Ég var spurð í sumar hvort ástæðan fyrir því að gagnrýnisraddir fá stundum ekki undirtektir eða meðbyr almennings hljóti ekki að vera sú að málflutningurinn sé bara ekki nógu öflugur og nái því ekki til fólks. Þessu var ég ósammála. Helstu sérfræðingar heimsins geta verið sammála um ýmis álitamál en ná samt ekki alltaf að verða hluti af hinni ríkjandi orðræðu, þrátt fyrir sannfærandi rök. Vandamálið virðist því ekki vera hjá þeim sjálfum, heldur hjá viðtakendum og miðlunum sem færa viðtakendum upplýsingarnar. Hefðu upplýsingarnar fengið greiðan aðgang að meginstraumsfréttaveitum hefðu málin litið öðruvísi við.
Stundum eru þessu öfugt farið. Menn fá tækifæri til að ná til heillar þjóðar í beinni útsendingu en uppskera ekki undirtektir eða áhuga áhorfenda. Í þeim tilvikum átta ræðumenn sig e.t.v. ekki á mikilvægi þess að höfða til viðtakenda með því að tengja málflutninginn við það sem brennur á þeim sjálfum. Svona eins og góður kennari sem mætir nemanda þar sem hann er staddur í kunnáttu sinni.
Hvað er þá áhrifarík upplýsingagjöf? Þetta eru frambjóðendur stjórnmálaflokka landsins eflaust að hugleiða um þessar mundir. Hvernig fanga þeir hug og hjörtu dómharðrar þjóðar sem er orðin brennd af spillingu og brostnum loforðum fyrrum ríkisstjórnar? Það er ærið verk fyrir höndum. Líklega þarf að beita stórtækum brögðum til að kveikja áhuga þeirra sem fylgjast jafnvel ekki með kappræðunum og smella frekar á frétt af fáklæddum áhrifavaldi sem gleymdi að fara í nærbuxur. Ættum við kannski að hafa áhyggjur af þessum netverja í kosningaklefanum, ef hann nær að koma sér þangað á annað borð?
Við búum í lýðræðissamfélagi sem þýðir að máttur almennings er mikill þegar kemur að því að móta stjórnarfar í landinu. Borgarstjórakjör Jóns Gnarrs mun sýna það og sanna um ókomna tíð. Það er þó lykilatriði að almenningur taki virkan þátt og kynni sér framboðin gaumgæfilega ef kjörseðillinn á að endurspegla upplýsta ákvörðun viðkomandi. Margir hafa tilhneigingu til að kjósa af gömlum vana en ekki innri sannfæringu.
Nú er einhverskonar upplausnarástand í íslenskri pólitík sem kallar á stórfellda endurnýjun. Stærstu flokkarnir í fyrrum ríkisstjórn mælast með sögulega lágt fylgi. Ný framboð hafa skorist í leikinn og keppast við að vekja athygli á sér. En er einhver að hlusta? Er unga fólkið að hlusta? Í sjónvarpskappræðunum koma helstu baráttumálin í ljós. Allir keppast við að auka fylgi sitt, eins og keppandi á sviði í Idol. Það eru áhorfendur sem eru hin óvæga dómnefnd. Mun hún verða sanngjörn?
Menn keppast við að vera orðheppnir undir tímapressu og þeir sem eru háværastir ná stundum að tala aðeins lengur og þykja sigurvissir, amk. í eigin huga. Það er þó alls óvíst hvort þeir uppskeri hylli áhorfenda fyrir vikið. Hæst bylur í tómri tunnu er stundum sagt. Skoðanakannanir sýna að hógværir ræðumenn, sem forðast framígrip, nutu ekki síður velgengni í kjölfarið á kappræðunum.
En hver er þá uppskriftin að því að ná fram velgengni og ná til almennings?
Svarið er einfalt. Þú getur verið með bestu uppskrift í heimi, besta hráefni í heimi og matreitt úr þeim girnilegasta og gómsætasta matrétt í heimi. En allt er þetta til einskis ef enginn mætir svo í matarboðið og bragðar réttinn.
Við getum verið með frambærilegasta fólkið í framboði. En það mun ekki ná langt ef málflutningur þess nær ekki eyrum þeirra sem eru raunverulega með völdin. Fólksins með kjörseðlana.