„Með vísan til þokukenndra hugtaka á borð við „falsfréttir“ geta stjórnvöld tekið sér leyfi til að banna hvers kyns umræðu á opinberum vettvangi.“
Á fyrri tíð mun sá ósiður hafa viðgengist að menn væru numdir á brott og færðir í skip án yfirlýsts vilja þeirra. Hver sem vaknar í skútu úti á rúmsjó hlýtur að spyrja grundvallarspurninga: „Hvar er ég, af hverju er ég hér, hvert er förinni heitið?“ Þetta eru raunar klassískar tilvistarspurningar sem alltof fáir spyrja. Í þessari stöðu myndir þú, kæri lesandi, væntanlega líka vilja fá heiðarleg svör því hverjir stjórnuðu för og eftir hvaða leiðarmerkjum væri stýrt.
Frá Grikklandi til Íslands í úfnum sjó
Þjóðarskútan er í raun forn-grísk myndlíking til að lýsa þjóðlífi og stjórnmálum: Skipseigandinn er holdgervingur almennings, stór og sterkur, en skammsýnn og ekki vel að sér í siglingafræðum.Skipverjarnir , deilugjarnir og fákunnandi, eru táknmyndir fyrir stjórnmálamenn og múgæsingamenn hvers tíma. Eini maðurinn um borð sem getur markað rétta stefnu út frá stjörnum himins ersiglingafræðingurinn , sem því miður er þó áhugalaus um daglegar ryskingar hinna og blandar sér ekki í stjórnmál nema skylda hans krefjist þess.
Skipverjarnir kalla hann skýjaglóp en keppa innbyrðis um hylli eiganda skipsins í þeim tilgangi að fá sjálfir að sitja við stjórnvölinn. Í þeirri keppni nota menn öll tiltæk meðul til að brengla dómgreind skipseigandans (kjósenda). Í nútímasamfélagi, ekki síst í vestrænum lýðræðisríkjum, er áróðri beitt í þessu skyni.
Edward Bernays, systursonur Sigmunds Freuds, var einn áhrifamesti áróðursfræðingur 20. aldar. Bernays kynnti aðferðir sem nýta mætti til að stýra almenningsálitinu, enda væri það „mikilvægt í lýðræðissamfélagi“. Nú á tímum birtist áróður okkur m.a. í sauðargæru sérhagsmunasamtaka sem halda því fram að almannahag sé best þjónað með opinberum fjárveitingum og ýmiss konar sérréttindum til þeirra. Með ráðkænsku taka fyrirtæki, stéttarfélög, þrýstihópar og jafnvel ríkisstofnanir nú ríkan þátt í áðurnefndum ryskingum og múgæsingarstarfi. Almannatenglar og fjölmiðlar eru nýttir í þeim tilgangi að stýra almenningsálitinu í „rétta“ átt.
Stýra ber frá straumröst, ekki að henni
Í kórónaveirufárinu sáum við þetta raungerast með fortölum, fagurmælum, þvingun, ógn og óttastjórnun. Yfirvöld gerðust sek um ráðabrugg með samfélagsmiðlum í þeim tilgangi að skerða tjáningarfrelsið. Reikningum var lokað, efni fjarlægt, réttmætar efasemdir gerðar óleyfilegar, rökstuddar viðvaranir kallaðar hættulegar, aðför gerð að orðspori fólks, starfsheiðri o.s.frv. Allt í þeim tilgangi að forðast opnar rökræður og koma í veg fyrir að forsendur opinberrar stefnumörkunar yrðu dregnar fram í sólarljósið og gagnrýndar þar fyrir opnum tjöldum.
Í stað háttvísrar, vísindalegrar og kröftugrar rökræðu var farið í manninn en ekki málefnið. Þeir sem voguðu sér að efast um stefnumörkun stjórnvalda máttu búast við að vera sakaðir um að aðhyllast samsæriskenningar, fasisma, öfgahyggju o.fl. Með vísan til þokukenndra hugtaka á borð við „upplýsingaóreiðu“ og „falsfréttir“ geta stjórnvöld í reynd tekið sér leyfi til að fordæma og banna hvers kyns alvarlega umræðu á opinberum vettvangi. Þegar slíkt fordæmi hefur verið sett var kannski bara tímaspursmál hvenær einkafyrirtæki á borð við PayPal létu af því verða að loka reikningum fólks vegna skoðana þess, eins og gerðist nú um miðjan september.
Sagan sýnir að engum einum manni, fyrirtæki, stétt eða hópi er treystandi til að fara með „skilgreiningarvald“ yfir sannleikanum. Öll viðleitni í þá átt hamlar hlutlægum fræðistörfum, hollri rökræðu, brýtur gegn tjáningarfrelsinu og grefur undan lýðræðinu. Lækningin er þá orðin verri en sjúkdómurinn.
Þegar alið er á ótta og aðsteðjandi hætta ýkt magnast ákall almennings (skipseigandans) um það að stjórnmálamennirnir (skipverjarnir) geri eitthvað strax, án þess að íhuga afleiðingarnar eða fórnarkostnaðinn. Þetta eru örugg merki þess að múgæsingamennirnir hafi náð sínu æðsta marki og þurfi ekki að gera annað en að samþykkja að fá völdin afhent, án takmarkana.
Meðan ekkert breytist og á meðan skrumurum leyfist að ýkja aðsteðjandi hættur og kalla eftir auknum valdheimildum, sérréttindum og fjármunum sér og sínum til handa siglum við hægt og rólega í átt að hinni kröftugustu hringiðu, þar sem öllu er snúið á hvolf og orð hafa gagnstæða merkingu: Frelsisskerðing er öryggi. Ritskoðun tryggir málfrelsi. Jafnrétti felst í mismunun. Ofbeldi má beita í þágu friðar. Fjölbreytni þýðir að allir hugsi eins. Umburðarlyndi kallar á útskúfun þeirra sem hugsa ekki eins og aðrir.
Fjölmiðlafrelsi er tryggt með því að gera fjölmiðla háða ríkinu. Menntun miðar að því að fjarlægja upplýsingar. Tjáningarfrelsi þýðir að þú eigir að endurtaka orð annarra, ekki tjá eigin hugsanir. Ánauð er frelsi. Fáfræði er styrkur. Lesendur geta bætt fleiru við, frá eigin brjósti.
Meginskylda stjórnvalda er að verja mannréttindi, ekki skerða þau
Ef til álita kemur að beita lagasetningarvaldi Alþingis og forseta til þess að lögfesta mannréttindaskerðandi og einkalífstakmarkandi valdheimildir fyrir stjórnvöld eins og látið hefur verið í veðri vaka að undanförnu ber að minnast þess að bæði löggjafinn og lögregla eru í afar viðvæmri og vandmeðfarinni stöðu. Á vettvangi þingsins verður að gæta þess að löggjöf af þessum toga teljist nauðsynleg í ljósi skýrt skilgreindra og lögmætra markmiða og sé innan marka stjórnarskrár og mannréttindareglna.
Lögreglu ber ávallt að gæta þess að allar athafnir hennar og framganga samræmist grundvallarreglum eins og lögmætisreglu og meðalhófsreglu og þeim margþættu og mikilvægum réttartakmörkunum sem þar af leiðir. Þess má einnig minnast að samkvæmt 1. gr. gildandi lögreglulaga ber lögreglu m.a. að gæta réttaröryggis borgaranna; í því felst ekki síst sú krafa löggjafans og frumskylda lögreglu að bera i hvívetna virðingu fyrir mannréttindum. Störf lögreglu lúta þannig fyrst og fremst að vernd mannréttinda – ekki skerðingu þeirra nema þá að uppfylltum skýrum og ótvíræðum lögbundnum skilyrðum.
Brýnt er að hafa þetta hugfast í ljósi fyrirhugaðrar framlagningar dómsmálaráðherra á frumvarpi til breytinga á lögreglulögum og hvort telja megi ákvæði þess nauðsynleg að gættum tilgreindum markmiðum og þá því aðeins að vandlega hafi verið upplýst um raunverulegt hættustig í samfélaginu er dugað geti sem haldbært og eðlilegt tilefni. Við meðferð málsins á vettvangi Alþingis mun reyna sérstaklega á Sjálfstæðisflokkinn og frelsisstefnu hans.
Lokaorð
Einhliða umfjöllun hefur kannski gert eiganda skipsins (almenning) svo þröngsýnan að hann sér ekki að verið er að sigla skútunni upp í skerjaklasa, þar sem menn missa alla stjórn á eigin för og skipið brotnar í spón (undan ágangi lögregluríkis og harðstjórnar). Líta má á greinar mínar sem aðvörunarorð til Íslendinga. Getur verið að þessi þjóð sé svo áhugalaus um framtíð sína, svo hirðulaus um eigur sínar, að hún horfi aðgerðalaus á brimskerin nálgast? Þá er rétt að undirstrika, að ef allt fer á versta veg getur slíkur eigandi sjálfum sér um kennt og verður að bera tjón sitt sjálfur vegna hirðuleysis og vanrækslu.