Twitter skjölin: Aðeins blábyrjunin

Bari Weiss, sem yfirgaf New York Times í mótmælaskyni við menningu þess blaðs, hafði fengið aðgang að öðrum hluta innherjaupplýsinga um rekstur Twitter áður en Elon Musk tók við. Hún fann gríðarlegan fjölda sannana fyrir því sem okkur hefur mörg grunað árum saman; Twitter þaggaði niður í fólki sem mótmælti lokunum og bólusetningaskyldu í þeirri hrinu þvingunaraðgerða sem gengið hefur yfir heiminn síðan í mars 2020.

Fyrsta nafnið sem kemur upp er Jay Bhattacharya prófessor við Stanford, sem hóf ekki notkun Twitter fyrr en sumarið 2021. Allan þennan tíma fullyrtu talsmenn Twitter að þeir beittu ekki skuggabanni, en það var okkur öllum augljóst að svo var.

Nú kemur í ljós að fyrirtækið var með flókið kerfi til að draga úr sýnileika, dylja færslur, loka á tiltekin umræðuefni eða leit, og aðrar brellur til að hindra sýnileika einstaklinga. Sumt af þessu má sjá á stjórnborði miðilsins. Bhattacharya fékk raunar væga meðferð í samanburði við aðra. Meira en 10.000 manns voru bannaðir.

Weiss nefnir fleiri dæmi, þau skipta örugglega þúsundum og sjálfur er ég handviss um að ég er þar á meðal. Eftir að Musk tók yfir hef ég orðið var við margföldun í útbreiðslu og fjölda fylgjenda.

Sama gildir um alla tæknirisana

Málaferli á vegum ríkissaksóknaranna í Missouri og Louisiana sem ásaka Biden-stjórnina (og í raun alla stjórnsýsluna sem snýr að samskiptum og upplýsingum) um að brjóta gegn fyrsta viðauka stjórnarskrárinnar með samráði við tæknirisa. Þegar eru komnar fram hundruðir blaðsíðna af skjölum sem staðfesta þetta, og uppljóstranir Musk styrkja málið enn frekar. Það er nú svo ótrúlega augljóst að þetta er nákvæmlega það sem var í gangi.

Nú vitum við að Elon Musk gæti rekið 3 af 4 starfsmönnum Twitter og miðillinn myndi virka betur en nokkru sinni fyrr. Þetta fólk var nefnilega ekki að vinna fyrir miðilinn. Það var að vinna gegn honum. Og í hvaða tilgangi? Að halda skólunum lokuðum. Til að neyða fólk í bólusetningu. Að viðhalda ferðatakmörkunum. Að þvinga fram grímunotkun og magna upp veiruótta. Allt þetta gerðist í raun og veru.

Og það sem á við Twitter á svo sannarlega við um Google (og því einnig YouTube), Facebook (og því einnig Instagram), Microsoft (og því einnig LinkedIn), og jafnvel Amazon (fjöldi mikilvægra bóka fékkst ekki útgefinn og komst ekki í dreifingu). Til að sjá þetta ekki í dag þarf maður að vera algerlega blindur á þann veruleika sem við höfum fengist við í næstum því þrjú ár; í nafni veiruvarna var land okkar, lög þess og hefðir, frelsi og réttindi hirt af okkur af klíkustjórn með aðrar hugmyndir.

Andstaða við eyðileggingu samfélagsins snýst ekki um hægri eða vinstri

Sumar athugasemdirnar sem ég sé nú, snúast um að reyna að lýsa þessu sorglega ástandi sem ritskoðun „íhaldsmanna“. Það er algjörlega rangt. Þeir sem þaggað var niður í voru fyrst og fremst að andmæla sóttvarnaraðgerðum (sem voru drifnar áfram af gríðarlegum fjölda fólks, jafnt til hægri og vinstri, þar á meðal Mike Pence). Andófsmenn gerræðisins koma alls staðar að úr pólitíska litrófinu og margir þeirra hafa enga pólitíska skoðun, heldur aðeins þörf fyrir að segja sannleikann.

