Það er nú eiginlega þveröfugt við það sem okkur hefur verið uppálagt að hugsa, nefnilega að horfa okkur nær en ekki fjær, og skil ég það þá þannig að í stað þess að fjargviðrast út í það og þá sem eru utan okkar eigin garðveggs, beri okkur að horfa í eigin barm. Það var líka niðurstaðan fyrir tvö hundruð sextíu og fjórum árum hjá franska hugmyndasmiðnum, Voltaire þegar hann gaf út heilræðasögu sína, Candide. Boðskapur þeirrar sögu, sem Halldór Laxness þýddi svo meistaralega á íslensku og kallaði Birting, var sá að hollast væri hverjum manni að horfa jafnan sér sem næst, rækta sinn eigin garð. Og gengur ekki siðaboðskapur Biblíunnar einmitt út á þetta sama, eða skylda hugsun, að í stað þess að leita að flísinni í auga náunga síns ætti hver maður að byrja á því að fjarlægja bjálkann úr eigin auga? Þetta held ég að sé hverju orði sannara.
Samt ætla ég að þráast við og halda mig við það að nú sé brýnt að horfa sem víðast, og sem lengst í burtu, helst hafa allan heiminn undir en ekki bara sinn eigin blett. Með því móti og aðeins með því móti sæjum við eigin tilveru í réttu ljósi. Með öðrum orðum, áður en við reisum alla vindmyllugarðana – varla föllumst við á að kalla þá vindmyllulundi sem mér skilst að Landsvirkjun geri stundum – þá þurfum við fyrst að fá svör við því hvert förinni sé yfirleitt heitið; í þágu hverra eigi að fórna náttúru Íslands, kyrrðinni, fuglalífinu og kannski í leiðinni skynsemi okkar og dómgreind.
Já, til hvers? Og hverjar verða afleiðingar þess sem við gerum í meintri vörn fyrir móður jörð ef við ekki horfum einmitt eins langt og komast má, suður til Indlands, til Fílabeinsstrandarinnar í Afríku og víðar þar sem öllu er að lokum hent, líka rafhlöðunum úr “umhverfisvænu” bílunum, ónýtu vindmylluvængjunum og úreltum vígtólum.
Já, vígtólunum. Þau voru einmitt kveikjan að hugrenningartengslum mínum: Vígvæðingin. Nú er ekki lengur reynt að halda aftur af hergagnaiðnaðinum, heldur er beisli og mél nú tekin út úr ótemjunni og sporinn sleginn undir kviðinn. Fyrir nokkrum dögum sótti ég á netinu eins konar seminar eða ráðstefnu um baráttu umhverfissinna í fátækum ríkjum heims. Þarna var fólk frá Afríku, Suður Ameríku og Asíu, einkum Indlandi. Ég reyndi að hlusta grannt eftir því sem þetta fólk hafði að segja.
Alls staðar var fólkið og samtök þess í vörn andspænis gríðarlega gráðugu og ágengu auðvaldi. Fram kom að mönnum reiknist til að í Indlandi hefðu á síðustu þremur áratugum um sextíu milljónir manna verið hraktar frá heimkynnum sínum því að námafyrirtæki eða stórtækir framleiðslurisar í akuryrkju og landbúnaði vildu fólkið á burt. Þetta eru innlendir risar en þó miklu oftar alþjóðlegir, með heimilsfesti, að því marki sem hún er einhver, í hinum kapítalíska heimi kauphallanna. Sá heimur hætti nefnilega aldrei að reka nýlendupólitík.
Í suð-austurhluta Indlands, þaðan sem fulltrúi einna samtakanna á þessum netfundi kom, er að finna fjórðung af öllu báxíti í heiminum en báxít er notað í vinnslu áls og er nýtt í flugvélar og að sjálfsögðu einnig í hergögn. Á fundinum var því haldið fram að í fátækari hluta heimsins væri einnig farið að gæta áhrifanna af þeirri vitfirringu – ég nota það hugtak að yfirveguðu ráði; þeirri vitfirrtu vígbúnaðarstefnu sem nú er rekin og ræður för.
Í okkar hluta heimsins er hætt að tala fyrir friði, stríðin eiga að vinnast, barist skuli til síðasta manns, með öllum þeim eyðileggingarvopnum sem völ sé á. En þá þurfa þau líka að vera til. Og ekki stendur á vopnaframleiðendum enda eru það þeir sem kynda undir óvildina, hræðsluna og hatrið sem nauðsynlegt er til að tendra ófriðarelda og glæða styrjaldarbál.
Jú, auðvitað gildir það enn að okkur beri að horfa okkur nær, en við þurfum jafnframt að skilja og taka ábyrgð á afleiðingum gerða okkar í fjarlægum löndum. Og með því móti er von til þess að við öðlumst skilning á okkar eigin ábyrgð heima fyrir og nú einnig í hinu stóra samhengi.
Þannig að þótt brugðið sé frá hinu hefðbundna orðtaki – maður horfðu þér nær – og mannkynið ávarpað eins og gert er í fyrirsögn þessa pistils þá er allt gamalt og gott enn á sínum stað.
Líka flísin og bjálkinn.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu