Í merkilegri vísindagrein eftir Dan Kahan sem kom út fyrir rúmum áratug er fjallað um vandamál þar sem gáfaða fólkinu gengur verr en öðrum. Fréttir um greinina lýsa henni sem sorglegustu uppgötvun sem gerð hefur verið um heilann – en í greininni er fjallað um hvernig stjórnmál skemma getu fólks til þess að reikna.
Í rannsókninni var fjallað um tilraun sem var gerð á húðkremi til þess að lækna útbrot á húð. Af hópnum sem notaði krem löguðust útbrotin hjá 223 en urðu verri hjá 75, á meðan útbrotin löguðust hjá 107 í hópnum sem notaði ekki kremið. Í þeim hópi versnuðu útbrotin hjá 21. Niðurstöðurnar sýndu að fólk sem gekk almennt séð vel í stærðfræði giskaði rétt; að kremið væri verra en að nota ekki krem. Munurinn er að útbrotin minnkuðu hjá fimmfalt fleirum af þeim sem notuðu ekki krem en bara þrefalt fleirum af þeim sem notuðu krem.
Í kjölfarið var svo gerð önnur tilraun nema í þeirri tilraun var spurningin pólitísk. Þar var ekki spurt hvort húðkremið virkaði betur á útbrot eða ekki heldur hvort strangari vopnalöggjöf virkaði til þess að draga úr glæpum eða ekki. Allt í einu breyttust niðurstöðurnar. Svörin urðu pólitísk – óháð gögnunum. Ef gögnin voru andstæð pólitískri afstöðu flokkanna um vopnalöggjöf voru tölurnar notaðar til þess að réttlæta pólitíska afstöðu þeirra – óháð því hvað tölurnar voru að segja í raun og veru.
Í stuttu máli sagt: Fólkið sem sá að kremið virkaði ekki á útbrotin sá ekki að strangari vopnalöggjöf virkaði ekki á glæpatíðni, ef það hélt að strangari vopnalöggjöf ætti að virka á glæpatíðni. Pólitísk hlutdrægni skyggði þeim sýn á gögnin.
Á sama tíma er fólk spurt hvort það myndi skipta um skoðun ef gögnin sýndu að það hefði rangt fyrir sér. Öll svöruðu þau þeirri spurningu játandi. Auðvitað. Rannsóknin sýnir hins vegar að fólk er bara ekkert tilbúið til þess að taka tillit til gagna. Afneitun er auðveldari en að horfast í augu við að hafa rangt fyrir sér.
Þetta er ástæðan fyrir því að gerð er sú krafa í grunnstefnu Pírata að flokkurinn „móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki“. En á sama tíma er fólk í Pírötum ekkert ónæmt fyrir þessum áhrifum. Fólk gerir sitt besta til þess að fylgja gögnunum – sem eru heldur ekki alltaf skýr. En það verður allavega að reyna, ekki satt?
Þetta hefur verið leiðarljós í mínum störfum á undanförnum átta árum. Að krefja stjórnvöld um gögn til þess að útskýra stefnu sína. Það var ekki vinsælt meðal stjórnarþingmanna sem kvörtuðu sáran yfir allri vinnunni og kostnaðinum við að svara spurningunum – vinnu sem átti auðvitað að vera búið að vinna til þess að rökstyðja stefnu stjórnvalda.
Þess vegna gengur okkur illa. Vantar gögn.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 6. desember 2024. Endurbirt með góðfúslegu leyfi höfundar.