(Að öðru leyti er ég dauðleiður á fölsunum fjölmiðlaeftirlitsþjónusta sem lýsa Brownstone sem íhaldssömum eða hægrisinnuðum vettvangi. Þetta er fáránlegt, því meira en helmingur greinahöfunda okkar, jafnvel rúmlega það, eru vinstrimenn. Hvað sjálfan mig varðar var ég meðal þeirra fyrstu sem vöruðu við því hvernig forsetatíð Trumps gæti orðið. Þetta var árið 2015. Þessu fylgdi ég eftir með heilli bók sem afhjúpaði forsjárhyggju hægrimanna.)

Hversu nálægt vorum við því að glata málfrelsinu að fullu? Mjög nálægt. Og baráttan er í fullum gangi. Þegar ég kláraði að skrifa þennan pistil fékk ég eftirfarandi tilkynningu frá LinkedIn varðandi grein á Brownstone frá því í gær. Nú vitum við með vissu hvað hvetur til slíks og það er ekki viðskiptavinir, hluthafar og upplýsingafrelsi. Það snýst um þjónustu við stjórnvöld og djúpríkið sérstaklega.

Með hverri uppljóstrun sem fram kemur finnst okkur að verra geti það ekki orðið. En það versnar sífellt.

Allt snýst þetta um völd og peninga

FTX hneykslið tengist þessu traustum böndum og við vitum enn mjög lítið um hvert tíu milljarðar af því fé sem þar var svikið út enduðu. Við erum hins vegar farin að rekja slóðina, og þeir streyma í gegnum fjölmörg félagasamtök, vísindamenn og háskóla sem þögnuðu á dularfullan hátt strax í mars 2020. 

Mörg okkar héldu í fáein ár að við værum kannski búin að missa vitið. Hvers vegna hefðu annars svo margar áhrifamiklar raddir og stofnanir sem áður nutu virðingar teknar að fylgja í blindni eyðileggingu mannlegs frelsis og samfélags í nafni fjarstæðukenndrar áætlunar um að hafa stjórn á veiru með því að afnema frelsi fólks? Hvernig gerðist þetta eiginlega?

Við erum smám saman að læra; þetta snerist um völd og peninga.

Og þó höfum við líka fyrir okkur nokkur dæmi um hvernig sigra megi yfirvaldið. Bhattacharya, Musk og svo margir aðrir vísa veginn. Það er vegur siðferðisþreksins: Að gera rétt. Að spila ekki með. Að segja sannleikann og berjast fyrir honum. Öll auðæfi og völd heimsins sameinuð geta ekki staðist gagnvart þessu einfalda boðorði.

Því miður er slíkt siðferðisþrek of sjaldgæft. Allt of sjaldgæft.

Við höfum öll verið persónulega niðurbrotin að sjá svo marga vini, samstarfsmenn, stofnanir og stofnanir sem við treystum bregðast svo algjörlega á þessari þriggja ára helreið. Heilu hóparnir þögnuðu, líka þeir sem sögðust styðja frelsið. Á sama tíma ættum við að vera innblásin af hinum fáu dæmum um hugrekki og hversu miklu máli það skiptir.

Brownstone heitir því að komast til botns í þessum hörmungum með einum eða öðrum hætti og draga fram og styðja bestu rannsakendur, greinahöfunda og fagfólk sem getur aðstoðað við þetta stóra verkefni: að finna sannleikann og benda á leið út úr þessum fáránlegu hörmungum. Ég lýk þessu með því að koma á framfæri einlægum þökkum til lesenda okkar og stuðningsfólks. Við þörfnumst ykkar meira en nokkru sinni. Allur heimurinn þarfnast ykkar.

Eins og Ludwig von Mises skrifaði árið 1922:

„Allir bera hluta af samfélaginu á herðum sér; enginn verður leystur undan ábyrgð sinni gagnvart öðrum. Og enginn getur tryggt sjálfum sér öryggi ef samfélagið stefnir til glötunar. Því verðum við, hvert og eitt, og vegna okkar eigin hagsmuna, að taka af krafti þátt í hugmyndabaráttunni. Enginn getur staðið á hliðarlínunni; það eru hagsmunir allra sem ráðast af niðurstöðunni. Hvort sem hann vill það eða ekki er hver maður þátttakandi í hinni sögulegu baráttu, þeirri afgerandi baráttu sem þessir viðsjárverðu tímar krefjast.“


Eftir Jeffrey Tucker. Greinin birtist fyrst á vef Brownstone Institute og kemur hér í eilítið styttri útgáfu.