Hvenær máttu kjósa? Hvenær máttu tala?

Í 33. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir í fyrstu málsgrein: „Kosningarrétt við kosningar til Alþingis hafa allir sem eru 18 ára eða eldri þegar kosning fer fram og hafa íslenskan ríkisborgararétt.“ Ekki eru á þessu neinar takmarkanir nema þá helst sú að einstaklingur þurfi að eiga lögheimili á Íslandi en stundum er hægt að veita undanþágu frá þeirri reglu. Kosningarétturinn er varðveittur í stjórnarskrá og ekki takmarkaður við skoðun þína eða hegðun, sakaskrá eða menntun. Hann er talinn svo mikilvægur að hann megi ekki skerða. Brjálæðingar, bændur, siðblindir, ómenntaðir og prófessorar hafa allir sama rétt til að kjósa valdhafa lýðveldisins. Einn maður, eitt atkvæði.

Öðru máli gegnir um tjáningarfrelsið, en þar er stjórnarskráin öllu loðnari, og segir í 73. grein hennar að það megi skerða „í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.“

Svona loðið orðalag er og verður misnotað og ákvæðið túlkað eftir hentisemi yfirvalda hverju sinni. Kosningarétturinn er vel varinn í stjórnarskrá enda enginn að tala um að taka hann af fólki með „rangar“ skoðanir. Allir mega tjá sig með atkvæði sínu. Tjáningarfrelsið stendur hins vegar óvarið á víðavangi og berskjaldað gegn skothríð þeirra sem vilja ekki sjá ákveðnar skoðanir.

Hvernig stendur á því að rétturinn til að kjósa er mun betur varinn í stjórnarskrá en rétturinn til að tjá sig? Það er jú alltaf fræðilegur möguleiki á að lýðræðissamfélag kjósi yfir sig morðóða brjálæðinga eins og sagan sýnir. Háværar rökræður um umdeild mál eru bara það. En á þessu misræmi er sennilega sú skýring að óháð því hvað kemur upp úr kjörkössunum þá telja kjörnir fulltrúar sig alltaf vita betur en þú, jafnvel þótt þú hafir kosið þá til valda. 

Með öðrum orðum: Um leið og venjulegur einstaklingur hefur hlotið kjör og fær í hendurnar völd þá skalt þú gjöra svo vel og passa hvað þú segir til að ógna ekki „allsherjarreglu“, þ.e. hróflir ekki við völdum stjórnmálamannsins. 

Menn hafa lengi gert sért grein fyrir þessari hneigð stjórnmálamannsins eða valdhafans. Þess vegna er kjörtímabil stjórnmálamanna takmarkað við tiltölulega fá ár. Þess vegna er ríkisvaldið greint í þrennt. Þess vegna er til staðar stjórnarskrá sem á að vera erfitt að breyta. En þessir varnaglar duga ekki til. Spilling valdsins byrjar á degi eitt og kjörtímabilið notað til að kaupa atkvæði næstu kosninga. 

Á tímum heimsfaraldurs reyndu yfirvöld að kæfa frjálsa tjáningu með tilvísun í samstöðu samfélags og getu til að takast á við sameiginlega ógn. Þegar kom í ljós að ógnin var ýkt, viljandi eða óviljandi, vildi samt enginn sleppa tökunum, blaðamannafundunum, sviðljósinu og völdunum. Það var ekki fyrr en fólk fékk að kjósa og stokka upp í hópi valdhafa að það tókst að koma samfélaginu á braut eðlislegs lífs, í bili. Sem betur fer megum við tjá okkur óheflað á fjögurra ára fresti, en það væri óskandi að það væri daglegt brauð.


Eftir Geir Ágústsson