Ég kynntist Jordan Peterson fyrir meira en sex árum þegar hann mótmælti opinberlega löggjöf sem var til þess gerð að neyða fólk til að nota og leggja á minnið tilbúin persónufornöfn annarra. Ég kynntist honum ekki persónulega þá, heldur fylgdist ég með efni sem hann setti á netið. Þessi mótmæli hans voru mikilvæg en samt ekki það merkilegasta við hann. Hann hafði um árabil flutt fyrirlestra í sálfræði sem voru aðgengilegir á YouTube og voru gullkista af pælingum, visku og fróðleik. Hann kenndi tvö námskeið við Toronto-háskóla, annað um persónuleikasálfræði og hitt um merkingu, tilgang, erkitýpur og goðsagnir. Hann tengdi þannig sögur sem fylgt hafa mannkyninu við það sem vitað er í nútímasálfræði og jafnvel uppbyggingu heilans. Mér þótti þetta hrífandi og gagnlegt efni eins og svo mörgum öðrum. Ég fékk því fljótlega þá hugmynd að kynna hann fyrir Íslendingum og bjóða honum til landsins að halda fyrirlestur. Ég ákvað samt að bíða aðeins með það og fylgjast betur með honum. Ég horfði á mörg myndbönd hans til að sannfæra mig um að hann væri ekki vitleysingur á neinu sviði, því margir klárir menn hafa blindbletti. Ég sannfærði mig líka um að hann myndi ekki falla í gildrur sem iðulega væru lagðar fyrir annars skynsamt fólk til þess að hægt væri að slaufa því og gera ómerkt í fjölmiðlum.
Takk, Cathy Newman
Svo hafði ég loks samband við hann á tíma sem tiltölulega fáir þekktu hann enn, þótt fylgjendahópur hans hafi verið byrjaður að vaxa. Hann var ekki of frægur til að hægt væri að ná sambandi við hann. Ég vildi bjóða honum til Íslands að sumri, þannig að ég bókaði hann með tæplega árs fyrirvara. Það reyndist vera góð ákvörðun af fleiri ástæðum því í millitíðinni varð hann stórfrægur. Þar skipti mestu máli viðtal á sjónvarpsstöðinni Channel 4 í Bretlandi þar sem Cathy nokkur Newman reyndi að leiða hann í hverja gildruna á fætur annarri með því að leggja honum orð í munn.
Ég leyfi mér að fullyrða að nánast allir aðrir hefðu fallið í eina af þessum gildrum, því það er freistandi í samtali að samþykkja a.m.k. eitthvað sem viðmælandinn segir í því skyni að byggja upp tengingu og skilning. Hann stóðst það allt, sem var nánast ofurmannlegt, sérstaklega í ljósi pressunnar sem fylgir því að vera í sjónvarpsviðtali fyrir framan milljónir manna. Channel 4 setti myndbandið á netið og í kjölfarið fékk það mikla dreifingu, en nú hefur það verið spilað 42 milljón sinnum.
Það er áhugavert að Cathy Newman og Channel 4 skuli hafa birt myndbandið á YouTube svona, þótt það líti mjög illa út fyrir fjölmiðlakonuna, að því er virðist vegna þess að hún og stöðin voru alveg blind á þá staðreynd. Nánast allir áhorfendur sáu þetta með öðrum augum. Þetta var gleðilegt allt saman, bæði vegna þess að það staðfestist sem ég taldi mig hafa séð áður að erfitt væri að slaufa Jordan Peterson og hitt, að með því varð hann mjög frægur og nú má líklega telja hann frægasta og mikilvægasta hugsuð heims. Takk, Cathy Newman.
Gleðileg heimsókn til Íslands
Þegar leið að komu Petersons til Íslands kveiktu margir hugmyndafræðilegir andstæðingar hans á perunni og byrjuðu að ráðast á hann. Ég hafði fengið til liðs við mig hóp einstaklinga til að standa að fyrirlestrinum og auk þess hafði byggst upp lítið samfélag af fólki á netinu sem vissi fyrir hvað hann stóð. Hópurinn mætti því öllum slíkum slaufunartilburðum af festu. Ef eitthvað er auglýstu þessir tilburðir fyrirlestrana frekar. Það seldist upp á tvo fyrirlestra í Hörpu og um hálft prósent þjóðarinnar mætti. Fyrirlestrarnir voru báðir frábærir og hefur nú tæplega milljón manns horft á þann fyrri í tveimur myndböndum á YouTube. Þeir tengdust báðir bók hans, 12 lífsreglur, sem kom út á vegum Almenna bókafélagsins á íslensku þegar hann kom til landsins. Ég er afar þakklátur öllum þeim góða hópi sem lagði hönd á plóg og þessi ferð var Jordan og fjölskyldu hans sérstaklega minnisstæð, þannig að hann þakkaði okkur sérstaklega fyrir í næstu bók sinni.
Fyrir mig var einna skemmtilegast að kynnast honum og fjölskyldufólki hans persónulega. Við ferðuðumst um landið og hittum nokkra merkilega Íslendinga, þar sem hann fræddist um menningu okkar, fornrit og naut náttúrunnar. Hann benti mér á það sem ég hafði aldrei áttað mig almennilega á, að Ísland væri sérstakt því þar heyrðist ekkert í skordýrum á sumrin. Íslensk kyrrð er einstök. Hann gisti með fjölskyldufólki í húsi foreldra minna í Landsveit og á leiðinni þangað tók Snorri Björnsson glæsilega ljósmynd, sem er sennilega besta myndin sem tekin hefur verið af honum og hefur síðan mikið verið notuð í kynningarefni. Öðru megin vegar á myndinni er hraun, tákn óreiðunnar, sem Jordan er tíðrætt um og hinu megin hagar, tákn reglunnar. Sjálfur stendur hann á veginum á milli, því það er einmitt vegurinn sem maður á að fara.
Jordan Peterson á milli óreiðu og reglu á Landveginum. Ljósmynd eftir Snorra Björnsson.
Jordan Peterson er mjög hreinn og beinn. Hann er eins í viðtölum og hann er í eigin persónu. Það held ég að skýri vinsældir hans að hluta. Fólk finnur að hann er einlægur og sannur. Sá stíll passar mjög vel inn í myndbanda- og hlaðvarpsmenningu nútímans, þar sem efni er oft ekki klippt til og matreitt, heldur fá áhorfendur að heyra og sjá viðmælendur eins og þeir eru.
Þannig talar hann til fólks, sannur og einlægur. Í fyrirlestrum sínum og bókum hefur hann gefið góð ráð og standa nú tugir þúsunda, ef ekki hundruð þúsunda eða milljónir manna, í þakkarskuld við hann. Hann er með sex milljónir fylgjenda á Youtube, þjóðarstærð. Hann fyllir risastórar ráðstefnuhallir þegar hann heldur fyrirlestra. Hvar sem hann sést á götum úti kemur fólk til hans og þakkar honum fyrir að hafa bætt líf þess og í sumum tilvikum gjörbylt til hins betra.
Sannur andstæðingur alræðishyggjunnar
Jordan Peterson skoðar mannkynssöguna frá sálarlegum sjónarhóli. Hann fellur ekki í þá gildru að skoða söguna eingöngu frá sjónarhóli hinna góðu, hetjanna og fórnarlambanna. Hann setur sig í spor illvirkjanna. Hann vill skilja, og skilur, hvernig menn geta framið voðaverk. Hvernig finnur maður sinn innri nasista? Og hvernig sigrar maður hann? Lang flestir hefðu tekið þátt í voðaverkum sinna tíma – eða að minnsta kosti setið hjá og leyft þeim að gerast. Maður þarf að gera sér grein fyrir því sem Carl Gustav Jung kallaði skuggann, þá ómeðvituðu hlið sálarlífsins sem vill ekki allt hið besta og er jafnvel í andstöðu við hið meðvitaða sjálf. Peterson telur, eins og Jung, að skilningur á þessu sé mikilvægur. Það er meiri hætta á að maður falli í gildrur skuggans ef maður gerir sér ekki grein fyrir þeim. Jordan Peterson sér fólk falla í þessar gildrur um þessar mundir, og er ekki einn um það.
Hann talar um að fólk geti verið hugmyndafræðilega andsetið. Hugmyndir hafi fólk, fremur en að fólk hafi hugmyndir. Fólk lærir einhverja einfalda hugmyndafræði sem það beitir á heiminn, án undantekninga, án tillits til raunveruleikans, án þess að vera opið, án skilnings. Með hugmyndafræðinni hefur það sig upp á stall. Það telur sjálft sig góða fólkið, annað hvort fórnarlambið eða hetjuna sem ætlar að bjarga fórnarlömbunum. Þeir sem eru ekki sammála eru oftar en ekki illmennin sem þarf að losna við – útskúfa, sekta og jafnvel fangelsa.
