Bókabrennur, hatursglæpir og tjáningarfrelsi

Nýverið urðu óeirðir í Svíþjóð í kjölfar þess að danskur stjórnmálamaður, Rasmus Paludan, brenndi Kóraninn fyrir utan sendiráð Tyrkja í Stokkhólmi síðastliðinn laugardag. Málið varð til þess að Tyrkir afboðuðu heimsókn sænska varnarmálaráðherrans til Ankara, en eins og kunnugt er leita Svíar nú eftir inngöngu í NATÓ og þurfa stuðning allra aðildarríkja, þar á meðal Tyrklands, til að umsókn þeirra verði samþykkt.

Kóraninn brenndur undir lögregluvernd

Paludan var umkringdur lögreglumönnum meðan hann brenndi Kóraninn og hélt ræðu gegn innflytjendastefnu Svía í kjölfarið. Fleiri ríki Múslima hafa fordæmt atburðinn.

Á sama tíma héldu Kúrdar mótmælafund annars staðar í borginni og andmæltu umsókn Svíþjóðar um aðild að NATÓ. Verkamannaflokkur Kúrda, sem berst fyrir sjálfstjórn þeirra er skilgreindur sem hryðjuverkasamtök í Tyrklandi og í ríkjum ESB og Bandaríkjunum og er jafnvel bannað að sýna merki flokksins og myndir af leiðtogum hans, eins og Ögmundur Jónasson benti á í fyrirlestri sínum á vegum Málfrelsis þann 7. janúar. Þetta er þó ekki bannað í Svíþjóð.

Viðbrögð sænskra stjórnvalda við gagnrýni Tyrkja voru þau að ítreka að Svíar virtu tjáningarfrelsið og virðast þar vísa bæði til athafna Paludans og mótmæla Kúrda.

Líkt og Ögmundur benti á í fyrirlestrinum, og fjallar einnig um í nýlegri grein, á staða Kúrda nú sér rætur í ákvörðunum sem teknar voru er ríki Ottómana liðaðist í sundur, en ólíkt mörgum öðrum þjóðum fór aldrei svo að þeir eignuðust eigið ríki. Í stað samningaviðræðna hafa þau lönd sem Kúrdar byggja leitast við að þagga niður alla umræðu um stöðu þeirra og orðið vel ágengt, líkt og bönn og ritskoðun á Vesturlöndum sýna.

Bókin – tákn tjáningarfrelsisins

En hvað um framgöngu Danans Rasmus Paludan? Í gegnum tíðina hafa bókabrennur verið klassískt tákn um ritskoðun og þöggun. Valdhafar hafa stundað þessa iðju til að treysta völd sín og þar er eitt elsta dæmið fyrsti keisari Qin veldisins í Kína, sem brenndi fjölda bóka árið 210 f.Kr. Sögur fara jafnvel af því að hann hafi í leiðinni grafið fræðimenn lifandi, en það er þó óstaðfest. Bókabrennur hafa oft verið þáttur í að kæfa niður lífsviðhorf eða trúarbrögð sem hafa farið í bága við viðhorf ríkjandi afla. Þannig brenndu spænskir landvinningamenn rit Azteka og Maya á 16. öld og réttlættu með því að þau væru ókristileg, og nasistar brenndu ritverk sem þeir töldu grafa undan stefnu sinni. Eftir ósigur Japana í seinni heimstyrjöldinni bönnuðu hernámsyfirvöld alla gagnrýni á Bandamenn og brenndu fjölda bóka. Bókabrennur voru tíðar í í menningarbyltingu Maós í Kína. Raunar er ekki nema tæpt ár liðið síðan sértrúarprestur í Tennesee í Bandaríkjunum stóð fyrir bókabrennu þar sem meðal annars skáldsögur J.K. Rowling um Harry Potter voru brenndar. Skáldsaga Ray Bradbury, Fahrenheit 451, lýsir alræðissamfélagi þar sem tilvist bókarinnar sem slíkrar er álitin svo mikil ógn við valdhafa að allar bækur eru brenndar undantekningarlaust. Það sem ávallt er sameiginlegt með bókabrennum er að þær miða að ritskoðun og þöggun og undirrót þeirra er ofbeldi og umburðarleysi. Bókin hefur nefnilega í gegnum tíðina verið eitt mikilvægasta tákn tjáningarfrelsisins.

Bókabrennur og ritskoðun eiga sér sömu rót

Réttlæting Paludans fyrir því að brenna Kóraninn er andstaða hans við múslimska innflytjendur og hann vísaði til tjáningarfrelsisins þegar hann varði bókarbrennuna. Verknaður Paludans er hins vegar í raun af nákvæmlega sömu rótum runninn og verknaður nasista og verknaður spænsku landvinningamannanna. Því þótt táknræn bókabrenna Paludans verði ekki til þess að Kóraninn hverfi úr samfélaginu er hvatinn að baki nákvæmlega sá sami; umburðarleysi gagnvart öðrum lífsviðhorfum og skýr vilji til að útrýma þeim. Það er nefnilega grundvallarmunur á því að andæfa trúarbrögðum eða lífsviðhorfum sem maður er andsnúinn, og að brenna bækur. Þessu veldur sú menningarlega og sögulega skírskotun sem í bókabrennunni felst; bókabrennan er ávallt yfirlýsing um afneitun á tjáningarfrelsinu. Og það sama á við um bannið við því að sýna myndir af Öczalan, leiðtoga Kúrda, að fjalla um ofsóknir gegn þeim eða vitna í leiðtoga þeirra.

Var það rétt af sænskum yfirvöldum að láta lögreglu standa vörð um Paludan þegar hann brenndi Kóraninn? Var það rangt af þeim að leyfa honum yfirleitt að brenna Kóraninn fyrir utan sendiráð Tyrkja? Hvar liggja mörk tjáningarfrelsisins? Áhugavert væri að fá fram viðhorf lesenda til þessara spurninga og annarra sem kunna að vakna við lesturinn, í þágu upplýstrar umræðu.

Heimildir: Al Jazeera, Guardian, Wikipedia, Britannica.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *