Þöggun falskra kóra

Mér finnst gaman að syngja og syng í íslenskum kór í Kaupmannahöfn. Ástríðan er svo mikil að ég skrepp alla leiðina yfir í annað land frá Svíþjóð til þess að fara á kóræfingar vikulega. Það er eitthvað við kórsöng sem heillar mig. Kannski er það félagsskapurinn. Eða nostalgían yfir því að taka lagið á íslensku hér í útlegðinni. En sennilega er það helst fegurðin sem felst í því að búa til eitthvað fallegt með raddböndunum okkar í samstilltu átaki. Kórinn nær að framkalla flókinn og stórbrotinn hljómflutning í sameiningu en það getur einsöngvarinn ekki einn og sér. Þannig má segja að hver rödd sé mikilvæg í kórnum og hafi hlutverki að gegna til að geta myndað þennan fallega heildarhljóm.

En að koma saman í hóp og þenja raddböndin er ekki nóg. Gólið þarf að líka að hljóma vel í eyrum annarra, því takmarkið með æfingunum er að flytja áheyrendum afraksturinn á nokkrum tónleikum yfir árið. Einhver þarf að njóta góðs af allri fyrirhöfninni. Þetta er samt afslappaður kór og enginn að missa sig í fullkomnunaráráttunni. Við viljum hafa gaman af þessu og það er mikið hlegið. Það er samt sem áður eitt skilyrði fyrir inngöngu í kórinn. 

Þú mátt ekki syngja falskt. 

Einhverjum kann að finnast þetta ólýðræðislegt og brot á athafnafrelsi fólks sem vill fá að syngja í kór þrátt fyrir að geta ekki sungið. Kannski er eitthvað fasistalegt við það að fara í sérstaka söngprufu til að skera úr um það hvort viðkomandi geti sungið eða ekki áður en aðgangur að kórnum er gefinn. Falska fólkinu er vitanlega brugðið yfir þessari miskunnarlausu slaufun. Er þetta ekki bara þöggun, útilokun og eitthvert hatur gagnvart þeim?

Kannski svipað og fólk sem vill fá að ljúga eins og því sýnist í nafni málfrelsis. Það er nefnilega tjáningarfrelsi í landinu og þá má bara segja það sem manni sýnist, jafnvel þótt það sé falskt. Svo blöskrar þeim að lygarnar eru ekki teknar til greina og saka þá aðra, sem taka ekki undir lygarnar eða gagnrýna þær, um þöggun eða útskúfun. 

Í kórnum eru fjögur mismunandi raddsvið sem þarf að æfa. Þetta er flókið ferli að pússa saman mismunandi útfærslur sem þurfa að hljóma vel í sameiningu. Það reynir mikið á einbeitinguna að halda réttum tón þegar fjórir mismunandi tónar og taktar óma um rýmið samtímis. Þetta reynir á þann eiginleika að geta hlustað á heildarútkomuna, að geta sungið hæfilega hátt og yfirgnæfa ekki aðra í kórnum. Samhljómurinn er ofar öllu og heildarmyndin lokatakmarkið.

En þessi hlustunareiginleiki getur leitt til þess að fólk villist af leið í söngnum ef einhver tekur forystuna en syngur falskt. Stundum hefur það gerst að einhver tekur óvart vitlausan tón og nær að draga fleiri með sér inn í afbrigðilegan söng. Þannig getur heill kór afvegaleiðst inn í lítinn bergmálshelli. Það er nefnilega þannig að sá sem syngur falskt eða vitlaust áttar sig ekki alltaf á því og syngur jafnvel hástöfum því viðkomandi er ekki að hlusta á hina í kórnum. Og aðrir þora ekki að treysta á innsæið og yfirgnæfa falska tóninn með hinum rétta tón, því þá heyrist enn betur hvað kórinn er að syngja vitlaust. 

Lausnin er auðvitað að hlusta á eigin dómgreind og vera með réttu tónana alveg á hreinu til að afvegaleiðast síður ef einhver annar skyldi taka rangan tón eða fara með rangfærslur í hverskyns málflutningi. Ef allir myndu gera það myndi sá sem er úti á þekju átta sig betur á því. Það þarf að vinna heimavinnuna til að stóla ekki eingöngu á aðra til þess að vita hvað er rétt eða rangt. Satt eða falskt. 

Málfrelsi snýst um að gæta þess að sannleikurinn fái áheyrn, ekki að verja rétt fólks til að dreifa lygum eða fölskum áróðri hvort sem það eru stjórnvöld, hagsmunaaðilar eða einstaklingar á samfélagsmiðlum.

Því þegar á botninn er hvolft er söngur raddbeiting, líkt og tal. Söngur er tjáning, líkt og orðræða. Hægt er að miðla sannleika og samhljóm í báðum tilvikum, eða öfugt. Vill einhver hlusta á falskan kór?

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *