Eftir tveggja ára rannsókn hefur sérstök nefnd Bandaríkjaþings um COVID-19 faraldurinn birt lokaskýrslu sína undir heitinu „Endurskoðun aðgerða í COVID-19 faraldrinum: Lærdómar og leiðin fram á við“. Skýrslan er ítarlegasta greining á faraldrinum sem gerð hefur verið hingað til og er ætluð til að þjóna sem leiðarvísir fyrir þingið, framkvæmdavaldið og einkageirann við undirbúning og viðbrögð við framtíðarfaröldrum. Skýrslan spannar 520 blaðsíður og dregur fram lykilatriði um uppruna faraldursins, fjármögnun, misbresti í stefnumótun og áhrif sóttvarnaráðstafana.
Skýrslan byggir á ítarlegu rannsóknarferli þar sem farið var yfir meira en eina milljón skjala, yfir 100 fyrirspurnabréf voru send, og haldnir voru fjölmargir fundir og yfirheyrslur. Hún varpar ljósi á spillingu innan opinbers heilbrigðiskerfis Bandaríkjanna, staðfestir líklegan uppruna faraldursins, og sýnir hvernig stjórnmálalegur þrýstingur og skortur á gagnsæi hafi gert ástandið verra.
Eitt stærsta álitaefnið hefur verið uppruni COVID-19. Niðurstaða skýrslunnar er að veiran hafi líklega komið úr rannsóknarstofu í Wuhan í Kína. Þetta byggist á fimm meginrökum, þar á meðal því að veiran hafi líffræðilega eiginleika sem ekki finnast í náttúrunni og að öll tilfelli megi rekja til eins upprunalegs smits. Þá vekur athygli að Wuhan sé heimili rannsóknarstofa þar sem framkvæmdar eru hættulegar „gain-of-function“ rannsóknir við ófullnægjandi öryggisskilyrði. Enn fremur sýna gögn að rannsakendur við Wuhan Institute of Virology hafi veikst af veiru sem líkist COVID-19 mörgum mánuðum áður en veiran var greind opinberlega.
Þrátt fyrir þessar vísbendingar var „náttúrulegur uppruni“ veirunnar kynntur sem endanleg niðurstaða, sem ýtt var undir af heilbrigðisyfirvöldum og fjölmiðlum með stuðningi Dr. Antonio Fauci, forstjóra NIAD. Skýrslan dregur fram hvernig þessi skýring var notuð til að afneita möguleikanum á uppruna í rannsóknarstofu, jafnvel þótt vísindalegar sannanir styddu hann.
Skýrslan sýnir fram á alvarlegar brotalamir í því hvernig bandarísk yfirvöld fjármagna og hafa eftirlit með áhættusömum rannsóknum á veirum. EcoHealth Alliance, undir stjórn Dr. Peter Daszak, notaði alríkisfé til að styðja við áhættusamar rannsóknir í Wuhan. Eftir að sönnunargögn um brot á skilmálum NIH-styrkja voru birt, voru allar fjárveitingar til EcoHealth stöðvaðar.
Ennfremur var ljóst að NIH hafði ófullkomin ferli til að stjórna fjármögnun slíkra rannsókna, sem skapaði hættu fyrir bæði lýðheilsu og þjóðaröryggi. Skýrslan sýnir einnig hvernig starfsmenn NIH, þar á meðal Dr. David Morens, fóru í kringum alríkislög um skjalaskráningu og lokuðu á gagnrýni.
Sóttvarnaráðstafanir á borð við lokanir og grímuskyldu reyndust í mörgum tilvikum byggðar á ótraustum vísindum. Samkvæmt skýrslunni var tillagan um að halda 6 feta fjarlægð tilviljanakennd og án vísindalegrar undirstöðu. Grímuskylda, sem átti að verja almenning gegn smiti, var kynnt með óljósum og mótsagnakenndum skilaboðum sem drógu úr trausti almennings á heilbrigðisyfirvöldum.
Lokanir höfðu víðtæk skaðleg áhrif, bæði á efnahag og heilsu fólks. Fyrirtæki urðu fyrir miklu tjóni, þar sem meira en 160.000 þeirra lokuðu, þar af 60% varanlega. Fyrirtæki sem héldu starfsemi áfram glímdu við hnökra í birgðakeðjum, sem jók á vandamál.
Skólalokanir höfðu sérstaklega alvarlegar afleiðingar. Þær ollu sögulegum námsbresti og hröðuðu uppsveiflu í geðrænum vandamálum hjá börnum og ungmennum. Gögn sýna að sjálfsvígstilraunir stúlkna á aldrinum 12-17 ára jukust um 51%.
Aðgerðir CDC við að þróa leiðbeiningar um skólaopnun urðu fyrir áhrifum frá pólitískum samtökum kennara, sem tafði enduropnun skóla og jók á skaðleg áhrif lokana.
Skýrslan gagnrýnir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, WHO, harðlega fyrir að láta undan þrýstingi frá kínverskum stjórnvöldum á fyrstu stigum faraldursins. Þessi mistök leiddu til þess að mikilvægar upplýsingar bárust ekki alþjóðasamfélaginu tímanlega. WHO hefur síðan kynnt nýjan „faraldurssáttmála“ sem nefndin varar við, þar sem hann gæti skaðað bandaríska hagsmuni.
Ein af helstu niðurstöðum skýrslunnar er að skortur á gagnsæi og ábyrgð innan opinbera heilbrigðiskerfisins hafi grafið undan trausti almennings. Skýrslan hvetur til þess að í framtíðinni verði viðbrögðum við faröldrum stýrt af sérfræðingum án hagsmunaárekstra, með áherslu á heiðarleika og vísindaleg vinnubrögð.
Þessi nýja skýrsla bandarísku þingnefndarinnar hefur vakið verðskulduð viðbrögð og á eflaust eftir að koma að miklu gagni við að draga lærdóm af þeim skaða sem samfélaginu og vísindunum var unninn. Eflaust er þó langt í land hérlendis að viðlíka lærdómur verði dreginn af því tjóni sem hér var unnið, sem meðal annars má sjá af því að skýrslan liggur enn í þagnargildi í íslenskum fjölmiðlum og að í stað þess að draga þá til ábyrgðar hafa nú helstu gerendurnir í atlögunni verið kjörnir á valdastóla.