Þegar vígin falla…

Bandarískt lýðræði, sem á að heita kyndilberi lýðræðis í heiminum almennt, er að veslast upp fyrir augunum á okkur. Meginstraumsmiðlar (MSM), þ.m.t. ríkisreknir fjölmiðlar eins og BBC og RÚV, hafa tekið fullan þátt í að breiða yfir, fela og afvegaleiða, með þeim árangri að stærstur hluti almennings í USA og hér á Íslandi varð steinhissa þegar hörmulegt ástand bandaríkjaforseta afhjúpaðist í kappræðuþætti á CNN fyrir nokkrum dögum. Þeir sem daglega þiggja sína ,,andlegu næringu” frá meginstraumsmiðlunum vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar þeim varð ljóst að valdamesti maður valdamesta ríkis á jörðunni er óhæfur til að fara með völd. Spurningin sem enginn spyr, en allir ættu að spyrja sig er þessi: Hverjir hafa í reynd verið að stjórna USA síðustu árin? Ein tilgátan er að svarið gæti mögulega verið að finna hér, í hrollvekjandi ávarpi Bidens frá því í september 2021.

Getur hugsast að viðvörunarorð John F. Kennedy, Dwight Eisenhowers o.fl. um ógnina sem stafar af áhrifum stærstu framleiðslufyrirtækjanna á stefnumótun stjórnvalda séu nú að kristallast sem raunveruleiki? Getur verið að sá vefur ósanninda sem stjórnmálaflokkar og stærstu fjölmiðlar hafa spunnið í sameiningu síðustu áratugi sé nú loks að hrynja? Getur hugsast að kappræðuþáttur í sjálfu höfuðvíginu, CNN, hafi kippt stoðunum undan spilaborginni? Afhjúpaðist þar á 90 mínútum að sérfræðingarnir, fræðimennirnir, blaðamennirnir og álitsgjafarnir hafa meira og minna allir verið að segja ósatt síðustu ár þegar þeir hafa fullyrt að Biden sé við hestaheilsu og fullfær um að gegna skyldum sínum? Getur þá verið samsæriskenningar um elliglöp Biden hafi átt við rök að styðjast? Hvers konar endurskoðun myndi það kalla á, t.d. hvað varðar atburðarásina í Úkraínu o.fl.? Hverju ber okkur að trúa næst þegar einhver prófessor í stjórnmálafræði eða fjölmiðlafræði varar okkur við upplýsingaóreiðu eða áminnir okkur um að treysta aðeins opinberlega vottuðum upplýsingaveitum eða ,,stórum og rótgrónum fjölmiðlum” eins og fjölmiðlanefnd hefur áminnt okkur um? 

Að þessu sögðu má þó benda á að ekki voru allir óupplýstir um stöðu mála. Ekki allir hafa látið heilaþvo sig. Í raun mátti öllum vera ljóst hver staðan var, þ.e. öllum sem vildu vita, sbr. t.d. þessa samantekt hér af furðulegri hegðun Bidens slíðustu ár.

Í stuttu máli stöndum við frammi fyrir grafalvarlegri stöðu, þar sem stjórnmálamenn, ríkisstofnanir, opinberar nefndir, fræðimenn og stærstu fjölmiðlar hafa í raun framið trúnaðarbrot gagnvart almenningi með því að halda á lofti alls konar villuljósum (gaslýsingu) til að afvegaleiða fólk og blekkja. 

Og samkvæmt þessari frétt virðist sem stærstu fjölmiðlarnir ætli að halda áfram að taka þátt í blekkingarleiknum, sbr. viðtal við Biden sem nú hefur verið birt á ABC og mbl.is endurbirtir gagnrýnislaust.  

Til hvers ráða menn sig sem ráðgjafa, til hvers að reka fjölmiðil og starfa sem blaðamaður ef þessir sömu menn treysta sér ekki til að segja sannleikann?

Það brakar og brestur í kerfinu öllu. Svo virðist sem enn eigi að freista þess að afstýra kerfishruni með því að halda áfram að segja að Biden sé í topplagi og hæfur stjórnandi. En sprungurnar eru orðnar sýnilegar öllum. Vesturlönd eru að hrynja – innan frá – fyrir augunum á okkur. Ef ekki verður farið að taka á málum nú þegar munu Rússland og Kína yfirtaka Vesturlönd, beint eða óbeint, án þess að þurfa einu sinni að hleypa af einu skoti. 

Íhaldsflokkurinn í Bretlandi er nýjasta fórnarlamb slíks innra hruns, því flokkurinn féll með brambolti í kosningum þar í landi í vikunni, undan eigin þunga, því flokkurinn hefur fyrir löngu sagt skilið við eigin stefnu og hvorki verið verðugur merkisberi hófstillts íhalds né klassísks frjálslyndis. Þannig fer fyrir þeim sem svíkja sjálfa sig, víkja sér undan hlutverki sínu og bregðast skyldum sínum. 

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *