Upplýsingin, menntastefna 18. aldar, miðaði að því að uppfræða almenning og endurskipuleggja pólitískt líf þannig að kennivaldi yrði vikið til hliðar og einstaklingnum veitt frelsi til hugsunar, skoðanamyndunar og sannleiksleitar. Lýðræðið byggir samkvæmt þessu á því að hver einasti maður myndi sér sjálfstæða skoðun, en berist ekki hugsunarlaust með straumnum. Átakanlegt er að sjá fólk verða viðskila við samvisku sína, afneita sannfæringu sinni, missa sýn og stefnu, verða reköld í vindblásnu umhverfi hagsmuna og valda, vegna hræðslu og utanaðkomandi þrýstings.
Í þeim tilgangi að verja fólk fyrir slíkum örlögum reisir stjórnskipun okkar varnargarða um lýðræðið, þar sem rökstuddur efi og málfrelsi er sérstaklega varið. Þetta er gert til að reisa skorður við því að eitt afl, einn flokkur eða eitt sjónarmið, nái heljartökum. Síðustu misseri höfum við orðið vitni að óheillaþróun í öfuga átt, þ.e. frá lýðræði til valdboðsstefnu. Þetta hefur gerst í skrefum, en þróunin er öllum sýnileg sem hana vilja sjá.
Ótti hefur vikið hugsun til hliðar. Sá sem er fastur greipum óttans getur ekki hugsað rökrétt. Óttastjórnun er orð sem leitar á hugann þegar fjölmiðlar, stjórnmálamenn, fræðimenn, læknar o.fl. boða heilsufarsvá, orkuskort, matarskort, netárásir, og upplýsingaóreiðu. Mjög hefur skort á að sömu aðilar birti skilaboð um þrautseigju, hugrekki, viljastyrk, von, traust og trú, þannig að menn geti á raunsæjum grunni varist því að valdið sé tekið frá almenningi og lýðræðislegt stjórnarfar leyst af hólmi með valdþótta og einhliða fyrirskipunum.
Þegar stöðugt er hamrað á aðsteðjandi ógnum og ýtt undir ótta er grafið undan hinni vestrænu lýðræðishefð. Allir sem bera lágmarksskynbragð á lærdóma sögunnar vita að það er skammgóður vermir að færa valdið frá kjósendum og kjörnum fulltrúum þeirra til óþekktra stjórnenda sem starfa í umboðsleysi. Enginn talar þó um varnarleysi okkar gagnvart slíku fyrirkomulagi þar sem valdhafar svara ekki til neinnar ábyrgðar gagnvart alþýðu manna. Um þetta nýja stjórnarfar virðist þó ekki mega efast. Pólitískur rétttrúnaður, sem framfylgt er með kjökri, heimtufrekju, hártogunum og kröfum um skilyrðislausa hlýðni, umber engan ágreining um kennisetningarnar. Við þessar aðstæður og með þessu móti er málfrelsið bælt og framkallað umhverfi þar sem aðeins ein skoðun er í reynd leyfileg – á loftslagsmálum, bólusetningum gegn kórónaveirunni, Rússnesku þjóðinni o.s.frv. Ekki ómerkari maður en Jonathan Sumption, fyrrverandi hæstaréttardómari í Bretlandi, hefur bent á að lýðræðislegt stjórnarfar hrynji til grunna þegar „hræddur meirihluti krefst þess að samborgarar þeirra verði beittir stórtækum þvingunaraðgerðum“.
Verkefni borgaranna, stjórnmálamanna, blaðamanna, fræðimanna o.fl. er að hugsa og ræða á gagnrýninn hátt um það sem almennt er viðurkennt og vinsælt þá stundina. Eitt megineinkenni ófrjálsra samfélaga mannkynssögunnar hefur verið bann við frjálsri umræðu. Allt sem er bannað að gagnrýna hefur tilhneigingu til að spillast af eigingirni, hagsmunabaráttu og öfgum. Því þarf hin lagalega, pólitíska, menningarlega og pólitíska umgjörð, enn sem fyrr, að verja frelsi borgaranna til hugsunar, tjáningar og sannleiksleitar.
Efinn er mikilvægur. Heilbrigður efi er ekki andstæða vonar og trúar. Slíkur efi knýr okkur áfram í leit að sannleika; krefur okkur um stöðuga endurskoðun þess sem við teljum okkur geta lagt til grundvallar. En við lifum nú á tímum þar sem efanum hefur verið úthýst. Við lifum í samfélagi sem er hætt að efast. Hvað getum við gert til að snúa þessu til betri vegar?
Kæri lesandi, ég skora á þig að taka þátt í að skapa vakningaröldu til að rjúfa doða hugsunarleysis og stöðva straumröst ofríkis, valdboðs og harðstjórnar.