Lágstéttinni fórnað í baráttunni við verðbólguna

Undanfarin ár hefur röð atburða leitt til þess efnahagsástands sem við búum nú við. Fyrir fjórum árum settu stjórnvöld efnahaginn á hliðina og lögðu niður stærstu útflutningsgrein þjóðarinnar, ferðamannaiðnaðinn, í baráttu sinni við kórónuveiruna. Á sama tíma voru vextir lækkaðir og boðið upp á ný úrræði fyrir fyrstu kaupendur, sem hvatti þá til fasteignakaupa. Aukin eftirspurn eftir fasteignum hækkaði verð og jók verðbólgu. Samhliða þessu jók Seðlabankinn peningamagn í umferð (lesist: „prentaði peninga“), sem hefur leitt til frekari verðbólgu. Á þessu tímabili átti sér einnig stað gífurlegur flutningur auðs frá fátækum til ríkra.

Í upphafi árs 2022 endaði kórónuveirufaraldurinn skyndilega þegar Rússland réðst inn í Úkraínu. Við ákváðum að hætta viðskiptum við Rússland og ráðast í efnahagsþvinganir gegn rússnesku þjóðinni. Þetta skaðaði efnahaginn okkar sennilega enn frekar. Fólk getur haft misjafnar skoðanir á því hvort efnahagsaðgerðir í faraldrinum og gegn Rússum hafi verið nauðsynlegar og réttlætanlegar. En flestir hljóta að vera sammála um að þær hafi átt lykilþátt í að framleiða þá verðbólgu sem hrjáir okkur í dag. Þetta eru ákvarðanir sem voru teknar, og við þurfum að horfast í augu við afleiðingar þeirra, sem bitna ekki jafnt á öllum.

Seðlabankastjóri ekki í tengslum við almenning

Á dögunum tilkynnti seðlabankastjóri að Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hafi ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% um komandi skeið. Í leiðinni gerði hann lítið úr bágri efnahagsstöðu stórrar hluta þjóðarinnar, þegar hann fullyrti að þessi harða peningastefna hafi ekki komið heimilum í vandræði, þar sem seðlabankinn sjái “eiginlega mjög lítil merki um greiðsluvandræði á fasteignalánum.” Þannig virðist hann vera algjörlega úr tengslum við stóran hluta almennings, og þann raunveruleika sem almenningur lifir.

Það er sennilega rétt hjá seðlabankastjóra að lítið hlutfall fólks sé komið í vanskil á fasteignalánunum sínum. Fátækasti hópur samfélagsins er á leigumarkaði, og þjáist nú vegna stórhækkaðs leiguverðs, sem er bein afleiðing stýrivaxtastefnu bankans og þeirrar verðbóglu sem hann hefur skapað. Margir fasteignaeigendur hafa neyðst til skipta yfir í verðtryggð lána til að lækka greiðslubyrði og ná endum saman, en brátt gætu eftirstöðvar lána þeirra orðið hærri en virði fasteignanna. Sumum tókst að festa hagstæða vexti til þriggja ára, en þeir vextir eru farnir að losna og koma fólki í fjárhagslegt uppnám. 

En þó svo að lítið hlutfall fasteignalána sé í vanskilum þýðir það ekki að fólki gangi almennt vel. Fólk hættir allra síðast að borga af húsnæðislánunum sínum. Þar á undan fara bílalán, tryggingar, hitaveita, símreikningar, yfirdráttarlán, kreditkort og annað í vanskil. Þegar þetta hrannast upp ásamt dráttarvöxtum og innheimtugjöldum, fer fólk loks að missa af fasteignalánagreiðslum. Þá er orðið of seint að lækka vexti.

Hvaða fólk mun fyrst glata heimilum sínum? Sennilega verða það fyrstu kaupendur; ungt fólk úr efnaminni röðum samfélagsins. Þetta fólk lagði blóð, svita og tár í að safna sér fyrir útborgun, sem það mun bráðlega glata. Þetta er jafnvel fólk sem er nýlega búið að stofna til fjölskyldu. Áhyggjurnar sem fylgja fjárhagsörðugleikunum eru nú þegar farnar að hafa áhrif á heimilislíf þessa fólks. Áfallið við að missa heimilin og allt sem það hefur unnið fyrir verður gífurlegt. Þunglyndi mun ná völdum á huga margra, áfengis- og vímuefnaneysla mun aukast, og fyrir rest munu sumir jafnvel binda enda á líf sitt. Allt mun þetta kosta samfélagið fjármuni, og hafa neikvæð áhrif á efnahagslífið. Þetta er einn sá hópur fólks sem yfirvöld ættu að gera sem mest til að vernda – frekar en að kasta honum fyrir úlfana í von og óvon um að það bjargi restinni af heildinni.

Raunveruleikinn bara tölur á blaði

En af hverju virkar seðlabankastjóri svona kaldur? Mögulega eiga stjórnmála- og embættismenn það til að sjá raunveruleika almennings bara sem tölur á blaði. Maður fær oft þá tilfinningu að þessir menn séu ekki í neinum tengslum við almenning í landinu. Gjáin milli ríkra og fátækra virðist víkka og víkka. Stjórnmála- og embættismenn koma sjaldnast úr efnaminni röðum samfélagsins, og hafa takmörkuð tengsl við þennan hluta þjóðarinnar. Þeir þekkja ekki raunveruleika þeirra, en horfa þess í stað á lykiltölur á blaði, og sannfæra sjálfa sig um að allt sé í fínu lagi í því samfélagi sem þeir stjórna.

Vandamálið með aðgerðir stjórnvalda sem eiga að draga úr neyslu er að þær bitna iðulega verst á þeim sem síst skyldi. Það er leiðinlegt fyrir fólk í milli- og efri stétt þegar vextir og skattar hækka, en það hefur hörmulegar afleiðingar á efnaminna fólk. Það er löngu orðið tímabært að stjórnvöld finni nýjar leiðir til að ná verðbólgu niður, á kostnað þeirra sem græddu á tá og fingri á þeim aðgerðum stjórnvalda sem sköpuðu þessa verðbólgu, sem og annarra sem mega við því, frekar en að henda alltaf sama fólkinu fyrir úlfana.

1 Comment

  1. Grímur

    Ein af tölunum sem horft er á þegar vaxtastigið er ákvarðað er kortavelta og hún hefur verið að aukast.

    Ég er miðaldra launamaður á góðum launum og hef náð að geiða upp skuldirnar. Ég er með peninga á bók og hver prósenta í hærri stýrivöxtum þýðir nokkra tíuþúsundkalla í auknar ráðstöfunartekjur fyrir mig á mánuði. Ég er bara með smáaura á sparireikningnum miðað við marga en ég get leyft mér að vera með háan vísareikning á meðan þessir vextir skila sér inn á sparisjóðasbókina.

    Ætli hærri fjármagnsskattur væri sniðug leið til að draga úr eftirspurn? Hvað segja hægri mennirnir um það?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *