Hugvíkkandi eða hugrýmkandi

Í samtímanum hefur orðið hugvíkkandi (e. mind-expanding) fest sig í sessi sem lýsing á andlegum og vitsmunalegum upplifunum sem auka skilning og dýpka skynjun einstaklingsins á veruleikanum. Slíkar upplifanir geta átt sér stað í gegnum hugleiðslu, skapandi iðkun, listsköpun eða sjálfsprottna innsýn sem þróast með tímanum. Á hinn bóginn hefur hugrýmkandi (e. mind-extending eða mind-space expanding) aðra merkingu, þar sem frekar er vísað til utanaðkomandi áhrifa sem móta huga einstaklingsins með því að búa til rými fyrir nýjar hugmyndir. Þetta getur verið afleiðing markvissra og jafnvel stýrandi inngripa, sem annaðhvort geta stuðlað að þroska og nýrri sýn eða leitt til fjötra, sérstaklega þegar þau eru notuð til að hafa áhrif á skoðanamyndun – hvort sem það er í gegnum trúarbrögð, markaðssetningu eða efnanotkun.

Hugvíkkun er í eðli sínu náttúrulegt og sjálfsprottið ferli vitundarinnar. Augnablik djúprar innsýnar, þar sem hugurinn opnast og nýjar tengingar myndast, eru dæmi um slíka þróun. Þetta getur átt sér stað í skapandi iðkun, listum, hugleiðslu eða jafnvel í hversdagslegum augnablikum lífsins, þegar einstaklingur upplifir samhljóm við stærri heild. Líkt og tré sem vex af eigin rótum með næringu úr jarðveginum, þannig mótast vitundin í kjölfar lífsreynslu, sjálfskoðunar og opinnar umræðu. Þetta náttúrulega ferli er ekki aðeins lykilþáttur í persónulegum þroska heldur einnig undirstaða menningarlegrar fjölbreytni. Í raun byggist það á tjáningarfrelsi, frjálsu upplýsingaflæði og rétti hvers einstaklings til að móta sína eigin heimsmynd án utanaðkomandi þvingana.

Öðru máli gegnir þegar hugrýmkun er framkölluð með ytri inngripum sem beinast að því að stýra vitundinni í fyrirfram ákveðnar áttir fremur en að leyfa henni að þróast á eigin forsendum. Við slíkar aðstæður verður hugurinn mótaður af utanaðkomandi öflum, sem geta verið fjölbreytileg að uppruna og eðli. Dæmi um þetta eru lyf, þar á meðal ofskynjunarlyf, sem gjarnan eru kynnt sem leiðir til vitundarvíkkunar eða andlegrar reynslu. Tæknileg örvun, svo sem sýndarveruleiki og taugatengdar aðferðir, geta einnig haft bein áhrif á skynjun einstaklingsins. Þá ber ekki síður að huga að sálfræðilegum aðferðum, þar sem meðvitaðri stýringu er beitt í formi markaðssetningar, trúboðs eða hugmyndafræðilegrar innrætingar með það að markmiði að móta skoðanir og viðhorf. Ef við ímyndum okkur hugann sem rými má segja að hugvíkkun feli í sér eðlilegt ferli þar sem nýjar dyr opnast af sjálfu sér, á meðan hugrýmkun felur fremur í sér vélræna endurskipulagningu rýmisins, þar sem veggir eru færðir til, fjarlægðir eða byggðir upp eftir hentisemi annarra.

Í því samhengi skiptir sköpum að greina hvort slíkar breytingar séu í þágu einstaklingsins sjálfs eða hvort þær þjóni annars konar hagsmunum, svo sem efnahagslegum eða pólitískum markmiðum.

Þegar hugrýmkun fer fram í trúarlegu samhengi eða er kynnt í gegnum markaðslega miðlun, verður ljóst að framkvæmdin varðar grundvallarréttindi sem jafnréttislögfræði kveður á um, einkum réttinn til sannfæringar og réttinn til trúar.

Réttur til sannfæringar (freedom of conviction) er víðtækt hugtak sem nær til hvers kyns heimsmyndar, pólitískrar eða siðferðislegrar sannfæringar sem einstaklingur aðhyllist og felur í sér réttinn til að mynda, tjá og fylgja eigin lífsskoðunum án utanaðkomandi þvingana. Réttur til trúar (freedom of religion) er sértækari að því leyti að hann tekur til réttar einstaklinga til að iðka trú sína í samræmi við eigin sannfæringu, en trúfrelsi er þó ekki fortakslaust. Lögmæt inngrip geta verið réttlætanleg þegar trúariðkun fer í bága við önnur grundvallarréttindi, svo sem velferð barna eða almannaöryggi. Þegar ofskynjunarlyf eru nýtt í trúarlegum athöfnum eða markaðssett sem leið til andlegrar reynslu, verður aðgreiningin milli sannfæringarfrelsis og trúfrelsis óskýrari, sem aftur kallar á siðferðilega og lagalega umfjöllun um umfang trúfrelsis, ábyrgð þeirra sem standa að slíkri miðlun og hvort tryggja megi að þátttakendur veiti raunverulega upplýst og óþvingað samþykki.

Samruni trúar, ofskynjunarlyfja og markaðssetningar leiðir þannig til flókins siðferðilegs og lagalegs álitaefnis, einkum þegar áhrifin ná til barna, sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum. Börn hafa rétt til að mynda eigin skoðanir án þvingana, en þar sem þau eru sérlega móttækileg fyrir utanaðkomandi áhrifum getur trúarleg markaðssetning, einkum ef hún fer fram samhliða notkun hugbreytandi efna, takmarkað getu þeirra til sjálfstæðrar skoðanamyndunar.

Í því samhengi vakna áleitnar spurningar um hvort um sé að ræða raunverulega trúarlega reynslu eða hvort kerfisbundnum áhrifum sé beitt til að stýra vitund einstaklinga í tiltekna átt. Ef trúarleg upplifun verður neysluvara í formi trúarathafna, lyfja eða miðlunar á samfélagsmiðlum skapast aukin hætta á misnotkun og markvissri skoðanastýringu, sem getur leitt til beinnar eða óbeinnar takmörkunar á tjáningarfrelsi og sjálfræði einstaklinga. Árekstrar trúfrelsis, réttinda barna og markaðsfrelsis krefjast því nákvæmrar greiningar. Mikilvægt er að spyrja hvort einstaklingurinn hafi raunverulegt val um að taka þátt í slíkri reynslu eða hvort hann sé settur í aðstæður sem styðja ákveðna sannfæringu án meðvitaðs samþykkis. Þá verður að huga að því hvort börn séu nægilega vernduð gegn trúarlegri markaðssetningu sem nýtir sér ofskynjunarlyf eða önnur tól til hugrýmkunar og hvort fjölmiðlar beri ábyrgð þegar trúarlegri hugmyndafræði er miðlað í formi vöru.

Þegar hugrýmkun er framkvæmd með markaðslegum hætti í gegnum fjölmiðla, trúarlegar athafnir og áhrifavalda vaknar því sú grundvallarspurning hvort hér sé í raun um að ræða vitundarvíkkun eða einfaldlega útvíkkun rýmisins fyrir ákveðna hugmyndafræði. Ef trú er seld sem vara og hugurinn sjálfur verður vettvangur neyslu, hlýtur að vakna sú spurning hvort verið sé að stuðla að víkkun vitundar einstaklingsins eða einfaldlega að skapa nýjan markað fyrir áhrifavalda hugans.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *