Toby Young á fundi Málfrelsis

Toby Young vísaði í fræga rökfærslu franska stærðfræðingsins Blaise Pascal fyrir trú á guð í erindi sínu á fundi Málfrelsis – samtaka um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi, sem haldinn var þann 7. janúar síðastliðinn. Rökfærslan, sem gengur undir nafninu “Veðmál Pascals” var sú, að ef guð væri til, og kenningar kirkjunnar um lífið eftir dauðann réttar; að hinir trúuðu færu til himna en þeir vantrúuðu í verri staðinn, þá borgaði sig að trúa fremur en að trúa ekki. Það væri með öðrum orðum heppilegast að veðja á tilvist guðs, því kostnaðurinn af að gera það ekki væri svo gríðarlega hár, ef tilvist hans væri raunveruleiki. Young setti þessa hugsun í samhengi við hluti í nútímanum, á borð við vilja fólks til að fórna jafnvel grundvallarpersónufrelsi, menntun og lífshamingju barna sinna og velferð hinna fátæku, til að forðast veiru, ótta við loftslagsbreytingar sem hann segir byggja á líkönum sem gjarna sé lítið að marka, og síðast en ekki síst sívaxandi stuðning við að þagga niður óvinsælar skoðanir. “Vogun Pascals er að gera okkur öll að þrælum” var yfirskrift erindis hans.

Vandinn við rökfærslu Pascals er í rauninn sá að ekkert liggur fyrir um líkurnar á tilvist guðs og réttmæti kenninga biblíunnar. Og með svipuðum hætti er vandinn við ofsafengin viðbrögð við farsótt, ýktar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og taugaveiklun gagnvart “rangupplýsingum” sá að tengslin milli líkinda og alvarleika glatast. Mjög afdrifaríkur atburður, sem nánast engar líkur eru á að eiga sér stað, og er jafnvel bara hreinn hugarburður, virðist stundum réttlæta, í huga fólks, gríðarlega skaðlegar aðgerðir til að reyna að stemma stigu við atburðinum.

Hér að neðan má horfa á upptöku af erindi Toby Young. Það er einnig aðgengilegt í textaformi á vef Brownstone Institute.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *