Hvernig “Orðalögreglan” stýrir því hvaða fréttir við fáum

Fyrr í þessum mánuði kom út kolsvört 232 blaðsíðna skýrsla World Obesity Federation, þar sem því er spáð að meira en helmingur jarðarbúa muni glíma við offitu árið 2035. Offita meðal barna mun meira en tvöfaldast segir þar. Í skýrslunni er að finna skorkort þar sem 187 löndum er raðað eftir getu þeirra til að takast á við offitufaraldurinn. Óháð ráðgjafarnefnd áætlar að efnahagsleg áhrif á hagkerfi heimsins nemi 4,32 trilljónum Bandaríkjadala í tapaðri framleiðslu og viðbótarkostnaði við heilbrigðisþjónustu, vegna sykursýki, of hás blóðþrýstings, hjartasjúkdóma og annarra offitutengdra sjúkdóma. Þetta eru um það bil 3% af vergri landsframleiðslu heimsins, sömu áhrif og af lokunum og höftum vegna COVID-19 árið 2020.

Því má bæta við að þessar 4 trilljónir Bandaríkjadala gætu verið vanáætluð tala. Sumir vísindamenn sem ekki tóku þátt í gerð skýrslunnar telja að talan verði umtalsvert hærri þar sem spáin tók ekki tillit til óumflýjanlegs kostnaðar vegna langtímaörorku af völdum offitu.

World Obesity Federation, sem hefur aðsetur í London, er ekki einhver hægrisinnuð hugveita sem leitast við að setja svartan stimpil á fólk með háan líkamsþyngdarstuðul (yfir 25 er ofþyngd, meira en 35 flokkast sem offita). Þetta er virt sjálfseignarstofnun sem starfar með stuðningi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og mannfjöldadeildar Sameinuðu þjóðanna. British Medical Journal birtir niðurstöður rannsókna stofnunarinnar.

En sú virðing sem World Obesity Federation nýtur hefur þó lítil áhrif á ákveðna framsækna talsmenn lýðheilsu, sem trúa því að slíkar skýrslur auki aðeins á „fitufordóma og fitusmánun innan lýðheilsuvísinda. Þessi andstaða, sem á sér rætur í „woke“ hugmyndafræði hefur verið að byggjast upp í mörg ár.

Læknir nokkur birti grein á heilsubloggi Harvard Medical School og varaði þar við því að „fitufordómar væru gegnumgangandi í læknavísindum.“ Hugtök eins og „offitusjúklingur“ og „sjúkleg offita“ feli í sér smánun. Breska heilbrigðisþjónustan, NHS hefur í áratug hvatt lækna til að hætta notkun orðanna „offita“ og „ofþyngd“ en reyna í stað þess að finna „þyngdaróháð“ (weight-neutral) orð. Tímarit bandarísku læknasamtakanna, Journal of Ethics, sakar lækna með „fitufordóma“ um að „viðhalda offituvanda þjóðarinnar“.

Orðið „offita“ ætti að vera bannað í heilbrigðisþjónustu, sagði löggiltur næringarfræðingur á síðasta ári í grein sem gefin var út af Chicago School of Public Health í Illinois.

Ritstjórn Buzzfeed blandaði sér í slaginn. Orðið offitu „ætti að forðast,“ lýsti ritstjórnin yfir. Hvers vegna? Það er byggt á BMI (body mass index), mælikvarða sem „einfaldlega byggir á mati belgísks vísindamanns á hæð og þyngd meðalmanns fyrir 200 árum.” Mælikvarðinn sé rasískur og meðal hvatanna að mannkynbótastefnu.

