Málfrelsið á flótta

Um daginn var stofnandi og forstjóri skilaboðaþjónustunnar Telegram handtekinn í Frakklandi, ásakaður um að framfylgja ekki reglum um ritskoðun á efni. Skilaboðaþjónusta hans er útbreidd og meðal annars mikið notuð af rússneskum hermönnum til að deila efni frá vígvellinum, og sömuleiðis af úkraínskum hermönnum í sama tilgangi.

Á heimasíðu Telegram segir um staðsetningu fyrirtækisins: „Flestir þróunaraðilar á bak við Telegram koma upphaflega frá Sankti Pétursborg, borginni sem er fræg fyrir fordæmalausan fjölda mjög hæfra verkfræðinga. Telegram teymið þurfti að yfirgefa Rússland vegna staðbundinna reglugerða um upplýsingatækni og hefur reynt nokkra staði sem bækistöð, þar á meðal Berlín, London og Singapúr. Við erum nú ánægð með Dúbaí, þó við séum tilbúin að flytja aftur ef staðbundnar reglur breytast.“

Evrópskt lýðræðisríki hefur með öðrum handtekið stofnanda skilaboðaþjónustu sem fæddist í Rússlandi, flúði þaðan til Miðausturlanda, er sú mest notaða meðal rússneskra hermanna og er nú í herkví í Evrópu.

Lengi skal málfrelsið elta uppi og halda á flótta.

En þeir eru fleiri miðlarnir sem finna nú þrýsting frá yfirvöldum – lýðræðislegum og öðrum og hvaða nöfnum sem þau kalla sig – og má þar meðal annars nefna Gab, X (áður Twitter) og Rumble. Notkun þessara miðla er bönnuð sífellt víðar og oft hörð viðurlög ef reynt er að komast framhjá takmörkunum. 

Forstjóri Rumble sendi nýlega út ákall til skráðra notenda sinna og benti á þessa slæmu þróun. „Heimsveldin vilja ekki Rumble, þau vilja ekki X, þau vilja ekki Telegram og þau vilja ekki Truth Social. Þau vilja stjórna upplýsingum, en fyrirtækin okkar munu ekki leyfa þeim það. Það eru engin önnur stór fyrirtæki sem berjast fyrir frelsi eins og við. Við leggjum allt í sölurnar fyrir það, og forstjóri Telegram var nýlega handtekinn fyrir það. Auglýsendur sniðganga fyrirtækin okkar til að reyna að skera á efnahagslega líflínu okkar, en þeir vanmeta stuðninginn sem við höfum meðal fólksins. Fólkið heldur okkur á lífi og heldur okkur gangandi.“

Hann hvetur í lokin lesendur, og notendur Rumble, til að gerast áskrifendur og hjálpa þannig miðlinum að verða óháður efnahagslegum þvingunum. Sjálfsagt er er að skoða slíkt.

Eftir stendur að málfrelsið á í vök að verjast, og sögulega kannski meira en við kærum okkur um að rifja upp. En það mun ekki takast á slökkva á því. Rumble varð til af því Youtube fór að ritskoða. X var keypt af manni sem þoldi ekki að sjá yfirganginn hjá fyrri eigendum. Telegram var upphaflega litli bróðir WhatsApp sem féll í hendurnar á Meta og sannleikssmiðunum þar á bæ og fékk marga til að leita að valkostum. 

Við lærðum ýmislegt á tímum heimsfaraldurs, meðal annars að sannleikurinn er ekki endilega í fréttatímunum, kemur ekki endilega úr munni prófessora og lýðheilsufrömuða, er ekki endilega fyrsta forgangsatriði stjórnmála- og embættismanna, og ekki endilega það sem hljómar líklegast.

En hver sem sannleikurinn er þá komumst við aldrei að því ef málfrelsið er sífellt á flótta. Það er því okkar að sjá til þess að þegar yfirvöld skera niður eina rödd að tvær fæðist í staðinn. Yfirvöld gefast ekki upp við slíkt, en þau þreytast kannski og þá er eitthvað unnið.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *