Eru þau til, landamæri án landa? Í sögulegri vitund eru þau vissulega til. Og tilefnið til að nefna slík landamæri er að í þessum mánuði eru hundrað ár frá því að skrifað var undir samning í Lausanne í Sviss þar sem sigurvegararnir úr heimsstyrjöldinni fyrri komu sér saman um skiptingu þess hluta heimsins sem heyrt hafði undir þau ríki er beðið höfðu lægri hlut í stríðinu.
Nú var öllu umturnað ekki síst í vestanverðri Asíu og fyrir botni Miðjarðarhafs. Víðlendu ríki Ottómana sem um aldir hafði verið stýrt frá Istanbúl, áður Konstantínópel eða Miklagarði eins og Íslendingar höfðu nefnt þessa miklu borg Tyrklands, var sundrað og búin til ný ríki með nýjum heitum.
Byggðir, þjóðir og þjóðabrot voru að sjálfsögðu enn á sínum stað en landamærin voru glæný. Til urðu ný ríki með nýjum nöfnum.
Lausanne samningurinn byggður á hagsmunum stórveldanna
Lausanne samningurinn sem undirritaður var í janúar árið 1923 átti sér nokkurra ára aðdraganda. Áður en stríðinu lauk höfðu fulltrúar gömlu nýlenduveldanna, Breta og Frakka, komist að samkomulagi sem fyrst og fremst var ætlað að tryggja þeirra eigin hagsmuni. Frakkar vildu ráða á því svæði sem síðar varð Sýrland og Líbanon en Bretar í gömlu Mesópótamíu sem varð Írak, svo og Jórdaníu sem nú varð til og í Palestínu.
Svæðið við austanvert Miðjarðarhafið og austur á bóginn var gert að “verndarsvæðum” þessara gömlu nýlenduvelda, svolítið öfugsnúin nafngift því verndin sneri náttúrlega fyrst og fremst að hagsmunum sigurvegaranna. Verndarsvæðin öðluðust síðan fullt sjálfstæði eftir seinna stríð.
En upp frá þessu tala sigurvegarar heimsins um að heilagast í mannheimi sé að virða landamæri allra þeirra ríkja sem þeir skópu. Er þá allt gleynt um það hvernig þau urðu til og vel að merkja enn áskilja stórveldi sér rétt til íhlutunar innan landamæra.
Þessi nýi arkitektúr Mið-austurlanda átti síðan eftir að hafa óendanlega erfiðleika í för með sér líkt og í öðrum hlutum heimsins þar sem evrópsku nýlenduveldin höfðu tekið sér vald til að ákveða ríkjaskipan.
Ríkið sem aldrei varð
En beinum sjónum inn í suð-austanvert Tyrkland og þar austur úr þar sem nú er Armenía, Írak og Íran og reyndar einnig suður á bóginn í norðanvert Sýrland sem á landamæri að Tyrklandi, með öðrum orðum til þeirra svæða sem Kúrdar byggja.
Samningamenn Breta og Frakka, þeir Sykes og Picot, töldu skynsamlegt að hlusta á talsmenn Kúrdanna enda var og er veruleikinn sá að svo fjölmennir eru þeir að hefðu þeir fengið að stofna ríki á því svæði þar sem þeir eru í meirihluta væru þeir nú fjörutíu til fimmtíu milljón manna þjóð í landi á stærð við fjórfalt Ísland. Með öðrum orðum, Kúrdar sem við þekkjum af fréttum sem minnihlutaþjóðarbrot í fyrrnefndum ríkjum ættu fjölmennt eigið ríki. Fyrrnefndir samningamenn nýlenduveldanna ætluðu þeim að vísu aldrei að verða stórríki en sjálfstætt ríki engu að síður. Og um það var sammælst á sérstakri ráðstefnu sem haldin var í Sevres í Frakklandi árið 1920.
Það eru þessi fyrirheit um landamæri utan um sjálfstætt ríki Kúrda sem lifa í minningunni.
Vilji íbúanna er það sem máli skiptir
Í tilefni aldarafmælis Lausanne samningsins munu Kúrdar án efa minna á að þeir viðurkenni hann ekki.
Það sem breytti gangi sögunnar frá því samið var í Sevres og síðan Lausanne var uppreisn tyrkneskra þjóðernissinna, undir forystu Ataturks, sem á þessum árum náðu völdum í Tyrklandi og styrktu svo stöðu tyrkneska ríkisins að nýlenduveldin gömlu þorðu ekki annað en að viðurkenna kröfur þeirra.
Þar með varð ljóst að ekkert Kúrdaríki yrði til. Og ekki nóg með það, lengi vel var látið svo að Kúrdar væru ekki til í Tyrklandi. Ataturk kallaði þá fjallatyrki, bannaði mál þeirra og menningu og þegar þeir snerust til varnar og sóknar eftir atvikum voru þeir kallaðir hryðjuverkamenn. Undir það hafa aðildarríki NATÓ tekið fram á þennan dag, beint eða þá óbeint með þögn sinni.
Hvernig væri að hinn 30. janúar, á hundrað ára afmæli Lausanne samkomulagsins, lýsi ríkisstjórn Íslands því yfir að endurskoða beri þennan samning? Landamæri séu ekki heilög heldur vilji íbúanna, á þessum slóðum sem annars staðar.
Greinin birtist fyrst í helgarblaði Morgunblaðsins 21/22.01.23