„Áherslan á líkamsstærð á rætur að rekja til kynþáttafordóma“ endurómaði svo lýðheilsuskóli University of Chicago:

„Um 81 prósent samfélaga hafa í gegnum tíðina verið hlynnt fólki með aukna líkamsstærð. Stærri líkamar táknuðu auð og velmegun en grannur líkami táknaði fátækt og sjúkleika. Hins vegar tók þetta að breytast vegna kynþáttafordóma og mannkynbótahugmynda. Charles Darwin og aðrir kynþáttavísindamenn bjuggu til stigveldi siðmenningar, settu hvíta menn efst og litað fólk, sérstaklega svart fólk, neðst, og töldu það vera „minna siðmenntað.“ Fita og annars konar líkamseiginleikar voru notaðir til að sýna fram á skort á siðmenningu; fita var notuð sem merki um „vöntun á siðmenningu“ á meðan grannur líkami var álitinn „þróaðari“. Þessari hugmynd var viðhaldið um öll Bandaríkin á 19. og 20. öld, sem leið til að réttlæta þrælahald, kynþáttafordóma og stéttaskiptingu, og stjórna konum með kröfum um „hófsemd“.’ Þessi hugmyndafræði hefur ýtt undir mismununarstjórnmál (Desirability Politics) – þar sem grannur líkami og ljóst hörund fá meiri aðgang að félagslegum, pólitískum og menningarlegum auði.“

Skýrsla World Obesity Federation sýnir hins vegar að offita leggst að mestu jafnt á alla kynþætti. Þegar um er að ræða tölfræðilega marktækan mun er hann yfirleitt lituðu fólki í hag. Til dæmis spáir skýrslan því að aukning offitu fram til ársins 2035 verði helmingi minni í Afríku sunnan Sahara en í Mið- Suður- og Norður Ameríku.

Margir Substack lesendur vita að staðreyndir einar og sér ráða því ekki alltaf um hvað er fjallað í hjarðfjölmiðlum nú á dögum. Miklu skiptir hvort fréttin tikkar í réttu boxin gagnvart framfarasinnaðri hugmyndafræði. Við getum rétt ímyndað okkur hvort skýrsla stofnunar sem nýtur stuðnings WHO og SÞ og sýndi 4 trilljóna Bandaríkjadala kostnað vegna hækkunar hitastigs á heimsvísu yrði ekki umsvifalaust forsíðufrétt í flestum dagblöðum og fréttaveitum.

En hvað um skýrslu World Obesity Federation? Leitaðu bara á netinu. Um hana hefur verið fjallað í læknatímaritum á borð við STAT, Healthline og Medical Press. Frétt Reuters var birt hjá CNN Online og CBS Online. WebMD flutti fréttina, og netfréttaveita FOX News. Einu dagblöðin sem settu fréttina í prentútgáfur sínar voru New York Post og The Alaska Dispatch News. Stór nöfn í eldri fjölmiðlum, þar á meðal The New York Times, Washington Post og NBC, hunsuðu algerlega þessa kolsvörtu skýrslu. Því með því að fjalla um hana hefði þurft að nota hið óvinsæla orð offita.

Ég skrifaði í síðasta mánuði á Substack um „Atlöguna að málfrelsinu“ Sú atlaga felur þó ekki ávallt í sér beina ritskoðun, útilokun eða að neitað sé að takast á um hugmyndir á opnum umræðuvettvangi. Líkt og feluleikurinn með skýrslu World Obesity Federation sýnir eru fréttir stundum síaðar og efni sem ekki fellur að tilteknum stjórnmálaskoðunum er einfaldlega ekki birt. Þegar atlögur hennar valda því að almenningur fær ekki upplýsingar um mikilvæg málefni er takmarki Orðalögreglunnar náð.

Greinin birtist fyrst á Substack-síðu Geralds Posner. Þorsteinn Siglaugsson þýddi.


Gerald Posner er margverðlaunaður bandarískur rithöfundur og blaðamaður. Meðal 13 bóka hans eru “Pharma – Greed, lies and the Poisoning of America”, þar sem m.a. er kafað í ópíópahneykslið í Bandaríkjunum “God’s Bankers”, um fjármálamisferli í Vatíkaninu, og “Case Closed”, sem fjallar um morðið á John F. Kennedy og rannsókn þess.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *