Kolefnisspor íslensks heimilis er langtum minna en gerist í Evrópu.
Hér eru hús lýst með raforku frá vatnsorkuverum og hituð með jarðvarma. Á meginlandinu er 80% af orkunotkun heimila jarðgas eða rafmagn frá gas- og kolaorkuverum.
Svigrúm meðalheimilis í ESB til að draga verulega úr útblæstri gróðurhúsalofts er því miklu meira en íslensks heimilis og tæknin er bæði þekkt og hagkvæm – vonum að þeim gangi bara vel í því verkefni.
En, við getum ekki dregið frekar úr losun hér á landi nema nota mjög dýrar aðferðir – skipta út bílaflotanum fyrir rafbíla – eða taka upp bíllausan lífsstíl og fækka utanlandsferðum verulega.
Er hægt að ætlast til slíkra fórna af Íslendingum þegar aðrar þjóðir eiga mjög langt í land með að jafna okkar árangur?
Svo má geta þess að 92% af kolefnispori Íslands kemur ekki frá heimilunum heldur frá stóriðju, sjávarútvegi og millilandaflugi sem er aðallega notað af þeim sem ekki búa hér. Fiskurinn fer allur til að metta erlenda munna og álið í erlendar verksmiðjur. Kolefnissporið af þessu er því í raun ekki íslenskra heimila.
Ísland hefur lagt mikið af mörkum til að lækka kolefnisspor í álframleiðslu heimsins því hér hafa álverin aðgang að raforku sem framleidd er án útblásturs. Sama má segja um gagnaverin.
En hvað með loftslagið? Er ekki rétt að Íslendingar leggi bara enn meira á sig til að koma í veg fyrir að heimurinn soðni?
Staðreyndin er því miður sú að þótt við myndum bara hætta öllum útblæstri á Íslandi 100% þá myndi það ekki draga mælanlega úr kolefnislosun á heimsvísu. Breytingin væri ómælanlega lítil í stóru myndinni. Það væri því til lítils.
Við höfum þegar gert langtum meira en aðrar þjóðir í loftslagsmálum og getum með góðri samvisku snúið okkur að málefnum sem eru brýn og skipta raunverulega einhverju máli fyrir íslensk heimili.
Höfundur er rekstrarfræðingur.
Endurbirt með leyfi.