Breyttu lífi þínu!

Vér þekktum ekki fáheyrt höfuð hans
með hvarmaeplin þroska og ljósi fegin.
En lampi bolsins logar. Niður dregin
nú lifir sjón hans þar í ferskum glans

því annars gæti ekki blindað þig
hans ávöl bringa, og kviknað bros þar innar
og læðzt að horfnum limi frjóseminnar
í lífsins miðju um þýðra lenda svig.

Þá væri hann ekki nema stýfður steinn
sem stæði undir glærum herðum einn,
og ljómaði ei sem ljónsins feldur sléttur

og brytist ekki úr ytra borði sínu
sem stjarna: hér er enginn agnarblettur
sem ekki sér þig. Breyttu lífi þínu!

Þannig farast þýska skáldinu Rainer Maria Rilke orð í kvæðinu “Forn bolur Appollóns” í þýðingu Þorsteins Gylfasonar heitins, sem birtist fyrst í bók hans Sprek af reka 1993.

Kvæðið yrkir Rilke þegar hann stendur á tímamótum í lífi sínu, honum finnst hann hafa staðnað sem listamaður og fer til Parísar og dvelur hjá myndhöggvaranum Auguste Rodin. Að sögn varð kvæðið um þessa fornu grísku styttu einmitt til í kjölfar þess að sá síðarnefndi ráðlagði Rilke að heimsækja Louvre-safnið og velja þar eitt verk til að yrkja um.

Þessi höfuðlausa stytta væri auðvitað ekki annað en “stýfður steinn” nema fyrir tilstilli ímyndunaraflsins og þeirrar tengingar við list fortíðarinnar sem gerir skáldinu kleift að sjá fyrir sér upphaflega verkið, sjá ummerki þess og viðfangsefni í steininum stýfða. Og það sem meira er, verkið talar til hans, í huga skáldsins “sér” guðinn forni áhorfandann og hvetur hann til að endurmeta líf sitt: “Breyttu lífi þínu!”

Á tímum þegar við eigum á hættu að einangrast endanlega í eigin bergmálshellum, eins og Halldóra Lillý Jóhannsdóttir lögfræðingur bendir á í nýlegri grein hér á Krossgötum, er þessi hvatning mikilvæg. Um leið og tengslin, ekki aðeins við listina og söguna, heldur einnig tengsl okkar við hvert annað hverfa, þá steinrennum við, ef svo má að orði komast, verðum ekki annað en stýfðir steinar, án hlutverks, án hugsjóna, án kærleika.

Við höfum mörg á undanförnum árum gert hlýðnina og hugleysið að æðstu gildum, við höfum hlýtt í blindni og afneitun og alltof mörg setið uppi með kalkaðar æðar og hjörtu, jafnt í eiginlegri og óeiginlegri merkingu; steinrunnin af hlýðni. Við höfum hlýtt, og harðlokað augunum fyrir þeirri grunnþörf sem eðlileg mannleg samskipti eru, í skyndilegri ofsahræðslu við hætturnar sem lífið hefur ávallt búið okkur, en fyrst og fremst þó af ótta við að óhlýðnast, við að skera okkur úr.

En til að forðast að verða ekki nema stýfður steinn þurfum við að vera fær um að breyta lífi okkar, brjótast út úr stöðnuninni. Það breytir enginn lífi sínu á grundvelli hlýðni og hugleysis, heldur aðeins í krafti hugrekkis og heiðarleika. Og rótin hlýtur ávallt að liggja í kærleikanum, í ástinni, og í viljanum til að vaxa og þroskast með því að takast á við lífið. Það er til marks um að eitthvað mikilvægt sé að glatast þegar svo er komið að vaxandi hluti fólks virðist líta svo á að dauðinn sé sjálfsögð leið til að takast á við áskoranir lífsins, en Steinunn Þórðardóttir formaður Læknafélags Íslands vakti athygli á þessari óhugnanlegu þróun í grein hér á Krossgötum í vikunni.

Hinn forni bolur Appollóns, guðs gleðinnar, sannleikans og heilbrigðisins horfir á skáldið. Hann horfir á okkur hvert og eitt, það er enginn agnarblettur / sem ekki sér þig. Hann minnir okkur á að á endanum er ábyrgðin okkar. Ábyrgðin á okkur sjálfum og á samfélaginu. Og hann minnir líka á að heilbrigt samfélag byggir á því hvernig við veljum, saman og hvert fyrir sig, á hverjum degi, á grundvelli velvildar, hugrekkis og sannleiksástar.

1 Comment

  1. Grímur

    Í fjarlægri fortíð lögðu frjálshyggjumennirnir í MA próf fyrir hvern annan. Prófið fólst í því að spyrja um afstöðu til sjálfsvíga og ef manni fannst allt í lagi að fólk ákvæði sjálft hvenær það færi þá var maður mikill og góður frjálshyggjumaður en ef maður fór að velta fyrir sér samfélagslegri ábyrgð og þess háttar þá var maður kominn á hála braut forræðishyggjunnar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *