi um hvernig samspil staðreyndavaktara, fjölmiðla og samfélagsmiðla virkaði og virkar raunar enn er þegar hin virta rannsóknarstofnun Cochrane Review sendi frá sér rannsókn sem sýndi að engar hágæða rannsóknir styddu þá fullyrðingu að skylda til grímunotkunar á tímum kórónuveirufaraldursins hefði haft áhrif á útbreiðslu pestarinnar. Rannsóknin vakti talsverða athygli, enda hafði mikið verið deilt um þetta efni allt frá því stjórnvöld víðast hvar í heiminum tóku að skylda fólk til grímunotkunar snemma árs 2020.
Strax og skýrsla Cochrane Review kom út birti New York Times grein þar sem vitnað var til hennar og þeirri spurningu varpað fram hvaða lærdóm mætti draga af niðurstöðunum. En Adam var ekki lengi í Paradís því fáeinum dögum síðar hafði staðreyndavöktunarfyrirtækið Health Feedback birt grein þar sem fullyrt var að rannsóknin sýndi alls ekki það sem hún sýndi.
Aðferðin sem beitt var er dæmigerð fyrir vinnubrögðin í þessum iðnaði. Í stað þess að staðreyndavaktarinn leitaðist við að sýna að rannsóknin sjálf væri gölluð var fundinn strámaður, vísindamaður sem engin tengsl hafði við Cochrane hafði fjallað um rannsóknina. Staðreyndavaktarinn byggði á umfjöllun hans, fór rangt með, lagði honum orð í munn og grundvallaði þannig umfjöllun sína á eigin rangfærslum.
Staðreyndavaktarinn tók þar næst til við að ráðast persónulega á umræddan vísindamann og reyna að gera hann ótrúverðugan á grundvelli rangfærslna um fullyrðingar hans um allt annað efni löngu áður.
Það er fyrst að þessu loknu sem staðreyndavaktarinn gerir tilraun til að draga úr vægi rannsóknar Cochrane, fyrst og fremst með því að reyna að sýna fram á að þeir fyrirvarar sem rannsakendur lýsa gagnvart niðurstöðunum og sem ávallt er dregin athygli að í vönduðum rannsóknum sýni að rannsóknin sé að engu hafandi, að engu skipti þótt engar hágæða rannsóknir sýni gagnsemi grímunotkunar því til séu ófullkomnar rannsóknir sem geri það og svo framvegis.
Um leið og grein staðreyndavaktarans birtist voru allar vísanir í greinina í New York Times flokkaðar sem “rangupplýsingar” á samfélagsmiðlum. Blaðið flýtti sér að birta aðra grein þar sem staðhæft var að grímur virkuðu sko víst og meginröksemdirnar fólust í að ráðast persónulega á aðalhöfund rannsóknarinnar fyrir orð sem hann hafði aldrei látið falla.
Skömmu síðar lét jafnvel forstjóri Cochrane Review hafa sig út í að fullyrða opinberlega að rannsóknin hefði alls ekki snúist um hvort grímur virkuðu heldur aðeins um hvort aðferðir til að hvetja til grímunotkunar bæru árangur, sem er alrangt, rannsóknin fjallaði alls ekki um þær. Skýringin kom von bráðar; fjölmargir styrktaraðilar Cochrane Review höfðu tekið að draga til baka framlög til stofnunarinnar.
Nákvæma umfjöllun um þetta tiltekna efni má sjá í grein minni sem birtist á vef Brownstone Institute í mars 2023 og er hún aðeins ein af mörgum um þetta efni.
Staðreyndavöktun, sem upphaflega hafði þann tilgang að afhjúpa ósannindi sem stjórnmálamenn létu sér um munn fara umbreyttist fljótt í áróður fyrir tilteknum sjónarmiðum þar sem virðing fyrir staðreyndum er látin lönd og leið. Það er því góðs viti að Meta hafi nú ákveðið að hætta að fjármagna staðreyndavöktunariðnaðinn og það er einnig góðs viti að Zuckerberg hafi loks viðurkennt hið nána samstarf miðilsins og stjórnvalda sem lengst af var reynt að afneita.
Það er hins vegar áfram stórt áhyggjuefni hvernig risafyrirtæki sem njóta náttúrulegrar einokunarstöðu hafa tök á að stýra umræðunni, stjórna því hvort og hvernig efni hefðbundinna fréttamiðla er komið á framfæri, draga notendur inn í bergmálshella og móta afstöðu þeirra, yfirleitt á grundvelli ógagnsærra algríma. Þetta er eftir sem áður ein stærsta ógnin við tjáningarfrelsið sem við stöndum frammi fyrir. Því tjáningarfrelsið er ekki aðeins frelsi til að tjá eigin skoðanir, það krefst nefnilega einnig upplýsingafrelsis, möguleikans á að afla sér upplýsinga og vega þær og meta með gagnrýna hugsun að vopni. Það krefst þess líka að þær skoðanir sem við myndum okkur séu í raun og veru okkar eigin.
Því er það svo að þegar einokunarrisar með algrím að vopni hefja samstarf við ríkisvald sem hefur mestar áhyggjur af því hvernig losna megi við stjórnarskrárákvæði um tjáningarfrelsi líkt og sjá hefur mátt víða um heim, jafnt í lýðræðisríkjum sem öðrum, erum við komin á afar hættulega braut.
Samstarf stórfyrirtækja og ríkisvalds sagði Benito Mussolini á sínum tíma grundvöll fasísks stjórnarfars.
Til skamms tíma voru tilvitnanir í þessi orð hans flokkaðar sem “rangupplýsingar” á samfélagsmiðlum.