Má bjóða þér nýjan Berlínarmúr utan um hugsun þína?

Í útvarpsviðtali á Bylgjunni í fyrradag nefndi ég Berlínarmúrinn og fall hans árið 1989. 

Kommúnistastjórnin hófst handa við að reisa múrinn 13. ágúst 1961 sem ,,And-fasískan varnarvegg” (þ. antifaschistischer Schutzwall, e. Anti-Fascist Protection Wall). Múrinn var m.ö.o. reistur undir yfirskini ,,umhyggju”. Á sama tíma gættu vopnaðir verðir þess vandlega að enginn kæmist yfir múrinn til vesturs. Til þess voru notaðar vélbyssur, sprengjuþræðir, varðhundar, gaddavír o.fl. Umhyggja stjórnvalda var býsna kuldaleg: Á þeim 28 árum sem múrinn stóð er talið að 254 Austur-Þjóðverjar hafi týnt lífi á ,,dauðasvæðinu” austan við múrinn.

Heimsmyndin í Austur-Berlín var svart-hvít: Allt var vont vestan megin, en austan megin var allt í besta lagi. Austan megin nutu borgararnir margvíslegra lagalegra réttinda. Allir vissu þó að þessi réttindi voru aðeins orð á blaði, en einskis virði í raunheimum. Þannig var t.d. málfrelsið glæsilega tíundað í stjórnarskrá DDR en óvirkt í framkvæmd, því stjórnvöld töldu einfaldara að þagga niður í fólki en að heimila gagnrýni, rökræður og efasemdir. Slíkt ýtti undir óróá, dró úr hlýðni og rauf samstöðu.  

Allt voru þetta ávextir forsjárhyggju á sterum, þ.e. alræðisstjórnarfars þar sem ríkið hefur afnumið allt einstaklingsfrelsi og reynir að stjórna öllum þáttum mannlegs lífs. Slíkt stjórnarfar verður ekki endilega til á einni nóttu: Það getur gerst með því að smám saman verði fleiri háðir ríkinu um framfærslu og með því að berja niður einkaframtak. Reglurnar þurfa auðvitað að vera skýrar: Ríkið vill að þú virðir eignarétt þess, en hikar ekki við að skerða eignarétt þinn, t.d. með hærri skattlagningu. Þegar mistök verða við meðferð ríkisvalds í slíkum ríkjum, þá axlar enginn ábyrgð. 

Þegar múrinn féll hélt ég að frjálst hagkerfi og frjáls hugsun myndu valda jákvæðum straumhvörfum. Ekki datt mér í hug að áhrifin yrðu mögulega í hina áttina. Frammi fyrir hnignun vestræns stjórnarfars í átt til forsjárhyggju, ríkisvæðingar, skattpíningar, eftirlits, þöggunar, ritskoðunar og óttastjórnunar hlýtur að mega spyrja hvort í raun sé múrinn að rísa aftur, bara mun vestar?

Ætlum við að leyfa forsjárhyggjufólki að setja hugsun okkar í hlekki, hefta málfrelsi okkar og múra okkur inni í ramma þar sem fámennur hópur ,,beturvita” ætlar að skilgreina hvað megi segja og hvað ekki?

Ef við látum þetta yfir okkur ganga væri það ekki bara vanvirðing við fórnir fyrri kynslóða og skeytingarleysi gagnvart hagsmunum afkomenda okkar, heldur væru það svik við okkur sjálf, okkar innsta eðli. Við erum sköpuð til að vera frjáls og láta ljós okkar skína, í þjónustu við aðra (Matt. 5:15).

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *