Um fátt hefur verið meira rætt í Bretlandi síðustu daga en þær uppljóstranir sem koma fram í gögnum Daily Telegraph um samskipti ráðamanna þar í landi eftir að kórónuveiran brast á. Gögnin eru upplýsandi fyrir almenning en óþægileg fyrir stjórnvöld. Með umfjöllun sinni er Telegraph að rækja aðhaldshlutverk sitt betur en nokkur annar fjölmiðill hefur gert síðan kófið hófst. Raunar má segja að ein helstu vonbrigði þessara ára hafi verið hversu mikla meðvirkni fjölmiðlar sýndu stjórnvöldum. Í stað þess að spyrja gagnrýnna spurninga einbeittu blaðamenn sér að því að spyrja af hverju ekki væri gengið lengra, af hverju það væri ekki gert fyrr o.s.frv.
Stjórnvöld settu reglur sem þau vissu að yllu skaða
Fréttir af þessum samskiptum munu áfram birtast í Daily Telegraph á næstu dögum. Eftirskjálftarnir gætu orðið víðtækir og langvarandi. Í stuttu máli afhjúpa umrædd skilaboð það hversu veikum fótum lýðræðið stendur, ekki bara í Bretlandi, heldur í öllum þeim rikjum sem stýrðu eftir sama kompás taugaveiklunar, vanhæfni, sýndarmennsku o.fl. Dæmi: Gögnin eru til marks um að yfirvöld hafi sett reglur sem þau vissu að myndu valda miklum skaða, t.d. að banna bannað fólki að heimsækja deyjandi ættingja á sjúkrahúsum og elliheimilum, án þess að vita hvort það veitti nokkra vernd. Áhersla stjórnvalda í Bretlandi var samkvæmt þessu lögð á að ,,gera eitthvað” til að þurfa ekki að sitja undir ásökunum um aðgerðarleysi.
Hlutverk vísindamanna er að leita sannleikans, ekki að þykjast vera holdgervingar hans
Á sama tíma og allar þessar upplýsingar birtast um pínlegt ráðaleysi æðstu ráðamanna eru vindar að snúast í vísindaheiminum. Margt það sem þóttu heilög sannindi árið 2020 er nú að umbreytast í ,,falsfréttir” og ,,upplýsingaóreiðu”. Dæmi: Bóluefni veita ekki betri vörn en náttúrulegt ónæmi; grímunotkun hafði engin tölfræðilega marktæk áhrif á útbreiðslu veirunnar; hjartavöðvabólga meðal ungra karlmanna er algengari eftir bóluefnasprautur, en eftir covid-smit.
Frammi fyrir öllum þessum nýju upplýsingum vakna fjölmargar spurningar: Er hugsanlegt að það hafi verið yfirvöld sjálf sem ollu mestu upplýsingaóreiðunni í kófinu? Hvers vegna voru réttar upplýsingar úthrópaðar sem falsfréttir en ósannindi sett á stall sem sannleikur? Hversu margt af þessu skrifast á einföld mistök og hversu margt var aðeins (hræðslu)áróður til að framkalla hlýðni borgaranna?
Hlutverk valdhafa er að verja málfrelsið, ekki að skerða það
Íslenskir fjölmiðlar og íslenskir stjórnmálamenn þurfa að leita svara við öllum þessum spurningum. Besta leiðin til þess er þó augljóslega ekki sú að þenja út eftirlitsbáknið og ýta undir ritskoðunar- og þöggunartilburði með því að styrkja fjölmiðlanefnd ,,til að takast á við falsfréttir á netinu”.
Ef menn áttu enn erfitt með að skilja mikilvægi málfrelsis í síðustu viku þá ættu atburðir og afhjúpanir síðustu daga að vera til áminningar um að mannkynssagan fer ekki mjúkum höndum um þá sem vilja beita opinberu valdi til að skilgreina sannleikann.
Sagan mun dæma þau
Þegar frá líður mun þetta tímabil vafalaust verða sérstakt rannsóknarefni í háskólum. Stjórnmálafræðingar munu ræða um hvernig stefnumörkunarvald var afhent sérfræðingum. Lögfræðingar munu leita skýringa á því hversu veikt réttarríkið var í raun þegar á reyndi. Fjölmiðlafræðingar munu vafalaust vilja ræða hvort / hversu mikið hið svonefnda fjórða vald var gert óvirkt með ríkisstyrkjum. Sagnfræðingar munu ræða hvort nýtt stjórnarfar hafi rutt sér til rúms í kófinu, þar sem virðing fyrir frelsi einstaklingsins var gengisfelld og þar sem lýðræðið vék fyrir valdboðsstjórn.
Eitt er víst: Síðari kynslóðir munu rýna vandlega í það sem gerðist og leita skýringa á því hvers vegna efnahagslíf þjóða var lagt í rúst vegna veiru sem hafði u.þ.b. 0.3% dánartíðni (IFR). Menn munu reyna að skilja hvers vegna ungu og hraustu fólki var meinað að lifa eðlilegu lífi vegna veiru sem snemma var vitað að lagðist almennt ekki þungt á aðra en aldraða og sjúklinga með margháttuð undirliggjandi veikindi.
Hér skal gefinn út sá spádómur að sagan muni kveða upp þungan dóm yfir taugaveiklun ráðamanna og undirgefni almennings.