Auðvitað eru ekki allir sem taka þátt í slíkri hugmyndafræðilega andsetinni hreyfingu jafn langt gengnir. Margir sitja hjá og taka kannski dálítið þátt í þekkingarleysi sínu. Sumir nýta sér hreyfinguna til að ota sínum tota. Siðlausar þykjustuhetjur.
Ein rót slíkra hreyfinga er það sem Jordan Peterson kallar anda Kains. Í sögunni af Kain og Abel var Kain bitur út í heiminn og Guð. Það leiddi hann til morðsins á Abel. Peterson segist vera í baráttu við anda Kains. Sjá brot úr þessu viðtali við Lex Fridman. Peterson reynir að berjast með auðmýkt fyrir sannleikanum, reynir að gagnrýna sjálfan sig þegar það á við, ólíkt Kain. Og auðmýktin gerir hann illslaufanlegan. Svo sýnir hann festu þegar það á við. Hann nýtur ekki baráttunnar. Það sést vel á honum. Hann telur hana bara nauðsynlega, því hann telur uppgjöf verri en þjáningu baráttunnar.
Í ham í Hörpu. Heyra mátti saumnál detta. Ljósmynd Haraldar Guðjónssonar.
Verstu glæpir í manna minnum hafa allir það einkenni að sá hópur sem þá fremur er búinn að mála fórnarlömb sín sem illa gerendur. Það átti við um Hútúa gagnvart Tútsum, nasista gagnvart Gyðingum, kommúnista gagnvart öllum sem stóðu gegn hugmyndafræði þeirra. Fyrst þarf maður að sýna að maður sé fórnarlamb – svo getur maður drepið.
Þessi andi alræðishyggjunnar felur í sér mikla andúð á þeim sem eru ósammála. Hann sakar þá sem eru ósammála um hatursorðræðu. En hatursorðræða er sjaldnast almennt viðurkennd sem slík þegar máli skiptir. Rasísk ummæli voru ekki kölluð hatursorðræða fyrr en rasistar voru búnir að drepa milljónir. Þegar ráðandi öfl og meirihlutinn beitir hatursorðum virðist ómögulegt að vekja á því athygli eða stöðva það. Nú er fólk kallað afneitarar, samsæriskenningasmiðir, álhattar, hvítir karlmenn, rasistar og antivaxerar ef það er ósammála hinum hugmyndafræðilega andsetnu. Það telst ekki hatursorðræða, jafnvel þótt búið sé að sýna fram á með skoðanakönnunum að fólk sem hefur þegið bóluefni gegn Covid hafi oft andúð (sennilega viðbjóð) á óbólusettum og það hafi komið fram í hörðum aðgerðum hins opinbera gegn óbólusettum. Kannski telst orðið antivaxer hatursorð einhvern tíma í framtíðinni, þegar það skiptir ekki máli lengur. Orðið hatursorðræða er notað sem vopn hins sterka gegn hinum veika, því hinn sterki fær að skilgreina það. Þannig kemur í ljós lygin á bak við orðnotkunina: baráttan gegn svokallaðri hatursorðræðu verndar yfirleitt ekki hinn veika, heldur skapar hinum sterka grundvöll til að nota ný hatursorð gegn veikum og þeim sem á að veikja. Baráttan gegn hatri og öfgahyggju verður að byggjast á frjálsri tjáningu. Ef menn ætla að beita þöggun er líklegt að þeir séu sjálfir orðnir öfgamennirnir.
Andi alræðishyggjunnar felur í sér mikla vissu og fullkominn skort á auðmýkt. Á grundvelli þessarar vissu telja hinir andsetnu sig mega gera tvennt: taka af fólki frelsi til að lifa lífi sínu eins og það kýs og taka svo af því málfrelsi. Þeir ganga svo langt að það verður erfitt fyrir þá að viðurkenna að þeir hafi haft rangt fyrir sér. Þeir reyna að breiða yfir mótsagnir sínar og villur með sterkum upphrópunum um þá sem benda á að keisarinn sé ekki í neinum fötum.
