Fréttir af auknum líkum á heilsuskaða af völdum fiskiolíu birtust á íslenskum fréttamiðlum í vikunni. Íslendingar hafa löngum talið lýsið vera hin mesta heilsubót og fjölmargir vanið sig á að taka matskeið af lýsi með morgunmatnum frá blautu barnsbeini. Flestir eiga því erfitt með að trúa meintri skaðsemi lýsissins, ef marka má viðbrögðin við fréttinni í athugasemdarkerfum.
Bæði Mbl.is og Vísir birtu samskonar frétt, sem birtist upphaflega á CNN. Þar er vísað í bandaríska tölfræðilega langtímarannsókn byggða á gagnagrunni frá Bretlandi. Í báðum fréttum er vitnað í hjartalækni að nafni Dr. Andrew Freeman, sem er forstöðumaður hjá National Jewish Health í Denver, í Bandaríkjunum.
Samkvæmt frétt Mbl er haft eftir Freeman að áhyggjur lækna af lýsi séu „ekki nýjar af nálinni“ og að um sé að ræða lýsi „sem selt er án lyfseðils.“ Með öðrum orðum sé lýsið sem selt er í venjulegum matvöruverslunum slæmt en lýsi sem selt er gegn lyfseðli öruggt. Í sömu grein eru tvær lyfsseðilskyldar lýsisafurðir nefndar á nafn; Vascepa og Lovaza, af óútskýrðum ástæðum, en fréttin kallar beinlínis ekki eftir því að lyfjaheiti þurfi nauðsynlega að fylgja frétt sem greinir frá niðurstöðum tölfræðilegrar rannsóknar.
„Ég myndi segja það liðna tíð að fólk fari út í búð bara til að kaupa glas af lýsi í von um að það bæti heilsu þeirra, en lýsi gæti enn þá spilað hlutverk í lífi þeirra sem þegar eru veikir,“ bætir Freeman við, og er hér að tala fyrir lyfseðilsskyldu lýsi, en samkvæmt áður nefndri rannsókn sýni lýsisinntaka batamerki eingöngu hjá þeim sem þegar eru veikir, með inntöku á lyfsseðilsskyldu lýsi. Hjá heilbrigðu fólki sé hinsvegar hægt að sjá auknar líkur á heilablæðingu og gáttatifi hjá hópi fólks sem taki inn fiskiolíu reglulega, samkvæmt tölfræðinni.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fæðubótaefni eru sett í annarskonar flokk í fréttaflutningi sem þessum. Lýsi er flokkað sem fæðubótaefni. Það er hinsvegar nýtt af nálinni að fæðubótaefni sé skilgreint sem beinlínis skaðlegt og að í sömu frétt komi „lausnin“ á vandamálinu, sem séu hin lyfseðilsskyldu lyf, sem eru auk þess tilgreind með lyfjaheiti. Það er því nærtækara að kalla þessa umfjöllun auglýsingu fyrir lyfjaframleiðendur, frekar en frétt.
Þá er athugavert að fréttir af staðfestum aukaverkunum af covidsprautum bárust í sömu vikunni á Íslandi. Tveir karlmenn á besta aldri mættu í viðtal í Bítið á Bylgjunni og greindu frá staðfestum aukaverkunum sínum; gollurhúsabólgu í hjarta. Aukaverkanirnar séu það algengar að til standi að stofna félag um helgina, 26 maí í Kríunesi, fyrir fólk sem hlotið hefur aukaverkanir af covidsprautunum. Hinsvegar birtist aldrei fréttin af viðtalinu við mennina á Facebook-síðu Vísis og fékk hún því minni dreifingu á samfélagsmiðlum.
Þetta er ákveðið merki um hlutdrægni á upplýsingagjöf sem varðar heilsu almennings og hjartasjúkdóma. Fréttamiðlarnir taka þátt í að koma óorði á íslenska hefð að neyta fiskiolíu daglega í heilsubætandi tilgangi en hylma yfir skaðsemi annarra lyfjaaðgerða sem tengjast hjartasjúkdómum.