Jordan Peterson benti á það fyrir nokkrum árum að við gætum verið að sjá hvernig alræðishyggja sem byggist á erkitýpu hinnar ofverndandi móður gæti birst. Nú er komið nafn á þessa stefnu, wokeism á ensku. Kannski má segja vókismi á íslensku. Vókisminn er mjög upptekinn af merkimiðapólitík (eins og allt snúist um kyn, kynhneigð og kynþátt). Það er mikil fylgni milli vókisma og öfga í viðbrögðum við Covid-faraldrinum, enda má líta á vókisma sem öfgahyggju þess sem setur sig á stall sem verndara.
Land hinna indælu féll í öfgahyggju
Jordan Peterson er frá Kanada, sem er yndislegt land og um margt líkt Íslandi. Kanadamenn eru þekktir fyrir að vera indælir. Ég hef ferðast nokkuð um landið og átt viðskipti við Kanadamenn, sem eru sannarlega kurteisir og geðþekkir. Kanadísk menning er mun líkari okkar menningu en bandarísk menning er. Í Bandaríkjunum er meiri asi, yfirborðsmennska og jafnvel harka. Í Kanada hefur mér fundist vera meiri yfirvegun, einlægni og kærleikur í kapítalismanum. Ég vil ekki alhæfa, en þetta hefur mér fundist.
En land hinna indælu virðist vera ágætur jarðvegur fyrir öfgahyggju ofverndunarinnar. Kannski eru hinir indælu einmitt margir hverjir með ómeðvitaðan jungískan skugga. Eftir að Justin Trudeau tók við sem forsætisráðherra Kanada hefur andi vókismans verið við völd í landinu. Sumir sjá Trudeau sem bjargvætt en aðrir sem yfirborðskenndan lýðskrumara. Kannski er kjör hans bara einkenni vókismans sem var byrjaður að taka völdin áður.
Jordan Peterson varð þekktur þegar hann mótmælti lögum sem túlka mátti, trúlega með réttu, þannig að verið væri að neyða fólk til að nota tilbúin þriðjupersónufornöfn eins og ze, xe, tey, ve o.fl. um fólk sem þess krefðist. Sambærilegt íslenskt orð væri hán. Því er hafnað að velja sér eitt þriðjupersónufornafnanna í tungumálinu: hann, hún eða það, þótt þau geti í eðli sínu náð yfir allt ef maður er ekki að leita leiða til að leika fórnarlamb og stjórna öðru fólki. Kjánaskapurinn á bak við þetta er auðvitað augljós flestum Íslendingum, enda er sterk vitund um það hér að kyn orða er ekki endilega í samræmi við kyn fólks (lögga er kvenkynsorð og hjúkrunarfræðingur karlkyns, burtséð frá kyni persónu). Hér eru líka fleiri orð en persónufornöfn í kynjum, t.d. lýsingarorð. Ef finna á upp ný kyn á persónufornöfnum, má með sama hætti finna upp ný kyn á lýsingarorð – og fallbeygja svo í fjórum föllum. Ef neyða ætti fólk til að nota slík orð þá væri verið að neyða fólk til að læra þúsundir orðmynda. Þetta er einfaldara í ensku, en hugmynd vókista er sú að fólk geti einfaldlega búið til sín eigin persónufornöfn til að lýsa kynvitund sinni. Það ætti að vera augljóst að það er ótækt að neyða fólk til að nýta slík ný orð. Tungumálið verður að þróast á frjálsan hátt.
Í þessum lögum birtist stjórnlyndi. Það er ekki nóg að tiltekinn hópur fái frelsi til að skilgreina sig af einhverju nýju kyni og fá að vera í friði heldur þarf að neyða aðra til að samþykkja það kyn og aðlaga orðnotkun sína. Stjórnlyndið kemur upp um hina sönnu hneigð á bak við það sem á yfirborðinu er látið líta út eins og kærleiksrík aðgerð.
Enda varð Jordan Peterson þekktur við þetta. Honum var mótmælt af miklum ákafa. Hann var sakaður um að vera hið versta ómenni. Fólk sem kynnti sér málin hins vegar sá hins vegar sannleikann, að hann var hinn hófsami talsmaður frelsisins. Fólk kynnti sér fyrirlestra hans í leiðinni og frægðarsól hans reis.
Síðan þetta gerðist hefur hann orðið fyrir mörgum slaufunartilraunum. Ég notaði rangfærslur úr mörgum þeirra til að kynna hann þegar hann flutti fyrirlestra á Íslandi. Hann hefur staðist þessar árásir og vopn vókistanna hafa snúist í höndunum á þeim. Fleira og fleira fólk sér ekki aðeins í gegnum þá, heldur hefur hugrekki til að segja skoðun sína.
Jordan Peterson kom glaðbeittur á svið eftir að greinarhöfundur hafði kynnt hann á svið með rangfærslum fjölmiðla. Ljósmynd eftir Harald Guðjónsson.
Árás gegn starfsleyfi sem klínískur sálfræðingur
Ráðist hefur verið á Jordan Peterson á vettvangi Háskólans í Toronto, þar sem hann var prófessor, en nú nýlega hefur samband sálfræðinga í Ontario í Kanada (e. College of Psychologists of Ontario), sem er stjórnvald fyrir sálfræðinga, kveðið upp þann úrskurð að hann eigi að undirgangast endurmenntun í notkun samfélagsmiðla en ella missa starfsleyfi sitt sem klínískur sálfræðingur. Peterson talar um mikilvægi þess að standa á sínu – alræðishyggjan nærist meðal annars á undanlátssemi og meðvirkni. Hann mun ekki undirgangast endurmenntun. Hann starfar ekki lengur sem klínískur sálfræðingur, því frægð hans gerði honum erfitt að sýna skjólstæðingum þá athygli sem er mikilvægt að sálfræðingur sýni. En hann ætlar ekki að láta öfgamenn svipta sig leyfinu. Jordan Peterson hefur kennt fólki að standa á sínu, hetjulega, og láta aldrei undan lyginni. Enn og aftur þarf hann að sýna þá festu sjálfur.
Þessar aðgerðir gegn Peterson eru framkvæmdar á grundvelli ummæla hans á opinberum vettvangi, frá spjallþætti Joe Rogans til Twitter. Um er að ræða þrettán klögumál, þar sem eitt þeirra byggist á þriggja klukkustunda viðtali hjá Joe Rogan í heild sinni, án þess að tilgreint sé nánar í hverju brot Petersons felist. Nokkur atriðin varða tíst á Twitter um aðgerðir stjórnvalda vegna Covid, þar á meðal endurtíst (e. retweet) á tísti foringja stjórnarandstöðunnar gegn grímuskyldu! Einnig tíst þar sem hann lýsti vanþóknun sinni á þeirri hugmynd að taka börn af fólki sem mótmælti bólusetningarskyldu! Þetta eru glæpir að mati vókistanna sem hafa víða náð völdum. Kynna má sér málið í þessu myndbandi, þar sem dóttir hans, Mikhaila Peterson, ræðir við hann.
Ef einhver vafi var á að Kanada hefði orðið öfgahyggju að bráð ætti þetta mál að eyða honum. Fyrst er farið í alræðisaðgerðir gegn borgurum landsins, svo ráðist gegn borgurum sem mótmæla, bankareikningar frystir og því hótað að taka börnin af þeim og svo má sálfræðingurinn Jordan Peterson, sem er sérfræðingur í svona öfgahyggju, ekki tjá sig um það sem er að gerast. Alla andstöðu þarf að kæfa.
Tjáningarfrelsið er hið endanlega próf á öfgahyggju. Öfgahyggjan byrjar í sálarlífi öfgamannanna. Hún birtist svo í ýmiss konar frelsisskerðingu sem þeir aðhyllast og mótsögnum sem afhjúpa ósannindi þeirra. En andstaða þeirra við tjáningarfrelsi tekur af allan vafa.
Sjáum nú hvort Kanada fellur dýpra í fen öfganna eða hvort barátta Jordans Petersons reynist vera steinninn sem hæfir Golíat í augað.
Góð grein, verður spennandi að sjá hvernig þetta mál fer alltsaman.
Takk fyrir þessa grein Gunnlaugur.
Takk fyrir greinina. Mjög mörg umræða.
Pingback: Jordan Peterson Against the Spirit of Totalitarianism - United Push Back
Pingback: | peckford42
Pingback: The Scotfree | Jordan Peterson against the spirit of totalitarianism
Mjög góð grein! Peterson er magnaður gaur.